21.6.2018 | 03:04
Hér þarf forsetinn að fá vinnufrið, skoða málið og hafna því að lokum
ESB keyrir áfram á samræmingu ýmissar löggjafar aðildarlandanna, en ófrýnilegt er fyrir EES-löndin að bera af slíku ofurkostnað og áníðslu á eigin fullveldi.
Forseti Íslands MÁ EKKI samþykkja löggjöfina um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hann á að gefa sér góðan tíma til að skoða alla vankanta á henni og taka til greina ábendingar lögfróðustu manna. Hann kann svo sem að óska þess að virða vilja Alþingis, en ber þá um leið að líta til þess, að þingið meðhöndlaði þetta 147 bls. frumvarp í ofurflýti og flaustri og hefði alls ekki þurft að fara þessa leið, eins og Stefán Már Stefánsson prófessor, okkar helzti sérfræðingur í Evrópusambands-rétti, höfundur allmargra rita á því sviði, benti á, m.a. hér: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/06/18/thetta_skapar_afleitt_fordaemi/ Hér átti einmitt að fara að ráðum Stefáns Más um betri leið.
Forsetinn á ennfremur að líta til þess, að Alþingi hefur áður skjátlazt: 70% þingmanna greiddu atkvæði með Icesave-samningi, sem reyndist fara þvert gegn lagalegum réttindum okkar, sem og gegn þjóðarhag. Forsetanum hlýtur því að vera ljóst, að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjunarvald hans hefur þegar sannað gildi sitt.
Sbr. einnig viðvaranir Arnaldar Hjartarsonar, aðjúnkts við lagadeild Háskóla Íslands, um að ekki komi fram í frumvarpinu hvers vegna íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að falla frá tveggja stoða kerfinu, þannig að stofnun ESB fái vald til þess að veita íslenskri ríkisstofnun, það er Persónuvernd, fyrirmæli. Ætlunin með frumvarpinu virðist því vera sú að valdheimildir verði framseldar til stofnunar ESB, en að fulltrúum íslenska ríkisins verði ekki veittur atkvæðisréttur innan stofnunarinnar, ólíkt fulltrúum ríkja ESB," segir hann og að "í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds". Ennfremur að löggjöfin virðist ekki standast stjórnarskrána -- sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/06/04/virdist_ekki_standast_stjornarskrana/
Þá er ennfremur athyglisvert að lesa grein eftir Maríu Kristjánsdóttur, lögmann á LEX, á Vísir.is í gær: Fordæmalausar sektarheimildir, þar sem hún bendir m.a. á, að sektarfjárhæðir sem mælt er fyrir um í lögum þessum "eru með því hæsta sem þekkist í íslenskum lögum, en sektarramminn er frá 100 þúsund krónum til 2,4 milljarða króna fyrir alvarlegustu brotin" og geti jafnvel orðið hærri en 2,4 milljarðar króna í vissum tilvikum!
Áður hafði verið vakin athygli á því, að við lagasmíð um þessa löggjöf á hinum Norðurlöndunum eru sektarákvæðin langtum lægri! Eru alþingismenn kannski haldnir sjálfspyntingarhvöt til að þókknast Brusselvaldinu sem allra mest?
Jón Valur Jensson
Deilt um vélmennavöktun á Evrópuþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Utanríkisráðuneytið gerði sér lítið fyrir og rangtúlkaði niðurstöðu greiningar prófessors Stefáns Más á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um innleiðingu persónuverndarlagabálks ESB í EES-samninginn. Þeir, sem lesa greininguna með opnum huga, sjá strax, að fyrir framsali ríkisvalds með frumvarpinu er engin heimild í Stjórnarskrá og að innleiðingin felur í sér brot á EES-samninginum, og er þess vegna lögbrot. Utanríkisráðuneytið leyfir sér þá ósvinnu að skrifa með þingsályktun utanríkisráðherra um málið, að prófessor Stefán telji gjörninginn samræmast íslenzku stjórnarskránni.
Þetta mál er þess eðlis, að full ástæða er fyrir forseta lýðveldisins að synja því samþykkis.
Bjarni Jónsson, 21.6.2018 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.