TVÖ alvarleg ásóknarmál í gangi frá ESB og tagl­hnýt­ingum þess gegn lands- og þjóðar­réttindum. Svívirðileg ný skuldbinding

Áberandi pólitíkusar, varaform. Sjálfstæðisfl. og ritarinn (form. utan­ríkism.nefnd­ar Alþ.), utan­rík­is­ráð­herra og nú síðast innan­ríkis­ráð­herra* ger­ast jarð­ýtur fyrir ESB með Þriðja orku­pakkann, land­inu til skað­ræðis og rétt­inda­svipt­is og raf­orku­notendum til mikils fjár­hags­tjóns, ef áformin ná fram að ganga. 

ENNFREMUR hafa ráðamenn í sitjandi ríkisstjórn, umboðslaust og án þess að tilkynna það kjósendum fyrir fram, skrifað upp á sví­virði­leg tilmæli 15. þ.m. (sjá hér: Beiðni Íslands um að gangast undir til­kynninga­skyldu), með þeim áritaða formlega bleðli, að "þörf sé á hertri tilkynn­inga­skyldu um fyrirhugaða löggjöf á Íslandi" og að Alþingi verði þannig tilkynn­ingar­skylt til ESB með þriggja mánaða fyrirvara um öll lagafrumvörp sem hér verða lögð fram!**

Fráleitari árás á frelsi þingsins og einstakra þingmanna til að bregðast snöggt við aðstæðum á hverjum tíma til að leggja fram frumvörp hefur aldrei sézt áður. Hér er fyrir fram verið að beygja sig fyrir erlendu valdi (ESB-stór­veldi gömlu nýlenduveldanna) með þeirri smánarlegu auðmýkt­ar­afstöðu, að tilkynna þurfi með árs­fjórðungs-fyrirvara einhverjum útlendingum (stórveldi) um það sem við sjáum sjálf nauðsynlegt sem lagasetningu hér í landi, sem kemur ESB ekkert við.

Er ekki nóg, að staðfestulausir íslenzkir pólitíkusar hafa boðið því heim frá 1994, að við tökum hér við ókjörum af ESB-tilskip­unum sem eru farnar að teygja sig langt út fyrir þann ramma, sem við héldum að myndi gilda hér um þær, frá og með samþykkt EES-samningsins?

Nú stendur til að binda hendur og fætur og múlbinda þingmenn til að mega ekki mæla fyrir frum­vörpum fyrr en tilkynnt hefur verið til Brussel með þriggja mánaða fyrirvara um framlagningu þeirra!

Er þetta í alvöru að skapi allra þingmanna Sjálfstæðis­flokksins og Framsóknar­flokksins? Og hvaða afstöðu hefur t.d. Björn Bjarnason (meintur hlutlaus álitsgjafi um ESB-og EES-mál) í þessu efni? (maður sem hefur ítrekað verið að gera lítið úr landvarnar­starfi þarfra verk­fræð­inga og annarra sem vara við miklum háska af Þriðja orkupakk­anum).

Er Sjálfstæðisflokkurinn hruninn sem staðfastur princíp­flokkur og fylgjandi sjálfstæði Íslands? Á nú bara að ryðja öllum tilskip­unum og ásókn Brussel­valdsins braut hér á landi?

Engin furða, að æ oftar og víðar heyrast nú kröfur um uppsögn EES-samningsins, sem þar að auki hefur ekki reynzt okkur sú fjárhags­lega ábatalind sem menn héldu í upphafi og sumir reyna enn að halda fram að hann sé, þvert gegn framkomnum upp­lýsingum um annað.

En nýjustu tangarsóknir Brussel-býrókratanna og tagl­hnýt­inga þeirra hér á landi eru fullt tilefni til harðar mótstöðu, vitundar­vakn­ingar almennings og almennra mótmæla.

Sleitulaust upplýsingastarf Bjarna Jónssonar o.fl. sérfróðra verk­fræðinga, með skrifum þeirra í dagblöð og á bloggsíðum þeirra, sem og á vefjum Frjáls lands og Heimssýnar, eru hér og verða vopnabúr fyrir þessa varnar­baráttu Íslendinga gegn klókinda­legri erlendri ágengni. Sjálf­stæðis­baráttunni er enn ekki lokið.

* Ummæli Sigríðar Andersen innanríkis­ráðherra um Þriðja orkupakkann í viðtali við Guðmund Franklín í Útvarpi Sögu í næstliðinni viku vekja furðu fleiri manna en undirritaðs, því að þarna virðist hún, þessi áður staðfasta manneskja, gengin í björg Björns Bjarnasonar og ESB-málpípa í flokknum!

Í þessu viðtali Sigríðar hjá Guðm. Franklín (lítt krítískum viðhlæj­anda hennar í þættinum, stuttu fyrir lok hans), partinum um orkupakkann, var hún furðulega óaðgætin og andvaralaus í þeim orðum sem hún lét falla um Þriðja orkupakkann, kallaði málið "storm í vatnsglasi", taldi í raun 3. orkupakkann lítil­fjörlega viðbót, "hvorki fugl né fisk" miðað við 1. og 2. pakkann! Og áhrif á raf­magnsverð geti orðið óveruleg, jafnvel þótt sæstrengur kæmi! -- "það er svo langsótt," sagði hún, að raf­magns­verð hækki, því að mjólkurverð hér hækki t.d. án ESB-áhrifa! -- þvílíkt óraunsæi! Þótt klók sé þessi Sigríður, hrað­mælt og fljót að hugsa, þá virðist heilum her ESB-sérfræðinga í laga­flækjum hafa tekizt þarna að "outwitta" hana og mun hugsan­lega, vegna meints orðstírs hennar og Björns Bjarnasonar, narra mestallan flokk hennar til fullrar meðvirkni með því bragði!
 
Svo er Sigríður Andersen líka fullkomlega fylgjandi Schengen-samningnum, jafnvel steypt þar í mót Björns Bjarnasonar?!
 
** Sjá einnig hér á Moggabloggi Heimssýnar í dag: Ísland fer fram á að gangast undir tilkynninga­skyldu
 

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Kærar þakkir Jón fyrir skelegga baráttu þína og athygli yfir miður skemmtilegri atburðarrás. Greinilegt að lýðræðis- og lýðveldissinnar þurfa að snúa bökum saman og stöðva undanlægjuháttinn sem leyfir yfirtöku ESB á stjórn Íslands.

Gústaf Adolf Skúlason, 25.2.2019 kl. 23:04

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Beztu þakkir, Gústaf félagi. Þú hefur sjálfur verið afar liðtækur baráttumaður fyrir landið og ert það enn.

Jón Valur Jensson, 25.2.2019 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband