30.5.2017 | 05:16
Það er ekkert að marka Benedikt, rammhlutdrægan gegn íslenzku sjálfstæði, leiðitaman ESB og óvin meintra óvina þess
Bandaríkin hafa ekki "sagt pass" við Ísland, þótt Benedikt ESB-málpípa segi svo, grípandi línuna frá Merkel. Uncle Sam var ekki "vondi karlinn", heldur Evrópusambandið: dæmdi okkur til að borga Icesave, vildi ekki unna okkur makrílveiða, reyndist Færeyingum líka afleitlega með viðskiptabanni.
Við getum flest þakkað fyrir að hafa ekki lent inni í Evrópusambandinu, enda værum við þá nú að borga Icesave-reikninga, ættum sáralítinn makríl-veiðirétt, værum með ESB-sjómenn hér í fiskveiðilögsögunni eins og Bretar, hefðum ekki okkar sveigjanlegu krónu, heldur værum í líku fari og Írar sem bölva evrunni og njóta ekki okkar ferðamannasprengju, og þar að auki værum við svo með þessi Brussel-tröll hangandi yfir okkur með ógnanir og hótanir um að við myndum hafa verra af, eins og Bretar, ef við skyldum voga okkur að reyna að verða sjálfstæð þjóð og fullvalda á ný með úrsögn úr Evrópusambandinu!
En Bandaríkin hafa hvorki brugizt okkur né Evrópu. Við fengum vel útilátna Marshall-aðstoð, sem fjármagnaði Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna og tvær Sogsvirkjanir, auk þess sem "kanavinnan" við ýmsar framkvæmdir, aðallega á vellinum, átti um gott árabil drjúgan þátt í að við komumst þá bærilega af. Bandaríkin gáfu okkur sjálfan Keflavíkurflugvöll. Jafnvel löngu seinna borguðu þau lungann af byggingarkostnaði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Til að kóróna viðskiptasögu okkar við Bandaríkin tókst við viðskilnaðinn að véla út úr þeim allar varnarliðseignirnar, fjöldann allan af herstövarhúsum, þjónustuhús og mörg hundruð íbúða, á tombóluverði (og margt af þessu svo fengið billega í hendur einkavinum valdhafa hér).
Aldrei hafa Evrópríkin hjálpað okkur með neinum slíkum hætti, sízt Evrópusambandið, sem hirðir frekar af okkur framlög í þróunarhjálp fyrir slökustu ríkin í austurhluta þess ofurbákns, þótt þau komi okkur ekkert við.
Og það eru Bandaríkin sem hafa staðið, okkur að kostnaðarlausu, undir vörnum Íslands öllum öðrum fremur í meira en sjö áratugi. Varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn er enn í fullu gildi, hve mjög sem Benedikt Jóhannesson reynir að láta sem okkur sé meira traust í Evrópusambandinu!
Þrívegis hafa Bandaríkin bjargað Evrópu frá sjálfri sér:
- í fyrri heimsstyrjöld,
- í síðari heimsstyrjöld
- og í Kalda stríðinu.
Þessu má Benedikt ekki gleyma í ásthrifni sinni af Evrópusambandinu.
Jón Valur Jensson.
Freki karlinn ræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Hermál, varnarmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.5.2017 kl. 03:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.