27.7.2016 | 01:28
Auðsær vilji þjóðar
Er þetta ekki býsna auðsær þjóðarvilji að afgerandi meirihluti í öllum skoðanakönnunum sl. sjö ár hefur hafnað inngöngu í Evrópusambandið?
Þetta samfellda tímabil hófst með skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir hugveituna Andríki fyrir sjö árum en samkvæmt henni voru 48,5% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 34,7% henni hlynnt. Fram að því höfðu skoðanakannanir ýmist sýnt meirihluta hlynntan inngöngu í Evrópusambandið, andvígan þeim ráðahag eða andstæðar fylkingar hnífjafnar.
Samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunarinnar, sem gerð var af MMR og birt 22. júlí, eru 55,5% andvíg því að ganga í sambandið en 24,7% hlynnt því. Ef einungis er tekið mið af þeim sem taka afstöðu með eða á móti inngöngu eru rúm 69% andvíg henni en tæpt 31% vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. (Hjörtur J. Guðmundsson blm. í Mbl.is-frétt, tengill neðar).
Þessar hræringar frá Evrópusambandinu hafa jafnvel aukizt upp á síðkastið, því að "stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið [hefur] minnkað töluvert frá því í byrjun þessa árs samkvæmt skoðanakönnunum MMR, þegar hann var 36,2%, eða um 11,5 prósentustig. Á sama tíma hefur andstaðan við inngöngu í sambandið aukist úr 47% í 55,5% eða um 8,5 prósentustig," eins og segir í sömu fréttarskýringu Hjartar.
"Nú er lag!" hefði einhver sagt við slíkar aðstæður, þ.e.a.s. fyrir ríkisstjórnina til að leggja á ný fram þingsályktunartillögu um að draga ESB-umsóknina formlega til baka. Þótt það yrði hennar síðasta verk, þá væri þar ekki til einskis unnið. Og með samþykkt þeirrar tillögu hefði þingið og stjórnarflokkarnir loksins tekið á sig rögg og markað sér stöðu með þjóðinni, sem svo lengi hefur hafnað Evrópusambandinu.
Jón Valur Jensson.
Evrópusambandinu hafnað í sjö ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Skoðanakannanir, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:53 | Facebook
Athugasemdir
Jón Valur.
Hvernig á fólk að geta tekið afstöðu til ESB þegar það er allt gert til að tryggja að það sé ekki rætt?
Ég get ekki einusinni sagt já við þessari spurningu í dag vegna þess að ég hef ekki hugmynd frekar en þú hvað verður í boði að loknum aðildarviðræðum....
En fyrst þið eruð svona vissir um að fólk vill ekki skoða ESB og vitnið í skoðanakannanir síðustu 7 ára, eigum við þá ekki að drífa okkur í kosninguna sem Sjálfstæðis- og framsónarmenn lofuðu okkur.
Þ.e. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarVIÐRÆÐUR ?
Koma þessu máli frá og þú getur farið að gera eitthvað annað en að púa á ESB alla daga.
Snorri Arnar Þórisson, 27.7.2016 kl. 11:51
Þvílíkt rugl, Snorri. Menn hafa getað rætt málin frjálst í heil sjö ár frá Össurar-umsókninni ólögmætu. Fátt annað hefur verið rætt jafnmikið! En það var reyndar Jóhönnustjórnin sem frysti viðræðurnar við Brusselmenn, ef þú átt við þær.
Illa ertu upplýstur og ættir kannski ekki við svo búið að trana þér fram í umræðum, ef þú "hef[ur] ekki hugmynd hvað verður í boði að loknum aðildarviðræðum." Þú ættir þá t.d. að kynna þér inntökusáttmála Svíþjóðar og Finnlands og átta þig t.d. á því, að við inntöku landa í sambandið er æðsta og ráðandi fullveldi af þeim tekið í öllum þeim löggjafarmálum þar sem Evrópusambandið er með sitt lagaverk í ósamræmi stór eða smá ákvæði í lögum meðlimaríkjanna.
Svarið í lokin er NEI, það þarf ekki að eyða meiri tíma í þarflausar viðræður sem engu geta skilað og engu höfðu skilað Samfylkingu og Vinstri grænum nema í hæsta falli fylgishruni.
Undirritaður hefur við margt að fást, og flest er það frjórra en að hugsa um stórgallað stórveldið sem kennt er við Brussel.
Jón Valur Jensson.
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 27.7.2016 kl. 12:46
Hér er verðugt tilefni til að vitna í eftirfarandi orð formanns Heimssýnar, Jóns Bjarnasonar, í pistli hans í vor:
"Inngönguskilyrði Evrópusambandsins liggja öll fyrir. Aðildarsamningum við ESB lýkur ekki fyrr en lög og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar eða tímasett hefur verið hvenær það skuli gert. Ríkisstjórn Íslands verður síðan að skrifa undir samninginn og mæla með samþykkt hans, áður en hann fer til afgreiðslu Alþingis eða í þjóðaratkvæðagreiðslu." (Bréf til félaga í Heimssýn).
Þetta eru alls óverðug skilyrði Evrópusambandsins að mati okkar í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, heldur bera þau öll merki yfirríkis sem vill setja öðrum skilmála að sinni vild og beita jafnvel ríkisstjórn viðkomandi lands sem dráttarklár í þágu umsóknarinnar og gagnvart þjóðinni sjálfri.
Og hér, í næsta þætti pistils Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kemur enn skýrar í ljós, hve alvarleg þessi skilyrði eru:
"Ekkert til sem heitir „að kíkja í pakkann“
Sambandið er enginn „matseðill“ sem hægt er að velja af, sagði t.d. forseti framkvæmdastjórnar ESB við Breta. Mikilvægt er að gæta sín á þeim sem „bera kápuna lausa á báðum öxlum“ og tala tunguliprir um að „ljúka“ samningum. Staðreyndin er sú að aðildarsamningi við ESB er ekki hægt að ljúka af ESB hálfu fyrr en lög og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar í íslensk lög eða tímasett hefur verið hvenær það skuli gert. Ríkisstjórn Íslands verður síðan að skrifa undir samninginn og mæla með samþykkt hans áður en hann fer til afgreiðslu Alþingis eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þess vegna er svo hættulegt þegar heilir stjórnmálaflokkar og stór hagsmunasamtök hafa það á stefnuskrá sinni að „ljúka“ samningum um inngöngu í ESB. Það verður ekki gert nema að fella fyrst úr gildi fyrirvara Alþingis, t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og samþykkja framsal á fiskveiðiauðlindinni til ESB." (Tilvitnun lýkur.)
Þetta er vitaskuld þvert á allt það, sem fullveldissinnar geta hugsað sér. Snorri Arnar Þórisson ætti finna bullandi bjartsýnishyggju sinni annað endimark en þetta: að halda að við, traustir fullveldissinnar, förum að gangast inn á það með honum, að þessi villunnar vegslóði verði valinn sem framtíðarleið þjóðarinnar.
Jón Valur Jensson, 27.7.2016 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.