5.10.2016 | 00:38
Sniðgöngum alla undirlægjuflokka Evrópusambandsins!
Stjórnmálaflokkar, sem fjandskapast við fullveldi Íslands í sínum málum og vilja koma landi og þjóð undir æðsta vald Evrópusambandsins, eru a.m.k. þessir: "Viðreisn", Samfylkingin og "Björt framtíð". Þá eru Píratar og jafnvel Vinstri grænir (a.m.k. að hluta) líklegir til þess sama.
Þetta eru því ekki flokkar, sem sannir fullveldis- og sjálfstæðissinnar geta með góðri samvizku greitt atkvæði í komandi kosningum. Það kemur aldrei til greina í huga þjóðhollra manna að fyrirgera æðstu löggjafarréttindum yfir Íslandi í hendurnar á hinum voldugu Brussel-herrum.
Hefði einhver valdsmaður eða lögréttumaður á Alþingi á t.d. 14.-16. öld boðað, að Íslendingar ættu að segja sig undir lögsögu Englandskonungs, þá hefði það ekki aðeins mætt andstöðu hjá háum sem lágum hér á landi, heldur einnig í öllu valdakerfi landsins og hjá konungi okkar.
En nú er hún "Snorrabúð stekkur" í samanburði, þ.e.a.s. þegar það gerist, að þeir menn bjóða sig fram til setu á Alþingi og allt upp í æðstu embætti, sem reiðubúnir eru að ryðja brautina fyrir erlent yfirvald yfir allri löggjöf okkar, stjórnsýslu, framkvæmdavaldinu og dómstólum!
Heitum sjálfum okkur því að standa eitilhörð gegn öllum Evrópusambandsflokkum hér á meðal okkar og láta engan með mjúkmálum falsyrðum komast upp með að villa okkur sýn í þessu meginmáli allra okkar stjórnmála: að varðveita sjálfstæði Íslands.
Sjálfstæðið er sístæð auðlind, eins og Ragnar Arnalds benti á í samnefndri bók sinni, og sannaðist það ekki aðeins í landhelgisdeilunni og þorskastríðunum, þegar við á einungis einum aldarfjórðungi stækkuðum fiskveiðilögsöguna úr þremur mílum í 200 mílur, heldur sannaðist það einnig í Icesave-málinu, sem og í makríldeilunni, en einmitt nú getum við fagnað þeim tímamótum, að fiskazt hefur á sjö árum ein milljón tonna af makríl í lögsögu Íslands og það í krafti fullveldisréttinda okkar -- og andstætt vilja og valdi Evrópusambandsins, sem bæði tók þátt í lögsókn á hendur Íslendingum vegna Icesave-málsins (og hafði jafnvel í sínum eigin "gerðardómi" dæmt okkur borgunarskyld þegar á haustinu 2008!) og ætlaði okkur um þrefalt minni hlut í makrílveiðum á Norður-Atlantshafi en við tókum okkur rétt til og fengum að njóta, með hjálp og staðfestu þessa fullveldissinna á Alþingi. Heiðrum því hann, en heiðrum umfram allt lýðveldi okkar, sjálfstæði og fullveldi Íslands.
Jón Valur Jensson.
Vilja spyrja þjóðina um viðræðurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Löggæsla, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.