Billeg áróðurstaktík ESB-flokka dæmir þá sjálfa

Samfylking og óorðvar Ágúst Ólafur, fv. varaform.: "Hjartað ræður för", en hér sló það fyrir Brussel-valdið* og gerir enn.

Viðreisn: "Vextir eru stærsta velferðar­málið"!

Stærra en atvinnu­stig og laun?! Í ESB eru um 20 milljónir manna án atvinnu. Þar er at­vinnu­leysi 8% en öllu meira á evru­svæðinu eða 9,5%. Á Íslandi er at­vinnu­leysið um 3%. Í maí sl. hafði dregið úr atvinnu­leysi í Bretlandi eftir að Brexit-ferlið hófst, komið niður í 4,5%. Laun hér koma nú vel út í samanburði við Norðurlönd og ESB.

Áróður Viðreisnar gengur út á, að krónan sé ómögulegur gjaldmiðill og valdi hér háu vaxtastigi og verðtryggingu. Skælbrosandi frambjóð­endur Viðreisnar á flennistórum skiltum, ESB-sinnarnir Þorgerður Katrín, Þorsteinn Víglundsson og Hanna Katrín Friðriksson, pössuðu upp á að hafa ekki með á myndinni sinn niðursteypta formann, fjármálaráðherrann Benedikt Jóhannesson, en hann hefur sem slíkur ekkert gert til að lækka hér okurvexti bankanna, ýtir ekki seðlabankastjóranum Má til verka, auglýsir heldur ekki stöðu hans lausa og ber þannig sjálfur ábyrgð á vaxtastiginu! Já, sjálfur fulltrúi "Viðreisnar"!

Svo er það ein pólitíska lygin, að við myndum bæði losna við háa vexti og verð­tryggingu með því að taka upp evru og ganga í Evrópu­sambandið. Í grein Guðmundar Ásgeirs­sonar kerfisfræðings, Evrumýtan um afnám verðtrygg­ingar fjallar hann m.a. um verð­trygg­ingu og vexti og ber fram algengar spurningar, sem hann síðan svarar, m.a.:

  • Er verðtrygging lánsfjár bönnuð í Evrópusambandinu? Svar: Nei, reglur Evrópu­sambandsins banna ekki verðtryggingu svo lengi sem upplýst er um áhrif hennar á kostnað við lántöku.
  • Myndi verðtrygging ekki hverfa eða verða áhrifalaus með aðild að mynt­bandalagi? Svar: Nei, verð­trygging er skilmáli sem er ekki prentaður á peninga­seðla heldur samninga og slíkir samningar myndu ekki falla sjálfkrafa úr gildi þó gengið yrði í erlent myntbandalag.
  • Hvernig á þá að afnema verðtryggingu lánsfjár miðað við vísitölu neysluverðs?  Svar: Það er einfalt að afnema heimildina úr íslenskum lögum með samþykki meirihluta Alþingis.
  • Hvað hefur þetta þá með Evrópumál að gera? Svar: Ekkert sérstakt í sjálfu sér.

Þá er þessi kafli greinar Guðmundar merkilega skýr og talandi:

Kenning: Verðtrygging er nauðsynleg því krónan er ónýtur gjaldmiðill.

Staðreyndir: Krónan er ekki ónýtari en svo að með henni má greiða allar löglegar fjárkröfur á Íslandi líkt og á við um langflesta þjóðargjaldmiðla. Verðtrygging er ekki prentuð á peninga heldur byggist hún á samnings­skilmálum. Verðtrygging er ekki náttúrulögmál heldur undan­tekning frá megin­reglu íslensks réttar um bann við verð­tryggingu lánsfjár án lagaheimildar. Verðtrygging var á sínum tíma leyfð sérstak­lega með bráðabirg­ðalögum en það hefur ekkert með gjald­miðilinn að gera.

Kenning: Í Evrópu­sambandinu er verðtrygging óheimil.

Staðreyndir: Verðtrygging er ekki bönnuð í Evrópu­sambandinu eins og hefur verið staðfest af þar til bærum dómstólum, þó með fyrirvörum um að skilmálarnir séu skýrir og lánskostnaður vel kynntur fyrir lántaka. Allar Evrópu­tilskipanir um neytendalán gilda nú þegar á Íslandi vegna EES-samningsins og á því yrði engin breyting með aðild að Evrópu­sambandinu. Verð­trygg­ing myndi því ekki sjálfkrafa falla brott með slíkri aðild. Verðtrygging verður ekki afnumin nema með lögum frá Alþingi og slík lög mætti samþykkja alveg óháð því hvort það hefði neitt með Evrópumál að gera. (Leturbr. jvj)

Einnig þessi spurning: Er ekki óyfirstíganlega erfitt að afnema verðtryggingu? og svarið:

"Staðreyndir: Nei það er ekki erfitt að afnema verð­tryggingu. Nýleg fordæmi eru fyrir afnámi tiltekinna tegunda verð­trygg­ingar með einföldum laga­breyt­ingum, nánast með einu penna­striki. Frumvörp um afnám verðtryggingar lána til neytenda miðað við vísitölu neysluverðs hafa verið lögð fram þrisvar frá hruni en ekki náð fram að ganga. Það eina sem þarf til að breyta því er meirihluti alþingismanna."

Undirliggjandi að baki evrutals Viðreisnar er löngun þeirra að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, allir þingmenn flokksins hafa unnið að því, m.a. í öfugmæla­samtökunum "Já Ísland!" En með inntöku í Evrópu­sambandið færi æðsta og ráðandi löggjafar­vald héðan til Brussel, og við yrðum svipt sjálfsforræði og sjálfs­ákvörð­unarrétti á afgerandi mikilvægum sviðum, m.a. í stjórn sjávaútvegsins. Hingað kæmu þá spænskir togarar til veiða með samþykki ESB-dómstólsins í Lúxemburg, þ.e. hins sama sem greiddi Spánverkum leið inn brezku fiskveiðilögsöguna.

* Ágúst Ólafur afhjúpaði það með formanni sínum Ingibjörgu Sólrúnu í febrúar 2009, að tilgangur þeirra og flokksins með því að krefjast nýrrar stjórnarskrár var að auðvelda inntöku Íslands i Evrópusambandið. Þetta blasir við af Vísis-viðtali við þau.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband