17.2.2016 | 15:04
Stjórnarskrárnefnd má ekki leggja neitt til sem stofnar fullveldi í hættu eða torveldar endurheimt þess
Það, sem mestu skiptir um rétt þjóðarinnar til áhrifa á löggjöf, er ekki sú prósenta (15%) sem stjórnarskrárnefnd var að ráða með sér, heldur 1) að unnt sé að stöðva fullveldisframsal til ESB í krafti naums meirihluta kjósandi þingmanna og 2) að þjóðin geti haft frumkvæði að því að hafna þeim "þjóðréttarsamningi" sem feli í sér slíkt fullveldisframsal.
Lágmarkskrafan um 15% kjósenda (um 40.000 manns), sem þurfi til að unnt verði að vísa samþykktum lögum til þjóðaratkvæðis, er verulega ströng og yrði því trúlega sjaldan (jafnvel aldrei) nýtt, því að þetta verður sennilega haft innan fjögurra vikna ramma, þ.e. að innan þess tíma, frá samþykkt Alþingis á viðkomandi lögum, verði undirskriftalistar að liggja fyrir, og þar verður gerð mun strangari krafa til undirskriftanna heldur en t.d. í áskorendasöfnun Kára Stefánssonar og félaga eða öðrum áþekkum.
Fundað verður á ný í stjórnarskrárnefnd á morgun, og þar er áhyggju-verkurinn: að nefndin kunni að stefna að svipuðum stjórnarskrárbreytingum um framsal fullveldis og s.k. "stjórnlagaráð", sem hér starfaði ólöglega og bar fram tillögu í afar billegu formi um heimild til framsals ríkisvalds, þannig að hvenær sem væri (og þegar það t.d. væri talið ESB hentugast vegna stöðu alþjóðamála sem innlendra) gæti einfaldur meirihluti þingmanna troðið slíku máli í gegn og síðan gert áhlaup á þjóðina í krafti yfirgnæfandi peningaveldis og áróðursyfirburða innlendra sem erlendra hagsmunaaðila til að véla nauman meirihluta þjóðarinnar til að samþykkja þetta, sem 111. tillögugrein "ráðsins" átti að heimila en um leið bundið þannig um hnútana í 67. tillögugreininni, að kjósendur (alveg sama hve margir) gætu aldrei krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um að afturkalla þær þjóðréttarskuldbindingar, sem samþykktar hefðu verið með fyrrnefndum gerningi, þ.e. innlimun í Evrópusambandið!
Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum þessara stjórnarskrárnefndarmanna undir forystu Páls Þórhallssonar, sem og á alþingismönnum, eftir að frumvarp um þessi mál kann að koma fram á yfirstandandi vorþingi. Því er spenna í lofti, hvað kann að koma í ljós að loknum fundi nefndarinnar á morgun. En það er langt í frá sjálfgefið, að flokkar, sem jafnvel kenna sig við sjálfstæði, standi tryggan vörð um þjóðarhagsmuni. Það gerðu flestir þeirra ekki á lokastigum Icesave-málsins, og það var málskotsréttur forsetans, ásamt samstöðu grasrótarhreyfinga og þjóðarviljans, sem bjargaði okkur þá frá óförum og alþjóðahneisu. Þess vegna ætti stjórnarskrárnefnd ekki heldur að taka það í mál, að þessi dýrmæti málskotsréttur verði tekinn af forseta Íslands. Ennfremur er það afleitt, að einfaldur, naumur meirihluti, hvort heldur í Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu, geti haft úrslitaáhrif á sjálfstæði og fullveldi þessa lands.
En við þekkjum ýmsa þá, sem mælt hafa gegn neyðarrétti forsetans, og við skulum ekki ljá máls á því nú, að sömu aðilar laumi nú síðar inn þeirri valdsviptingu þess embættis, enda er hreint engin þörf á henni.
Ennfremur má sérstaklega vara við því, að stjórnarskrárnefndin getur hugsanlega tekið upp enn eina óþurftartillöguna frá "stjórnlagaráði", þ.e.a.s. í 113. greininni, um stjórnarskrárbreytingar, þar sem segir m.a.: "Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið [frumvarp til breytingar á stjórnarskrá] getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður." Þarna er einnig um valdsviptingu að ræða, í þetta sinn aftur og beint frá þjóðinni. Ákvæðin fyrstgreindu úr stjórnarskrártillögum "stjórnlagaráðs" gætu þá t.d. komizt inn nú fyrir vorið, og síðan gæti Alþingi eitt sér breytt þeim ákvæðum í enn meiri ESB-átt, ef þingmönnum svo sýnist. Og minnumst þess hér, að 70% þeirra samþykktu Buchheit-frumvarpið!
Jón Valur Jensson.
Þjóðaratkvæði ef 15% vilja það | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:47 | Facebook
Athugasemdir
Þessi nefnd er undir blekkingum að halda áfram undirbúningsvinnu fyrir aðild að ESB og enginn í nefndinni virðist fatta það. Allt stjörnarskrárfimbulfambið er sama mál og ESB umsóknin og ber að hætta hið snarasta. Það er búið að reyna að troða í gegn skilyrðislausri framsalsgrein í þessari nefnd og það er aðalatriðið, restin er lýðskrum.
til allrar hamingju tókst þeim ekki að ná sáttum um framsalsákvæðin í þessari atrennu, en það verður reynt áfram, því það er lykillinn að því að taka upp viðræður við ESB, sem strönduðu einmitt á þessum ákvæðum.
vinsamlega talið um þessi mál sem sama málið. Þ.e. Valdaframsalsmálið.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.2.2016 kl. 13:57
Þakka þér, Jón Steinar, þína þörfu áminningu hér. Aldrei verður nógsamlega varað við þeim refjum sem ráðamenn ýmsir hafa enn í frammi, leynt meira en ljóst, í þessu réttnefnda valdaframsalsmáli.
Jón Valur Jensson, 18.2.2016 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.