5.12.2015 | 14:13
Ítrekað bregzt Bjarni Benediktsson þeim sem unna sjálfstæði Íslands
Þetta sannast ljóslega á viðtali Mbl.is við ofjarl hans í ESB-málum, Styrmi Gunnarsson.
Réttilega segir hann tilraun BB til að verja klúður ríkisstjórnarinnar við afturköllun ESB-umsóknar ekki ganga upp. Bjarni segir: Ég lít þannig á að það sé ekki í gildi umsókn Íslands að ESB. En Styrmir svarar réttilega:
- Því miður dugar þessi skoðun Bjarna á því ekki til, að þannig sé litið á málið í Brussel, eins og fyrst var sagt af sendiherra ESB á Íslandi og síðar staðfest af stækkunardeild ESB.
Bjarni segir:
- Ég lýsi yfir furðu á því að það skuli vera einhverjum vafa undirorpið af Evrópusambandsins hálfu, hver staða málsins er. Þeir hafa fengið mjög skýr skilaboð að minnsta kosti frá þeim, sem fer fyrir utanríkisstefnunni, og forsætisráðherra.
Og Styrmir svarar í samræmi við sorglegar staðreyndir málsins:
- Það liggur nú fyrir staðfesting á því að þau skilaboð hafa ekki verið nægilega skýr, hvort sem Bjarna líkar betur eða verr.
Og það sem meira er: Vegna afstöðu Evrópusambandsins, sem er beintengd við afstöðu Samfylkingarinnar og annarra ESB-afla á Íslandi, þá er það borðleggjandi, að þessir aðilar ætla sér ekki að hefja allt umsóknarferlið upp á nýtt, þegar þeir fá aðstöðu til, heldur að láta sem Össurarumsóknin sé enn í fullu gildi, og sú er t.d. afstaða Árna Páls Árnasonar, sbr. bænarbréf hans þess efnis til Brussel, þar sem hann segir bréf utanríkisráðherrans ekkert gildi hafa, ólíkt umsókninni árið 2009.
Á Mbl.is var þetta þarfasta viðtal (tengill neðst) vandaðs blaðamanns, Baldurs Arnarsonar, við þennan fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, annan máttarstólpa Evrópuvaktarinnar (sem nú er reyndar í starfshléi, en þar á vefnum er gríðarmargt gott að finna um ESB-mál, sem og á vefsíðum Styrmis og Björns Bjarnasonar, hins meginhöfundarins á Evrópuvaktinni).
Það eru orð að sönnu, þegar Styrmir ritar í pistli sínum um málið, að það verða ekki margir kjósendur, sem taka mark á svona yfirlýsingum af hálfu núverandi stjórnarflokka.
Makalausast af öllu er, að landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa í haust reynzt auðsveipir formanni sínum, sem svikið hefur þá í þessu máli, rétt eins og hann sveik bæði landsfund sinn og þjóðina í Icesave-málinu. Með þögninni var landsfundur 2015 að auglýsa uppgjöf sína fyrir aðgangsfrekri Samfylkingunni í málinu, og það er engin afsökun Bjarna eða landsfundar eða ríkisstjórnarinnar sjálfrar, að misnotkun fjölmiðla í linnulausum ESB-hollum áróðri skelfdi svo þessa ráðherra, að þeir lyppuðust niður eins og lostnir skjótvirkri eiturör og svikust um sitt ætlunarverk.
Það er merkilegt, að atkvæði sjálfstæðissinna, sem falla á Sjálfstæðisflokk, verða til lítils eða einskis með þessum hætti. Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn sér að axla á ný það verkefni sitt að virða sína eigin grasrót, hinn yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna og kjósenda hans, sem hafnar algerlega inngöngu Íslands í þetta stórveldabandalag?
Jón Valur Jensson.
Tilraun Bjarna í ESB-málinu gangi ekki upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.