20.5.2015 | 11:47
Bjarni Benediktsson mælir með vissu framsali fullveldisheimilda!
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sækir að sjálfstæði landsins í aðsendri grein í Mbl. í dag, vill "takmarkað framsal" valdheimilda (fullveldis), "sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum á næsta ári.
- Segir hann þar, að standa verði vel að undirbúningi málsins og rekstri þess á Alþingi á komandi hausti. Grundvöllur þess er gott samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu. (Mbl.is)
Þetta eru skuggaleg tíðindi af formanni flokks sem kennir sig við sjálfstæði! Þetta minnir á grein hans og Illuga Gunnarssonar í Mbl. fyrir allnokkrum árum, þar sem þeir gældu við þá hugmynd að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Nú er raunar stefnan tekin á að framselja vald til ESB "í þágu friðar og efnahagssamvinnu," eins og Bjarni segir í blaðinu -- orðrétt eins og ESB-sinnaða Þorvaldarnefndin Gylfasonar (stjórnlagaráðið ólögmæta) kallaði það í sinni 111. gr., en einmitt það ákvæði þar vakti athygli fyrir þann óvenjulega áróðurshljóm sem með þessum orðum var settur inn í þá grein.
- "Skortur á slíku ákvæði [sem þessu um framsal valdheimilda ríkisins] hefur valdið nokkrum erfiðleikum fyrir þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu, einkum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið þegar álitamál hafa risið um heimild til framsals samkvæmt núgildandi rétti,"
segir Bjarni, en bætir við:
- "Ástæða er til að taka fram að slík heimild í stjórnarskrá tengist spurningunni um umsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki með neinum hætti -- aðild Íslands að ESB myndi ótvírætt þafnast sérstakrar stjórnskipulegrar heimildar og aðlögunar."
Þetta segir hann, en "góð meining enga gerir stoð," segir hið fornkveðna, og mikið vill meira, og eins víst er, að slefandi aðdáendaklúbbur Evrópusambandsins í Samfylkingu og fleiri flokkum myndi nota sér þessar heimildir eftir sínu höfði. Þá dugar Bjarna ekki að standa hjá og þvo hendur sínar eins og Pílatus af ábyrgð, vegna einhverra orða í Morgunblaðinu árum fyrr.
En hann heldur áfram í blaðinu:
- "Ef gengið er út frá þessu er engin ástæða til að ætla að alvarlegur ágreiningur sé um stjórnarskrárákvæði um þetta efni þótt auðvitað eigi eftir að taka afstöðu til ákveðinna útfærsluatriða." (!!)
Þessu er alls ekki hægt að vera sammála. Það er engin þörf á slíku ákvæði. Of mikið vald hefur þegar verið gefið EES eða í reynd Evrópusambandinu til áhrifa á löggjöf hér (bara eitt dæmi: EES-reglurnar eru að ganga af einkaflugvéla-eign og -notkun dauðri nema fyrir forríka einstaklinga og fyrirtæki). Æ fleiri sjá nauðsyn þess að segja upp EES-samningnum (og Schengen-samningnum sennilega í leiðinni). En Bjarni stefnir í reynd að meiri undirlægjuhætti við Evrópusambandið með tillögu sinni. Hættulegasta afleiðingin af tillögunni, í bili, gæti orðið sú, að hér yrðu teknar upp langtum meiri innistæðutryggingar heldur en var með gamla laginu og ábyrgðin beinlínis sett á ríkissjóð sjálfan, ekki á TIF (Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta).
Af öllum þessum ástæðum verður að berjast gegn þessari vanhugsuðu stjórnarskrártillögu hins illa áttaða formanns Sjálfstæðisflokksins.
Eftirmáli. Afstaða almennings hefur sýnt sig! Í nýbirtri skoðanakönnun MMR, þar sem spurt var, hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Niðurstaðan varð, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. í dag, 22. maí 2015.
Jón Valur Jensson.
Þjóðaratkvæði samhliða kosningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 22.5.2015 kl. 18:26 | Facebook
Athugasemdir
"Visst framsal valdheimilda" hefur verið í gangi hér á landi allt frá því er við undirrituðum Chicagosáttmálann, alþjóða flugmálastofnuninni 1944 til þessa dags. Dæmi: Aðild að Sameinuðu þjóðunum 1946 og alls konar sáttmálum þeirra, svo sem hafréttarsáttmálanum,mannréttindasáttmálanum, barnasáttmálanum, o. s. frv., Alþjóðadómstólnum, EFTA, höfundarréttarsáttmála, Árósasáttmála, Ríó-sáttmálanum, Kyotobókuninni, mannréttdindadómstólnum í Strassborg ...
Það er mikil einföldun að kenna EES um vandræði við að eiga einkaflugvélar, því að þar er bæði um að evrópskar og bandarískar öryggisreglur sem væru til, hvort sem ESB væri til eða ekki.
Um allt þetta framsal valds er ekki eitt einaasta orð í núverandi stjórnarskrá og EES fór í gegn vegna þess. Ef stjórnarskrá stjórnlagaráðs hefði verið í gildi 1993 hefði orðið að bera EES undir þjóðaratkvæði.
Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðismenn eru ekki einir um að vilja ákvæði um framsal valdheimilda heldur talsmenn allra flokka á Alþingi.
Ómar Ragnarsson, 20.5.2015 kl. 18:15
Sérstaklega þíns ESB-undirlægjuflokks (Samfylkingarinnar), Ómar! En vitaskuld er ástandið ekki gott á Alþingi almennt, þó skárra að þessu leyti í Framsókn en í hinum flokkunum.
Jón Valur Jensson, 20.5.2015 kl. 18:36
... þ.a.a.s. ef þingmenn Sjálfstæðisflokks reynast jafn-leiðitamir Bjarna um fullveldisframsal og þeir voru í Icesave-Buchheit-málinu.
Nánari svör (varðandi alþjóðasamninga) seinna.
Jón Valur Jensson, 20.5.2015 kl. 18:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.