5.5.2015 | 04:12
Og þótt fyrr hefði verið!
Væntanlega verður samningur um rekstur "Evrópustofu", sem rennur út 31. ágúst nk., ekki endurnýjaður að sögn talskonu stækkunartjóra Evrópusambandsins. Athygli, almannatengslafyrirtæki, og hið þýzka Media Consulta hafa fitað sig á þessum útbreiðsluverkefnum, þar til á síðasta ári, er Athygli sagði sig frá verkefninu, "og var í kjölfarið öllum starfsmönnum Evrópustofu sagt upp störfum. Media Consulta hefur síðan séð alfarið um reksturinn." (Mbl.is)
- Samningurinn um rekstur Evrópustofu var til tveggja ára með fjárframlagi upp á allt að 1,4 milljónir evra eða rúmlega 200 milljónir króna. Samkvæmt samningnum var heimilt að framlengja hann til tveggja ára. Það er fram á þetta ár. Verði ákveðið að halda rekstri Evrópustofu áfram þarf því að bjóða verkefnið út á nýjan leik. (Mbl.is)
Evrópusambandið hefur stundað hráskinnaleik gagnvart okkur í sambandi við endalok Össurar-umsóknarinnar. Við skulum hafa gætur á þessu máli líka, að hin rangnefnda Evrópustofa haldist hér ekki áfram, enda var þetta fyrirbæri allan tímann í æpandi mótsögn við bann okkar við erlendum fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka, sbr. einnig Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða.
400 milljónir króna eru miklið fé og ólík aðstaða samherja stórveldisins í samanburði við félitla fullveldissinna. Engar upplýsingar hafa borizt um það, hvernig útgjöldum "Evrópustofu" hefur verið háttað og hverjir hafa fengið þaðan styrki eða laun til verkefna í þágu "kynningar" á meintum kostum "aðildar" að sambandinu. Það eru reyndar hálfgerð öfugmæli að tala um aðild að því fyrirbæri sem sogar til sín fullveldisrétt ríkja og krefst yfir þeim ráðandi stjórnvalds, löggjafar- og dómsvalds, nákvæmlega samkvæmt þeim aðildarsáttmála, sem sumir halda ósaminn (jafnvel "ósamið um"!), en liggur þó þegar fyrir hendi í öllum aðalatriðum, og þau atriði eru óumsemjanleg, "not negotiable", eins og framkvæmdastjórn ESB hefur sjálf ítrekað hátíðlega.
En endalok ESB-umsóknarinnar og væntanlega einnig hinnar rangnefndu áróðursstofu koma á þeim tímaskilum þegar brestirnir í öryggismálum Evrópu og ekki sízt Evrópusambandsins hafa verið að birtast harla uggvænlega og ekki á þann hátt að laða ætti ríki til innlimunar í þetta stórveldi sem stendur að sumu leyti á brauðfótum.
Gagnvart Rússlandi og Úkraínu hefur Evrópusambandið haldið uppi vissum ögrunum, sem hvorki eru í takt við samkomulag stórveldanna í lok kalda stríðsins né ríkjasamkomulag sem gert var við fyrri forseta Úkraínu um lok valdatíðar hans, en blekið vart þornað á pappírunum þegar hann var hrakinn úr landi -- og var að sönnu með spilltari þjóðaleiðtogum, en sú upplausn, sem af þessu hlauzt, gaf Rússum yfirborðs-réttlætingu og sóknarfæri gagnvart þeim stjórnvöldum, sem við tóku í Kiev, og var hernám Krímskaga og mannskæðar væringar í Austur-Úkraínu beint framhald þessa. Hefur Evrópusambandið átt sinn þátt í að ögra Rússum þessi misserin, en afar hæpið, að það geri vel í því að stofna friði í álfunni í hættu. Að þessu sögðu er þó ekkert verið að draga hér úr ábyrgð Pútín-stjórnarinnar á hennar hlið málanna, sérstaklega í Úkraínu, en einnig gagnvart öryggismálum Norðurlanda og Austur-Evrópuríkja.
Á Miðjarðarhafi virðist Evrópusambandið hafa sýnt enn meiri vöntun á stjórnvizku, með því að stöðva ekki sífelldan flutning flóttafólks frá Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Stórveldinu ætti að vera í lófa lagið að beita hér áströlsku reglunni að stöðva siglingar báta og skipa sem ofhlaðin eru flóttafólki. Þar er ekki um fátækasta fólk Afríku að ræða, ef rétt er, að farið kosti um 2.000 evrur á manninn (um 300.000 kr.) eða jafnvel á milli $5000 og $7500, að sögn framkvæmdastjórnar ESB,* þ.e. um 650.000 til hátt í milljón krónur. Munu glæpafélög viðriðin bátaflutningana í mörgum tilvikum og jafnvel grunur um að þau tengist glæpum í Evrópu. En þessir miklu fólksflutningar, sem t.d. grísk stjórnvöld búast við að nái 100.000 manns um gríska landhelgi á þessu ári, veikja bersýnilega varnarviðbúnað Evrópusambandsins alls gagnvart hryðjuverkasveitum eins og al-Qaída, al-Shabaab og ISIS, sem geta auðveldlega smyglað liðsmönnum sínum innan um flóttamenn til Evrópu með þessu móti. Í Ástralíu hefur hins vegar flaumur flóttamanna þangað verið stöðvaður með strangri bannstefnu gegn slíkum innflutningi yfir hafið, því að menn vita það fyrir fram, að slík ferð er tapað fé og ber engan árangur. Er Evrópusambandinu um megn að taka upp sömu stefnu?
Ekkert af þessu má túlka þannig að lýsi kaldlyndi gagnvart flóttafólki sem leitar betri lífskjara og frelsis í Evrópu. Skipverjar varðskipsins Týs eru ennfremur á allan hátt augljóslega hrósverðir fyrir sitt mikla björgunarstarf, sem hrein nauðsyn verður að teljast miðað við ríkjandi aðstæður á Miðjarðarhafi.
* The European Commission; sjá hér: http://www.huffingtonpost.com/2015/04/24/mediterranean-migrants-greece_n_7128198.html
Jón Valur Jensson.
Evrópustofu hugsanlega lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:26 | Facebook
Athugasemdir
Það ætti að vera nóg að hlusta á toppana í Seðlabankanum varðandi það hvort vega þyngra; rökin með eða á móti ESB; frá degi til dags.
Jón Þórhallsson, 5.5.2015 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.