7.9.2016 | 20:15
Öfugmælamaðurinn / mærir liðsmenn sína. / Fús vill "Áfram"-faðirinn / fullveldinu týna.
Icesave-greiðslusinninn eindregni Benedikt Jóhannesson í "Viðreisn" er afar ánægður með tvo aflóga ráðherra, Þorstein Pálsson og Þorgerði Katrínu, sem var mjög frjálslynd gagnvart óheyrilegu kúluláni manns síns, "þannig ég get ekki annað en verið mjög glaður yfir því, segir hann um þá ákvörðun þeirra að ganga til liðs við Viðreisn. Þorsteinn er alræmdur ESB-maður og skánar ekki.
Benedikt á eftir að gera þjóðinni grein fyrir því, hvaðan hann hefði tekið þá ca. 70 milljarða króna, sem Buchheit-samningurinn (sem hann barðist fyrir eins og ljón) væri búinn að kosta ríkissjóð í einbera vexti (óendurkræfa og greiðsluskylda í pundum og evrum samkvæmt þeim svikasamningi). Hefði hann t.d. skorið meira niður í heilbrigðiskerfinu til að láta enda sína ná þarna saman, ef hann hefði setið í fjármálaráðuneytinu, eða látið öryrkja og aldraða blæða?
Benedikt og félagar í öfugmælaklúbbnum "Áfram" voru afar seigir að ná sér í 20 milljóna króna áróðursfé til að kosta m.a. sína landsfrægu hákarlsauglýsingu sem átti að kenna Íslendingum þá skynsemi og ráðdeild að gjöra svo vel að borga Icesave-kröfur Gordons Brown og Downings, þvert gegn lagalegum rétti þjóðarinnar. Meðal styrktaraðila í Icesave-vinafélaginu "Áfram" voru Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök iðnaðarins (SI). "Sem start-gjald veittu þessi samtök Áfram-hópnum milljón krónur, hvert fyrir sig. Alls munu styrkir sem Áfram-hópurinn þáði hjá fyrirtækjum og almanna-samtökum hafa numið 20 milljónum króna. Til samanburðar fekk Samstaða þjóðar gegn Icesave um 20 þúsund krónur frá fyrirtækjum og almanna-samtökum." (Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur ritaði.)
Nú þarf Benedikt að upplýsa, hvaðan "Viðreisn" fær allt sitt áróðursfé til að vinna að innlimun Íslands í Evrópusambandið (þetta sem Jón Baldvin Hannibalsson líkir, vegna ástands þess, við brennandi hús, sem enginn vilji fara inn í). Fá "Viðreisnarmenn" enn sína milljónastyrki frá SA og SI? (nota bene kemur Þorsteinn Víglundsson beint af þeim slóðum). Eða er verið að misnota lífeyrissjóðina til slíks? Eða ná þræðirnir kannski alla leið til Brussel? En þaðan berst hingað ærið mútu- og styrkjafé nú þegar og skiptir milljörðum. Eitt er víst, að leigan á Hörpu og veitingarnar þar á opnum kynningarfundi hafa kostað sitt, og svo er haldið uppi viðamikilli flokksskrifstofu og áróðursstarfi.
Benedikt er reyndar sérfræðingur í rekstri öfugmælafélaga, hann er einn af stofnendum og stjórnarmönnum öfugmælaselskaparins "Já Ísland!" sem er samansafn meira en 4.500 forstokkaðra ESB-áhangenda!
Í einni setningu er okkar meginstefna sú að við viljum leyfa fólki að ráða sér sjálft en ekki vera að hugsa fyrir það eins og gömlu flokkarnir hafa verið að gera, segir Benedikt, en var hann ekki einmitt, í bandalagi við svikula fjölmiðla og álitsgjafa, að reyna að segja þjóðinni hvað hún ætti að gera í Icesave-málinu?
Jón Valur Jensson.
Getur ekki annað en verið glaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 8.9.2016 kl. 00:07 | Facebook
Athugasemdir
Ég bíð enn eftir því að þau borgi Icesave.
Eins og þau sögðust vilja gera.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.9.2016 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.