Fullveldisframsal að vild evrókrata? Nei takk!

Með hjásetu við stjórn­laga­þings­kosn­ingar 27.11. 2010 færðu margir [hægri og miðju-] stjórnar­and­stæð­ing­ar Sam­fylk­ingu og fimmtu her­deild ESB þann áfanga­sigur á leið þeirra í Evrópu­stór­veld­ið að gefa þeim færi á lúmsk­um stjórn­ar­skrár­breyt­ingum. Afleið­ingin: [aðeins] 37% kjörsókn og áberandi stór hlutur ESB-sinna.

A.m.k. 10-11 af 25 efstu í kosningunni, sem reyndist ógild og að engu hafandi, eru eindregnir fylgis­menn inntöku Íslands í Evrópu­sambandið, þ. á m. klókur fyrrv. starfsmaður ESB, Eiríkur Bergmann Einarsson. Er hann nú á launum hjá Evrópu­fræðasetri á Bifröst, sem þiggur mikla styrki frá framkvæmdastjórn ESB! Svo tvöföldum í roðinu var falið að véla um stjórnarskrá og beita áhrifum sínum meðal græsku­lítilla „ráðsmanna“.

Aðrir helztu ESB-harðlínumenn í hópi hinna 25 eru Vilhjálmur Þor­steinsson í CCP, Gísli Tryggvason í Neytenda­stofu, sem leggst lágt við að afla „frumvarpinu“ (!) stuðnings­manna (sjá: lifsrettur.blog.is/blog/lifsrettur/entry/1255535/), Guð­mundur Gunnarsson úr Rafiðnaðarsambandinu, Illugi Jökulsson, Pavel Bartozek og Þorvaldur Gylfason, iðinn áróðurs­meistari sem heldur uppi blekk­ingum af alvarlegasta toga (sjá: jvj.blog.is/blog/jvj/entry/1263309/). Með fylgdu ESB-sinnar eins og Silja Bára Ómarsdóttir, Þórhildur Þorleifs­dóttir og Freyja Haraldsdóttir.

Að hvöt Illuga Jökulssonar sniðgengu 30 þingmenn úrskurð Hæsta­réttar um ógildingu kosn­ing­anna. Í trássi við stjórn­laga­þings­lögin, sem enn voru í gildi, var kosningin ekki endurtekin, en 25 manna hópnum boðið að setjast í nefnd í umboði 30 þingmanna, þ.e. „stjórn­lagaráð“. Þá var þeim gert óvænt tilboð, eins og til að liðka til fyrir þátt­tök­unni: að sitja í 4 mánuði á fullum alþingis­manns­launum í stað tveggja, eins og verða átti um stjórnlaga­þingið (sjá um það stór­alvar­lega mál og ólögmæta ferli: jvj.blog.is/blog/jvj/entry/1263312/).

Í takt við evrókratíska ofhleðslu „ráðsins“ rættust verstu hrakspárnar: laumað inn grófri fullveldisframsalsgrein, nr. 111. Jafnvel gamlir íhaldsmenn í „ráðinu“, Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu (jvj.blog.is/blog/jvj/entry/1263311/) og Ari Teits­son, féllu sem skotnir fyrir ódýrum áróðurs­brellum Þorvaldar og Eiríks til að réttlæta þá lúsléttu heimild til fullveldis­framsals. Er Pétur sízt linari en þeir í áróðri með 111. greininni, segir hana gera fullveldisframsal „erfiðara“ en núverandi stjórnarskrá og fullyrðir að stjórnarskráin skipti engu máli, ef ákveðið verði að ganga í ESB, því að þá víki hún fyrir lögum ESB.

Þetta er fleipur, meðan við erum utan ESB. Margar greinar stjórnarskrárinnar fela í sér, að allt löggjafarvald yfir okkur sé í höndum Alþingis og forsetans (og í vissum tilfellum: þjóðarinnar). Ef stjórnvöld reyna að brjóta 2. gr. hennar, 16., 26. gr. o.fl. með því að undirrita aðildarsamning sem gefur ESB formlega beint og æðsta löggjafarvald yfir landinu, sem og, að landslög hér verði víkjandi fyrir ESB-löggjöf sem rekst á þau, þá verður sú gjörð yfirvalda samstundis kærð til Hæstaréttar af sjálfvöktum fjöldasamtökum sem augljóst stjórnarskrárbrot.

