16.8.2018 | 01:16
Svo bregðast krosstré sem önnur tré
Raunalegt er að sjá Björn Bjarnason ljá stefnunni á Acer-orkumálapakkann, með framsali ríkisvalds héðan, stuðning sinn í grein í gær. Væri honum sæmst að kafa djúpt og af allri sinni skarpskyggni í greinaskrif Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings í málið og losa sig við sínar blekkingarhugmyndir, enda þekkir Bjarni allan þennan málaflokk eins og handarbakið á sér, verkfræðilærður í Noregi, hefur fylgzt með allri EES-umræðunni þar og hefur langtíma reynslu sem rafmagnsverkfræðingur að störfum í okkar eigin virkjana- og raforkudreifingar-geira.
Nafn Rögnu Árnaóttur, fyrrv. utanþingsráðherra, sem Björn Bjarnason treystir á, er engin trygging fyrir því, að hún sé hér góður vegvísir, eða eru þeir margir sem trúa leiðsögn hennar og Dags B. Eggertssonar um Hvassahraunsflugvöll sem lausn á okkar flugsamgöngum?!
Undirritaður (upptekinn mjög í dag) frétti af þessari grein Björns á snjáldurskinnu sinni (facebók) eftir miðnættið, þar sem flugmaðurinn eldklári Þorkell Ásgeir Jóhannsson lagði inn þessa athugasemd:
Björn Bjarnason rekur nú mikinn áróður með 3. orkupakkanum með vísan í greinargerð Rögnu Árnadóttur um efnið. En greinin sú afhjúpar eitt lykilatriði málsins í kafla 4.4, neðst í fyrstu mgr, þar sem segir að ESA muni taka þátt í starfi ACER án atkvæðisréttar! Aðkoma ESA sem eftirlitsaðila (sem átti að róa EES-ríkin gagnvart valdaafsalinu til ACER) er því einungis til málamynda. (Feitletr. JVJ)
Vonandi er ekki að bresta flótti í þinglið Sjálfstæðisflokksins um málið, þ.e.a.s. frá einarðri varðstöðu um fullveldið, en landsfundur hefur þegar tekið afstöðu GEGN þessu yfirvofandi þingmáli ESB-vinanna.
Falli Sjálfstæðisflokkurinn (e.t.v. undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og leiðsögn Björns Bjarnasonar) fyrir fagurgala ESB-manna um málið, þá er hann að fella gildan part af fullveldisréttindum okkar og verðskuldar ekkert minna en sitt eigið gengisfall í augum eigin óbreyttra flokksmanna.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Auðlindir og orkumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:35 | Facebook
Athugasemdir
Við höfum nú kynnst aðferðum ESB og blekkingum og erum svo lánsöm að eiga velmenntaða holla Íslendinga sem fylgjast með hverskonar samskiptum íslenkra ráðamanna við Þá(esb). -Þakka þér Jón Valur.
Helga Kristjánsdóttir, 16.8.2018 kl. 06:19
Hjartans þakkir fyrir samstöðu þína í þessu máli og öðrum áður, Helga!
Bjarni Jónsson verkfræðingur var í viðtali við Pétur Gunnlaugsson í síðegisþætti Útvarps Sögu í gær, ég missti af honum, en var svo heppinn að heyra hann nánast allan nú á níunda tímanum, gríðarlega upplýsandi eins og hann var, nánast eins og hugljómun að hlusta á manninn ræða þessi mál.
Ég held að Björn Bjarnason verði sannarlega að hugsa sín mál betur, og það sama á við um þennan varaformann Sjálfstæðisflokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur!
Jón Valur Jensson, 16.8.2018 kl. 10:02
Missti úlfurinn óvart af sér sauðagæruna?
Hrossabrestur, 17.8.2018 kl. 17:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.