25.2.2019 | 17:04
TVÖ alvarleg ásóknarmál í gangi frá ESB og taglhnýtingum þess gegn lands- og þjóðarréttindum. Svívirðileg ný skuldbinding
Áberandi pólitíkusar, varaform. Sjálfstæðisfl. og ritarinn (form. utanríkism.nefndar Alþ.), utanríkisráðherra og nú síðast innanríkisráðherra* gerast jarðýtur fyrir ESB með Þriðja orkupakkann, landinu til skaðræðis og réttindasviptis og raforkunotendum til mikils fjárhagstjóns, ef áformin ná fram að ganga.
ENNFREMUR hafa ráðamenn í sitjandi ríkisstjórn, umboðslaust og án þess að tilkynna það kjósendum fyrir fram, skrifað upp á svívirðileg tilmæli 15. þ.m. (sjá hér: Beiðni Íslands um að gangast undir tilkynningaskyldu), með þeim áritaða formlega bleðli, að "þörf sé á hertri tilkynningaskyldu um fyrirhugaða löggjöf á Íslandi" og að Alþingi verði þannig tilkynningarskylt til ESB með þriggja mánaða fyrirvara um öll lagafrumvörp sem hér verða lögð fram!**
Fráleitari árás á frelsi þingsins og einstakra þingmanna til að bregðast snöggt við aðstæðum á hverjum tíma til að leggja fram frumvörp hefur aldrei sézt áður. Hér er fyrir fram verið að beygja sig fyrir erlendu valdi (ESB-stórveldi gömlu nýlenduveldanna) með þeirri smánarlegu auðmýktarafstöðu, að tilkynna þurfi með ársfjórðungs-fyrirvara einhverjum útlendingum (stórveldi) um það sem við sjáum sjálf nauðsynlegt sem lagasetningu hér í landi, sem kemur ESB ekkert við.
Er ekki nóg, að staðfestulausir íslenzkir pólitíkusar hafa boðið því heim frá 1994, að við tökum hér við ókjörum af ESB-tilskipunum sem eru farnar að teygja sig langt út fyrir þann ramma, sem við héldum að myndi gilda hér um þær, frá og með samþykkt EES-samningsins?
Nú stendur til að binda hendur og fætur og múlbinda þingmenn til að mega ekki mæla fyrir frumvörpum fyrr en tilkynnt hefur verið til Brussel með þriggja mánaða fyrirvara um framlagningu þeirra!
Er þetta í alvöru að skapi allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins? Og hvaða afstöðu hefur t.d. Björn Bjarnason (meintur hlutlaus álitsgjafi um ESB-og EES-mál) í þessu efni? (maður sem hefur ítrekað verið að gera lítið úr landvarnarstarfi þarfra verkfræðinga og annarra sem vara við miklum háska af Þriðja orkupakkanum).
Er Sjálfstæðisflokkurinn hruninn sem staðfastur princípflokkur og fylgjandi sjálfstæði Íslands? Á nú bara að ryðja öllum tilskipunum og ásókn Brusselvaldsins braut hér á landi?
Engin furða, að æ oftar og víðar heyrast nú kröfur um uppsögn EES-samningsins, sem þar að auki hefur ekki reynzt okkur sú fjárhagslega ábatalind sem menn héldu í upphafi og sumir reyna enn að halda fram að hann sé, þvert gegn framkomnum upplýsingum um annað.
En nýjustu tangarsóknir Brussel-býrókratanna og taglhnýtinga þeirra hér á landi eru fullt tilefni til harðar mótstöðu, vitundarvakningar almennings og almennra mótmæla.
Sleitulaust upplýsingastarf Bjarna Jónssonar o.fl. sérfróðra verkfræðinga, með skrifum þeirra í dagblöð og á bloggsíðum þeirra, sem og á vefjum Frjáls lands og Heimssýnar, eru hér og verða vopnabúr fyrir þessa varnarbaráttu Íslendinga gegn klókindalegri erlendri ágengni. Sjálfstæðisbaráttunni er enn ekki lokið.
* Ummæli Sigríðar Andersen innanríkisráðherra um Þriðja orkupakkann í viðtali við Guðmund Franklín í Útvarpi Sögu í næstliðinni viku vekja furðu fleiri manna en undirritaðs, því að þarna virðist hún, þessi áður staðfasta manneskja, gengin í björg Björns Bjarnasonar og ESB-málpípa í flokknum!
Jón Valur Jensson.
Athugasemdir
Kærar þakkir Jón fyrir skelegga baráttu þína og athygli yfir miður skemmtilegri atburðarrás. Greinilegt að lýðræðis- og lýðveldissinnar þurfa að snúa bökum saman og stöðva undanlægjuháttinn sem leyfir yfirtöku ESB á stjórn Íslands.
Gústaf Adolf Skúlason, 25.2.2019 kl. 23:04
Beztu þakkir, Gústaf félagi. Þú hefur sjálfur verið afar liðtækur baráttumaður fyrir landið og ert það enn.
Jón Valur Jensson, 25.2.2019 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.