Elías Elíasson verkfræðingur segir helzta löst ísl. stjórnmálamanna að þeir þráast við að láta rannsaka afleiðingar stórra ákvarðana sinna á land og þjóð þegar til lengri tíma sé litið, t.d. í orkupakkamálinu, verði það samþykkt, og segir Elías afleiðingarnar geta orðið graf-alvarlegar:
Það er geysilega mikið í húfi. Þetta er spurning um hvort Ísland verði samkeppnishæft meðal þjóða; það sem ég á við er að fyrst fer virðisaukaframleiðslan úr landi, síðan fer fjármagnið úr landi og svo fara börnin úr landi, segir Elías.
Ennfremur kom fram í máli hans, að með Þriðja orkupakkanum yrði "farið að höggva anzi gróflega í fullveldi okkar."
Um þögn ráðamanna um málið: "Við getum ekkert dæmt um það, af hverju þessi þögn stafar. Hún gæti verið vísvitandi bara taktísk baráttuaðferð. Hún getur líka lýst víðáttumikilli vanþekkingu. Og hérna stendur maður og bara veit ekki hverju maður á að trúa. Maður trúir því ekki, að stjórnvöld búi yfir jafn-víðáttumikilli vanþekkingu og þessi þögn gefur til kynna."
Um afleiðingar af því, að við hefðum samþykkt 3. orkupakkann: "Við megum [þá] ekki bjóða okkar iðnaði, hvað sem hann nefnist, upp á annað verð en sambærilegur iðnaður í Evrópu. ... Við skulum segja, að Landsvirkjun væri nú bara í eigu garðyrkjubænda, þá væri hægt að láta Landsvirkjun selja garðyrkjubændum orku eitthvað ódýrari, en af því að fyrirtækið er í opinberri eigu, þá getur ESB sett um það reglur, að það megi ekki hygla hinum og þessum, og bera því við, að með því væri verið að stunda niðurgreiðslur."
"Við erum að taka mikla viðskiptalega áhættu" með því að samþykkja Þriðja orkupakkann, svaraði hann aðspurður.
"Það er geysilega mikið í húfi. Það er bara spurning hvort þessi þjóð verður samkeppnishæf í samfélagi þjóðanna ..."
Hlusta má viðtalið í spilara (hljóðrás) á vef Útvarps Sögu.
Hér er byggt á og þegið af frétt Jóhanns Kristjánssonar tæknimanns um málið á vef Útvarps Sögu, en viðtalið við Elías B. Elíasson hafði Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri. --jvj.
Meginflokkur: Auðlindir og orkumál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.