27.10.2015 | 02:24
Tveir flokkar þunnir í roðinu - báðir sakbitnir?
Styrmir kvartar eðlilega yfir því að í ályktun landsfundar VG er ekki eitt orð um skoðun flokksins á ESB (orðnir samdauna Samfylkingu?).
En hans eigin Sjálfstæðisflokkur lét eina setningu nægja! Í stjórnmálaályktun landsfundar hans segir:
- Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins.
Og ekki orð í viðbót! Þetta er þó einfalt og ágætt, svo langt eða stutt sem það nær, en ekkert nýtt, og hvers vegna er þá ennþá unað við það (eða því tekið eins og hverju öðru hundsbiti) að Evrópusambandið skuli í ýmsum afkimum sínum og stofnunum vera með það skráð á ýmsar vefsíður, að Ísland sé umsóknarríki að sambandinu?!
Hvað er að þeirri forystu flokksins, sem getur ekki gengið frá þessu máli? Og það sem meira er: Af hverju var Bjarni Benediktsson að ganga þvert gegn sínum eigin landsfundi 2013, þegar hann fór í viðtölum að ljá máls á öðru en því sem landsfundurinn samþykkti? Telur hann sig þá líka hafa bessaleyfi til að svíkja nýsamþykkt orð landsfundar 2015 hér fyrir ofan?
Og hvað hélt aftur af landsfundarfulltrúum að gagnrýna ekki Bjarna formann harkalega fyrir að hafa hlaupið út undan sér (eftir landsfundinn 2013 og fyrir kosningarnar 2013) með sínu óábyrga hjali um þessi mál við fjölmiðla? -- hjali sem varð svo púður fyrir Fréttablaðið, 365 miðla og vinnusvikara á Fréttastofu Rúv til endalauss þrýstings á um að freista þess að fá í gegn framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða a.m.k. að Össurarumsóknin yrði ekki afturkölluð.
Hefur ekki Bjarni leikið skollaleik gagnvart flokknum? Og sveik hann ekki fyrri landsfund tvívegis í Icesave-málinu,
- með því að samþykkja og fá flesta aðra þingmenn sína til að samþykkja fyrirvaralögin í ágúst 2009?
- með því að samþykkja og fá aðra þingmenn til að samþykkja Buchheit-samninginn snemma árs 2011? (og meint réttlæting þá hið "ískalda mat" Bjarna sjálfs).
Allt þetta var gert þvert gegn þjóðarhag og þvert gegn lögvörðum rétti ríkissjóðs! En var þá ekki mál til komið að veita Bjarna áminningu fyrir þessa flokksóhollustu? Eða var hann kannski verður þess að fá 96% kosningu, af því að hann ber sig svo vel, er svo fínn í tauinu, gerir í sumum öðrum málum vel og kom svo vel út í auglýsingum fyrir landsfundinn?
Eða eru hinir sjálfstæðu sjálfstæðismenn einfaldlega svona meðfærilegir, að þeir þora ekkert að segja, ekki frekar en Politburo í höndunum á Stalín?
Þarf ekki Bjarni og félagar hans að gera hér reikningsskil í málum?
Svo ræddi nýafstaðinn landsfundur flokksins, keyrður áfram af æstum hópi ungmenna, um meinta þörf á því að kasta út krónunni og fá annan gjaldmiðil í staðinn; og um þetta var hjalað í fréttum þennan mánudag. Ljóst er þó af nýlegri skoðanakönnun, að í staðinn kemur EKKI evran, því að einungis 4% fylgismanna Sjálfstæðisflokksins eru hlynnt því.
Engir gjaldmiðlar eru með öllu gallalausir. Fráleitt þó að leggjast í sama farið og hinir reynslulausu Píratar sem vanvirða krónuna og þann sveigjanleika hennar sem stórhækkaði í reynd útflutningstekjur okkar eftir hrunið og gaf grænt ljós á metaukningu ferðamannastraums ár eftir ár.
Jón Valur Jensson.
Frjálslyndið í fyrirrúmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.