24.2.2016 | 17:56
Hvað gengur Skúla Magnússyni og Ragnhildi Helgadóttur til að vilja tefla fullveldi okkar í tvísýnu?
Skúli, sem er nú formaður Dómarafélagsins, amast við því, að stjórnarskrárnefndin hafi ekki samþykkt tillögu sem heimili stjórnvöldum að framselja ríkisvald "til alþjóðastofnana í þágu alþjóðasamninga".
"Skúli sagði að það mál kæmi Evrópusambandinu ekkert við og sambærileg ákvæði væri í stjórnarskrám annarra ríkja." (Mbl.is)
Þetta er léleg röksemd, ef menn horfa til þess, að einungis takmarkaður fjöldi smærri, sjálfstæðra þjóðríkja leyfir slíkt fullveldisframsal nema þá að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum eins og stórauknum meirihluta í kosningum um slík mál. Það á t.d. við um Noreg, en hefur ekki verið inni í myndinni í hugum þeirra, sem hér hafa komið nærri þessum málum á seinni árum: hvorki Samfylkingar-þingmanna, sem keyrðu á ESB-umsókn sína af mestu óbilgirni árið 2009 og aldrei kusu annað en að hafa einfaldan meirihluta í þingi og meðal þjóðar sem reglu, né heldur meðal "ráðsmanna" í hinu ólögmæta "stjórnlagaráði", sem vildu leyfa billega kosningu þjóðarinnar (einfalds meirihluta greiddra atkvæða, sem gæti þá verið innan við 40% landsmanna) til að innlimast í stórveldi (111. tillögugrein ráðsins), en vildu um leið (í 67. gr.) meina þjóðinni með öllu að eiga frumkvæði að því að ganga úr því stórveldi eða yfirhöfuð að hafa nokkurt leyfi þá til að fá að greiða um það þjóðaratkvæði!
Skúli segir, að "Ísland eigi í erfiðleikum í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst því sem kennt er við evrópska efnahagssvæðið. Skortur á slíku ákvæði sé annmarki á stjórnskipun landsins." (Mbl.is).
En þetta er fráleit nálgun á þetta mál. Það hefur engin þörf verið á slíku ákvæði, en sannarlega er reynt að þrýsta á þingmenn með það, meðfram á fölskum forsendum ESB-innlimunarsinna, en einnig til að skuldbinda okkur með hættulega ágengri löggjöf, m.a. um innistæðutryggingar (miklu alvarlegri löggjöf en þeirri sem gilti hér á Icesave-tímanum) og um TISA-bankastarfsemina í Austur-Asíu, sem við ættum einfaldlega að hafna.
Það að nefndin komi nú árið 2016 og skili ekki frumvarpi er ekki aðeins vonbrigði heldur til marks um það að nefndinni og stjórnkerfinu hafi mistekist að standa undir þeirri ábyrgð að viðhalda íslenskri stjórnskipun og leysa úr þeim göllum sem á henni eru. Að þessu leyti fær vinna nefndarinnar falleinkunn,
sagði Skúli í viðtali við Mbl.is, en fær sjálfur falleinkunn hjá okkur i Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Íslands vegna andvaraleysis hans og eitraðs peðs sem hann hefur nú fært fram í þessu eilífa þrátefli.
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sagðist einnig sakna ákvæðis um framsal ríkisvalds í tillögum nefndarinnar.
Við deilum ekki þeim söknuði með henni! Stór hluti Íslendinga hefur reyndar engan hugsjónarhita fyrir því að skurkað sé mikið í stjórnarskránni.
Í raun erum við í hættu stödd, ef hér eru ekki styrktar okkar fullveldisvarnir fremur en veiktar, eins og Skúli og Ragnhildur þó vilja í óforsjálni sinni.
Vegna gríðarlegs afls- og aðstöðumunar 330 þúsund íbúa Íslands og 510 milljón manna Evrópusambands, sem þar með er um 1550 sinnum stærra, ættum við Íslendingar að horfa með þeim mun meiri gagnrýni, ef ekki beinlínis þykkju og andstöðu, á hvern þann landa okkar sem getur hugsað sér að leggja því lið, að landið verði innlimað í evrópska stórveldið eða hvaða stórveldi sem er.
Sannarlega eiga slíkir einstaklingar aldrei erindi á forsetastól þessa lýðveldis.
Eitt a.m.k. gerði þó Ragnhildur rétt á þeim fundi sem Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélags Íslands héldu í dag: að leggja áherzlu á, að ekki einungis ætti að vera réttur kjósenda að fá þjóðaratkvæði um lagafrumvörp, heldur einnig um þingsályktunartillögur um mikilvæg málefni.
Jón Valur Jensson.
Falleinkunn stjórnarskrárnefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.