Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda

Guðni Th. Jóhannesson.

Það er ekkert hald í Guðna. Hann er ljúfmenni, en var kjark­laus í Ice­save-mál­inu. Í stað skýrrar höfn­unar ljær hann svo máls á því, að Ísland geti geng­ið í ESB og að því geti fylgt "kostir".

Hann talar um að hann sé ekki [principielt] á móti því að sækja um að Ísland fari inn í Evrópusambandið, ef allar kröfur okkar verði uppfylltar, en þær gætu nú verið harla vægar af hálfu Samfylkingar-stýrðrar ríkisstjórnar!

Í viðtali einn innhringjandann á Útvarpi Sögu síðdegis á mánudag nefndi Guðni það sem einn "kost" við að fara inn í ESB, að við fengjum eitthvað annað en óstyrka krónu með háum vöxtum; en með þessu afhjúpaði hann í senn vanþekkingu sína (því að vel er hægt að setja lög um hámarksvexti hér án þess að fara inn í ESB*) og birti veikleika sinn fyrir Evrópu­sambandinu og að hann kippi sér ekkert upp við, að löggjöf þess yrði á öllum sviðum æðri okkar löggjöf, en okkar eigin lög yrðu víkjandi í hverju einasta tilfelli þar sem íslenzk og ESB-lög rækju hornin hvor í önnur.

Í viðtali Guðna við undirritaðan í sama þætti kom fram, að hann greiddi atkvæði með Buchheit-samningnum um Icesave, samningi sem væri nú búinn að kosta þjóðina 80 milljarða króna útgjöld í vexti, en í erlendum gjaldeyri, auk þess að koma í veg fyrir EFTA-sýknudóminn!

Þetta var ekki bara spurning um atkvæði þessara 40% sem létu blekkjast af áróðri til að trúa að við hefðum ekki réttinn og gætum ekki unnið málið fyrir EFTA-dómstólnum, heldur gerðust þeir þar með þátttakendur í atlögu Breta og Hollendinga og þýja þeirra að ríkissjóði Íslands og orðstír þjóðarinnar. 

Guðni kaus að að ganga ekki gegn straumi þeirra aðila sem voru hér olnboga­frekastir í málinu. En það gerði hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson af alkunnri snilld og karlmennsku. Og það gerði reyndar Davíð Oddsson líka með glöggum leiðaraskrifum í Morgunblaðið og það jafnvel þótt mestallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi greitt atkvæði með Buchheit-lögunum.

Forseti Íslands bjargaði málinu með grasrótinni og atfylgi þeirra 60% kjósenda, sem sýndu meira hugrekki og sjálfstæðishug en Guðni Th. Jóhannesson.

En umfram allt: Maðurinn er veikur fyrir Evrópusambandinu. Það er alger frágangssök fyrir forsetaframbjóðanda. Engin inngönguríki í ESB komast hjá því að framselja þangað æðsta og ráðandi löggjafarvald. Þeir menn eiga virkilega bágt sem skilja þetta ekki og hrikalegar afleiðingar slíks.

Það var þó síður en svo slæmt að fá þetta á hreint frá þessum frambjóðanda - þvert á móti nauðsynlegt að sjá, að við getum ekki kosið slíkan mann, því að forseta kjósum við fyrir hag og heill þjóðar okkar, ekki til að þókknast viðkomandi, þótt vel gefinn sé, eða til þess einfaldlega að svara brosi með brosi aulans.

* Sbr. ennfremur Má Wolfgang Mixa sem bendir á, að gæði lánveitinga á Íslandi hafa verið slök og að því hafi "stöðugt [þurft] að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina." Nánar hér í grein: Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera, sem byggist á upplýsingum frá Má Wolfgang Mixa.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Guðni Th. með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fylgi við Guðna vex við hverja færslu hjá þér, sennilega endar hann í 100%. Guðni tók ykkur Baldur í Gautaborg, Ásgeir,  Viðar Guðjohnsen og Ægir Óskar á ippon í þessum þætti.

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 09:59

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú færð 1,1 fyrir viðleitni til hótfyndni, en 0,0 fyrir frammistöðu þína í rökræðu.

Jón Valur Jensson, 11.5.2016 kl. 11:28

3 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hefur verið sýnt fram á að dómstólaleiðin hafi verið betri en Bucheit samningurinn? 

Tryggvi L. Skjaldarson, 11.5.2016 kl. 12:41

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, dómstólaleiðin leiddi til sýknu af ásökunum og kröfum Breta og Hollendinga: Íslendingar voru EKKI gjaldskyldir vegna Icesave-reikninga þessa einkabanka, Landsbankans, og ríkissjóður þurfti ekki einu sinni að borga sinn málskostnð.

Ýmsar leiðir voru þingmenn Jóhönnustjórnar búnir að reyna til að koma á okkur Icesave-klafanum, jafnvel var ætlazt til þess, að þeir samþykktu Svavarssamninginn ólesinn, til þess hvatti t.d. Björn Valur Gíslason alþm. utan af sjó!

Steingrímur reyndi að pína samflokksmenn sína til þess arna, en ekki tókst að koma þessu gegnum þingið fyrr en með mörgum fyrirvörum frá stjórnarandstöðunni, sem veiktu svo réttarstöðu Breta og Hollendinga, að þeim leizt alls ekki á blikuna og ennþá síður þegar forseti landsins hafði bætt við sínum eigin ströngu fyrirvörum sem skilmálum fyrir samþykki, enda samþykktu gömlu nýlenduríkin ekki þetta halastýfða lagaplagg, og lagt var upp í nýja herför gegn okkur og nýr samningur gerður við hina auðsveipnu Jóhönnustjórn og hann samþykktur sem lög, en gegn mikilli andstöðu í samfélaginu, andstöðu sem fór í farveg undirskriftasöfnunar InDefence-hópsins með áskorun á forsetann Ólaf Ragnar að staðfesta ekki þau lög með samþykki sínu. Forsetinn synjaði lögunum staðfestingar, og landsmenn höfnuðu þeim lögum með yfirgnæfandi meirihluta, 98,1%, í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunni, 6. marz 2010.

Það var þá, sem fjendur okkar í Bretlandi og Hollandi sáu sitt ráð vænst að slá af kröfunum í nýjum samningaviðræðum, þar sem vinstri stjórnin hér kallaði til Lee Buchheit sem okkar aðalsamningamann, og margir létu blekkjast af orðum hans um útkomuna úr því, útkomu sem rakin var í greininni hér ofar! En seinni undirskriftasöfnunin, á Kjosum.is, var rekin af Samstöðu þjóðar gegn Icesave, og forsetinn synjaði einnig þeim Buchheit-lögum staðestingar, og felld voru þau af þjóðinni með um 60% meirihluta, þátt fyrir að Rúv og 365 gæfu fylgismönnum samningsins allt forskot og forgang til áróðurs.

Hér eru, til dæmis, tvær greinar úr baráttunni gegn Buchheit-samningnum:

Financial Times tekur enn afstöðu með Íslandi í leiðara: Skammar Breta og Hollendinga fyrir hræsni í Icesave-málinu 

(14. apríl 2011)  og (eftir Loft Þorsteinsson verkfræðing, 8. apríl 2011): 

Icesave-lögin tryggja fullkomna niðurlægingu Íslands.

Jón Valur Jensson, 11.5.2016 kl. 14:07

5 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hvar eru allir reiknimeistararnir. Dómstólaleið eða Bucheit samningar? Er mögulegt að samningar Bucheit hafi verið hagstæðari og Icesave slagurinn bardagi við vindmillur?

Tryggvi L. Skjaldarson, 11.5.2016 kl. 22:22

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei.

Jón Valur Jensson, 11.5.2016 kl. 23:04

7 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Gaman væri að sjá einhvern talnaglöggan hrekja eftirfarandi skrif Jóns Baldvins í Kvennablaðinu:"Sú útbreidda skoðun, að með því að vísa Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu, hafi forsetinn gerst bjargvættur þjóðarinnar og forðað henni frá skuldafangelsi, er í besta falli misskilningur, en í versta falli blekking.  Nú liggur lokauppgjör á Icesave-reikningnum loksins fyrir. Niðurstaðan er sú, að þrotabú Landsbankans  og tryggingasjóður innistæðna hafa greitt Bretum og Hollendingum upphæð, sem er rúmlega 50 milljörðum hærri en lágmarkstrygging innistæðueigenda kvað á um.  Þessi upphæð er, ef eitthvað er, hærri  en Bucheit-samningurinn fól í sér".

Tryggvi L. Skjaldarson, 12.5.2016 kl. 12:50

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er dæmigerð blekkingarstarfsemi Jóns Baldvins, sem var hér í mun að réttlæta fólskulegar gjörðir Jóhönnustjórnar í Icesave-málinu og freistaði þess með röngu vopni fremur en öngu, eins og sést á þessu:

1) Tryggingarféð (um 20 milljarðar), sem Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) greiddi út vegna Icesave, kom ekki úr ríkissjóði, heldur sérstökum sjóði TIF, sem orðinn var til með árlegum iðgjöldum bankanna og annarra fjármálafyrirtækja. Þetta tryggingarfé hefði hvort sem er þurft að greiða til viðbótar við 80 milljarðana í vexti, sem rætt var um hér ofar. En tryggingarféð var ekki á könnu íslenzkra skattgreiðenda, reyndu að átta þig á því, Tryggvi Skjaldarson, hvar í flokki sem þú heldur þig og hvaða ruglskrif sem þú kannt að lesa frá hendi þeirra sem vilja réttlæta það framferði Jóhönnustjórnar, sem eitt sér (en í kippu með fleiri sakarefnum) ætti að nægja til að draga ráðherra hennar fyrir Landsdóm.

2) Alltaf stóð til, að hinn gjaldþrota Landsbanki (einkafyrirtæki) þyrfti að nota eftirstandandi fé sitt við bankakreppuna til að borga út innistæður, eftir því sem aurar væru til. Það var hins vegar ósvífin aðgerð ráðherrans Steingríms J. Sigfússonar að láta nýja Landsbankann (ríkisbanka) gefa út skuldabréf til handa gamla þrotabúinu, jafnvel umfram eignir þess hér á landi, sem þar komu á móti. En einnig þetta hefði hvort sem var, úr því sem komið var, bara bætzt við 80 milljarða Buchheit-vaxtagreiðslurnar, ekki dregizt frá þeim!

Sjá sérstaklega um þessi mál: Ekki króna úr ríkissjóði vegna Icesave - endurbirt góð grein Guðm. Ásgeirssonar.

PS. Tryggvi þessi Skjaldarson mælti jafnvel með Icesave-1-samningnum,* þótt hann hefði engar líkindatölur til að rökstyðja mál sitt, hvað þá til sönnunar þess!*

* í léttvægri athugasemd hans við http://sjonsson.blog.is/blog/sjonsson/entry/1013297/

Jón Valur Jensson, 12.5.2016 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband