Gagnleg, upplýsandi umræða Jóns Baldvins um ýmis mál

Það er glæsilegt að hlýða á margt í viðtali Jóns Baldvins við Arn­þrúði Karls­dóttur, endur­teknu enn einu sinni í dag, sér í lagi orðræðu hans um Evrópu­sam­band­ið og hvað mis­tekizt hefur og bein­línis mis­farizt þar, einkum með evru­svæðið og ofur­vald Þýzka­lands á því, með hrika­legum afleið­ingum fyrir Grikk­land, Spán og Ítalíu o.fl. lönd, sem hafa ekki átt neitt skjól í Seðlabanka Evrópu, sem ekki hefur, eins og seðlabankar eiga að gera, veitt þeim ríkjum skjól til þrautavara í kreppu. Þjóðverjar hafa á meðan "grætt á tá og fingri" vegna evrunnar, hin ríkin ekki. Ennfremur er skandall, segir hann, að Evrópu­sambandið bjóði upp á Juncker sem forseta framkvæmdastjórnar ESB, mann úr mesta skatta­skjóli Evrópu, Lúxemborg.

En á vefslóð Útvarps Sögu er tengill eða hljóðskrá með öllu viðtalinu við JBH. Framan af ræðir hann mikið um aðdraganda þess að Ísland varð aðili að EES-samningnum, og þrátt fyrir að hann sé honum hlynntur, greiðir hann samt úr hlutum í þessu sambandi sem mörgum hafa verið óljósir, sérstaklega um ORKUMÁLIN, en Ísland eigi alls ekkert erindi inn á orkumarkað ESB, og okkur ber að forðast samband við hann, með sæstreng, eins og heitan eldinn. Íslendingar hefðu engan hag af því, einungis voldugir erlendir fjárfestar. Nánar fjallaði hann um það með mjög markverðum hætti. (Frh. á eftir.)

Því má skjóta að, að EVRAN ER EKKI lausn fyrir Ísland skv. rökstuddu mati JBH, eins og fram kemur hjá honum þegar um 90 mín. eru liðnar af viðtalinu. Hann talar ennfremur jafn-hörðum orðum gegn Þriðja orkupakka ESB eins og gegn lagningu sæstrengs.

Undir lokin, þegar nær 100 mín. eru liðnar af viðtalinu, fer hann að kynna bók sína um "Norræna módelið" sem ákjósanlegustu lausnina í efnahags- og stjórnmálum, í tilefni af útgáfu bókar hans þar um á ensku (og kínversk þýðing á leiðinni). Ennfremur kom hann í fyrri hlutanum m.a. inn mál Saudi-Arabíu og áhrif "systranna sjö" (olíuauðhringanna) á linkulega stefnu vesturveldanna gagnvart því einræðis- og ofbeldisríki, og sömuleiðis kom hann inn á Rússlands- og viðskiptabanns-málin vegna Úkraínu, en um þau eru margir (m.a. undir­ritaður) með önnur viðhorf. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þess virði að halda í EES-samninginn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband