22.8.2015 | 14:22
Unnur Brá lætur sem kjósendur sínir vilji viðskiptabannið! Landið óvarið án banns!
Unnur Brá ræddi flóttamannamál o.fl. í Vikulokunum í dag. Athygli vekur réttlæting hennar á viðskiptaþvingunum við Rússa:
"Við eigum allt okkar undir því, að aðrar þjóðir og við stöndum saman í þessari baráttu, þannig að ef á reynir, þá séum við ekki ein hér úti í Ballarhafi með engar varnir, um það snýst þetta." (Leturbr. hér.)
Af þessum orðum þingkonunnar mætti ímynda sér, að íslenzk stjórnvöld hafi í máli þessu tekið sína ákvörðun undir hótunum NATO-ríkja um að Ísland yrði ekki varið gegn hugsanlegri innrás frá Rússlandi, nema við gerðum það þeim til þægðar að taka þátt í þessum aðgerðum ESB og Bandaríkjanna gegn Rússlandi! Ef þetta lá að baki ákvörðun stjórnvalda, þá ættu Unnur Brá og utanríkisráðherrann að skýra þjóðinni frá því.
Unnur áfram: "Og auðvitað er það stundum erfitt. Ef maður stendur ekki fast við sín princíp í pólitík, þá getur maður alveg eins sleppt þessu og farið bara heim að gera eitthvað annað." Áður hafði hún sagzt skilja áhyggjur sjávarútvegsins, en bætti við: "En ég er algerlega ósammála því að við eigum að gefa eftir þessi princíp." (Framhaldið svo eins og hér efst.)
Helgi Seljan: "En þetta hlýtur að vera samt áhyggjuefni fyrir þessa staði, eins og Vestmannaeyjar, Hornafjörð, til dæmis?"
Svar Unnar Brár var mjög athyglisvert:
"Auðvitað er þessi staða áhyggjuefni fyrir þessa staði. En ég hef ekki heyrt fólkið þar heima gera þá kröfu að Ísland breyti sinni utanríkisstefnu, alls ekki, eins og sumir þingmenn eru að halda fram, að við eigum að gera, alls ekki, heldur að við eigum að reyna að takmarka tjónið og reyna að leita einhverra leiða til að koma verðmætunum í einhvern pening. En það var auðvitað erfitt að átta sig á því, hvað nákvæmlega Rússar myndu ... til hvaða aðgerða þeir myndu grípa, erfitt að áætla það, hvað það myndi kosta Ísland þegar var verið að taka þessa ákvörðun. Og ég spyr bara á móti: Hvaða verðmiða hefðum við átt að setja á það?"
Merkilegt viðhorf -- skipti þá "verðmiðinn" í sjálfu sér engu máli -- hefði hann t.d. mátt verða helmingi hærri, allt vegna "princípsins"?
Þar að auki er algerlega ljóst, að það var ekki bara "erfitt" að áætla þennan kostnað, heldur var einfaldlega ekki lagt út í það að áætla neitt um hann! Það sést t.d. ítrekað í viðtalinu stóra við Bjarna Benediktsson í Morgunblaðinu í fyrradag! Og þetta er m.a. forsenda hinnar snörpu gagnrýni Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur hdl. á utanríkisráðherra í Markaði Fréttablaðsins, sjá http://www.visir.is/politiskt-vodaskot-i-vidskiptathvingun--/article/2015150818987
En hvernig er annars með þetta princíp hennar Unnar Brár -- greiddi hún ekki atkvæði með því að gerður yrði fríverzlunarsamningur við Kína? Hvað varð þá af hinum dýrmætu princípum hennar og annarra þeirra þingmanna, sem styðja þessar aðgerðir ESB og Bandaríkjanna gegn Rússlandi? Eða hvernig skyldu þessir þingmenn vilja refsa Kínverjum fyrir hernám Tíbets? Og af því að þeir tala um mannréttindabrot Rússa í Úkraínu (iðulega án þess að benda á nein ákveðin eða konkret dæmi), þykja þeim 7-10.000 aftökur á ári í Kína (sumar jafnvel fyrir "efnahagslega glæpi") eðlilegar? Og hefur alræðisstjórnin í Peking látið af sínu grimmilega hernámi í Tíbet? Eru ekki fórnarlömbin þar orðin nógu mörghundruð þúsund í mannslífum talin, að ógleymdu öllu ófrelsinu, þvinguðum fósturdeyðingum, ethnískri hreinsun, massífum innflutingi Han-Kínverja, fangelsun allra andófsmanna (Falun Gong t.d.), pyntingum o.fl. ljótu?
Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm, hvort eigum við þá að slíta viðskiptum við þessa einræðisstjórn í Peking eða draga til baka stuðning okkar við viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússlandi? Getur Unnur Brá Konráðsdóttir svarað því?
Innlegg Unnar Brár um þetta mál í viðtali við Helga Seljan í Vikulokunum í morgun var endurtekið í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, HÉR geta menn hlustað á það (frá 8 mín. 26 sek. til 9 mín. 50 sek.).
Jón Valur Jensson.
Ísland vantar vinnandi hendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:18 | Facebook
Athugasemdir
Það er vegna þessa gunguháttar,sem maður skammast sín fyrir þetta dæmalausa lið,sem lætur ginna sig í gapastokk ESB. Þetta eru þá hótanir þótt pent sé farið með þær!!
Helga Kristjánsdóttir, 23.8.2015 kl. 01:45
Unnur Brá er reyndar síður en svo nein ESB-manneskja, hún var leiðandi í stjórn Heimssýnar og hefur barizt drengilega gegn Össurar-umsókninni og einnig einarðlega gegn Icesave-samningunum, eins og samherji okkar.
JVJ.
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 23.8.2015 kl. 09:56
Afstaða Unnar veldur miklum vonbrigðum, því að hún hefur oftast áður tekið skynsamlegar ákvarðanir. Mér virðist hún hafa uppi sömu röksemdir og aðrir þeir sem telja að Kalda stríðinu sé ekki lokið og að þess vegna verði allar lýðræðisþjóðir að samþykkja allar aðgerðir NATO. Unnur trúir því þá líklega, að Rússar bíði eftir fyrsta tækifæri að gera árás á Ísland.
Þetta er auðvitað aumkunarverð vitleysu og áhyggjuefni ef ráðmenn þjóðarinnar hafa svona lítið vit á alþjóðamálum. Öllum ætti að vera ljóst að Rússland er vængbrotinn fugl, sem hefur einungis reynt að bíta frá sér þegar þrengt hefur verið að honum.
Á Rúmeníu-fundinum árið 2008 gaf NATO Úkraínu og Georgíu fyrirheit um að þessi ríki væru í raun orðin aðilar að NATO, enda hefðu þau tekið þátt í hernaðaraðgerðum bandalagsins. Þessar hótanir hafa verið endurteknar og eðlilegt má telja að Rússland líti á þessar yfirlýsingar sem ögranir. Bæði þessi lönd liggja að Rússlandi og þaðan má skjóta eldflaugum til allra hluta Rússlands og sækja yfir landamærin með land og flughernaði. Hvað gerðu Bandaríkin þegar Rússland ætlaði að koma fyrir eldflaugum á Cúbu ?
Mikið vandamál er, að yfir-hershöfðingi NATO Philip M. Breedlove er stórhættulegur stríðsæsinga-maður. Hann hefur enga reynslu af að taka þátt í styrjöldum, heldur eingöngu af stríðsleikjum í tölvum. Þjóðverjar hafa óbeit á yfirlýsingum þessa æsingamanns, eins og kom skýrt fram í greinargerð sem gerð var fyrir Spiegel og birtist 06. marz 2015.
Þegar fólk heldur fram augljósri vitleysu, þá er gjarnan gripið til merkingarlausra fullyrðinga. Í þessa gryfju fellur Unnur með ummælum um, að við séum varnarlaus og ein úti í Ballarhafi. Okkar heldsta vörn er einmitt fjarlægð okkar frá »vinum« okkar í NATO, sem hvað eftir annað hafa gert atlögu að Íslandi, bæri hernaðarlega og efnahagslega. Ef viðhorf ríkisstjórnar-flokkanna er almennt á þessu lága plani, verður að gera rækilega hreingerningu í nærstu kosningum.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 23.8.2015 kl. 18:00
Heilar þakkir fyrir þína fróðlegu umræðu, Loftur, og ekki lízt mér á þennan yfirhershöfðingja, eins og þú og Spiegel lýsið honum.
Ögranir NATO gagnvart Rússlandi, með herskáum vinahótum við Úkraínu og Georgíu -- og sérgóðum í senn, lízt mér ekkert á og tel þetta sízt fallið til að tryggja frið í Evrópu. Það er alveg óþarfi að reyna að leggja rússneska björninn að velli og beinlínis hættulegt að valda miklu taugatitringi í Moskvu.
Jón Valur Jensson, 23.8.2015 kl. 19:41
... miklum!
Jón Valur Jensson, 23.8.2015 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.