Að segja að „þjóðin“ fái þá „vörn“ í 111. gr. að geta kosið gegn fullveldisframsali lýsir blindni, því að 30-35% kosningabærra manna gætu þá verið að taka afdrifaríka ákvörðun um framsal ríkisvalds, þ.m.t. allt æðsta löggjafarvald, til erlends stórríkis, sennilega fyrir fullt og allt, þ.e.a.s. ef atkvæði féllu nokkuð jafnt í 60-70% kjörsókn um málið. Geta 30% kallast „þjóðin“?

Útvarp Saga er í áróðursferð fyrir stjórnlaga­pakkann. Enginn laga­prófessor eða stjórn­skipunar­fræðingur kemst þar að hljóðnemanum, en „ráðsmönnum“ boðið nær daglega á rauða dregilinn, jafnvel ESB-innlimunar­sinnum eins og Þorvaldi, Eiríki Bergmann og Vilhjálmi Þorst. En þrír þáttagerðarmenn, sem dirfðust að gagnrýna stjórnlagaráð, voru látnir taka pokann sinn, ég, Baldur Ágústsson fv. forsetaframbj. og Jón Magnússon hrl. Ríkisstjórnarútvarpið stendur svo undir því nafni með hlutdrægu, ójöfnu vali manna í Silfur Egils o.fl. þætti í þágu stjórn­laga­ráðs – ítrekuð hlutleysisbrot, en stjórnar­skrá lýðveldisins liggur óbætt hjá garði og ekki minnzt á hana á atkvæða­seðlinum!

Í 82. tillögugr. er í raun búið til embætti varaforseta Íslands, í höndum eins manns, flokkspólitísks forseta Alþingis, fulltrúa stjórnar­meirihluta! Á að treysta honum fyrir málskotsvaldinu? Hví var forseta Hæstaréttar ekki fremur falið það valdahlutverk á hendur?

Í 113. gr. „ráðsins“ er 5/6 alþingismanna gefið vald til að breyta stjórnarskrá án þess að spyrja þjóðina! Fjórflokkurinn hefur yfirleitt haft fleiri en 5/6 þingsins. Þetta hentar honum vel.

Úr 74. gr. stjskr. vill „ráðið“ fella niður heimild til að láta banna viss félög. Gæti t.d. átt við kynþátta­haturs­félög, eins og Björg Thorarensen lagapróf. bendir á, alþjóðleg glæpasamtök, mafíur, hrottagengi.

Ráðið vill fella niður 2. tl. 72. gr. stjskr., en það ákvæði leyfir stjórnvöldum að takmarka eign útlendinga í fasteignum og er helzta vörn innan­ríkis­ráðherra gegn jarðeigna-ásælni Kínverja hér á landi.

Sama stjskr.ákvæði er traust vörn gegn kaupum útlendinga á útvegs­fyrirtækjum hér. Hefur Jón Bjarnason alþm. bent á, að ráðið vill þessa takmörkun á fasteigna­kaupum útlendinga feiga. Slík niðurfelling virðist þjónkun við óskir ESB-innlim­un­ar­sinna sem laumuðust inn í hið ólögmæta „ráð“.

Mestu varðar að menn afstýri því stórslysi að liðkað verði fyrir innlimun Íslands í ESB. Það er þeim mun mikil­vægara sem við eigum þar við að etja afl 1570 sinnum fólks­fleira veldis en íslenzku þjóðarinnar, afl sem notar sína fjárhags­yfirburði til að dæla hingað áróðursfé og hyggst gera það í vaxandi mæli.

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 20. október 2012, höfundur er guðfræðingur, prófarkalesari og form. Samtaka um rannsóknir á Evrópu­sambandinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband