Þrjár leiðir í ESB-málinu - og fráleitt samráð ríkisstjórnarinnar við stórveldið! (með VIÐAUKA)

Þrjár leiðir Alþingis eru helztar nú til að skýra stöðu þess og landsins í ESB-umsóknarmálinu:

  1. að stjórnarandstaðan lýsi vantrausti á utan­ríkis­ráðherrann vegna bréfs hans til Evrópu­sambandsins; verði slík tillaga samþykkt, yrði ríkisstjórnin að fá sér í 1. lagi nýjan utanríkisráðherra og í 2. lagi að velja aðra leið í málinu til að koma fram vilja sínum; verði hún hins vegar felld, verður það til marks um, að sjálft Alþingi telji gjörð ráðherrans ekki í andstöðu við vilja sinn;
  2. að ríkisstjórnin leggi fram formlega tillögu um, að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu verði afturkölluð og það kunngjört því sambandi og öllum þjóðum;
  3. vilji Samfylkingin og e.t.v. fleiri á Alþingi enn halda þessu umsóknarmáli á loft, þá geta viðkomandi borið fram tilögu þess efnis og sagzt þar um leið líta svo á, að umsóknin, sem samþykkt var naumlega á Alþingi í júlí 2009, sé enn í gildi sem vilji Alþingis. Verði tillagan felld, eins og fullar líkur eru á (og t.d. með tilstyrk Ögmundar Jónassonar), þá er málið endanlega og farsællega úr sögunni. Að þar með séu "aðrar leiðir fyrir okkur lokaðar" í efnahagsmálum en þær að búa bara að sínu áfram, er ekki rétt; Árni Páll Árnason gæti ennþá, á komandi árum, borið fram tillögu um, að Ísland eigi að gerast 51. ríki Bandaríkjanna (það fæli í sér minna fullveldisframsal en að fara inn í ESB) eða að sækja eigi aftur um inngöngu í Evrópusambandið. Að "leið sé lokað" til frambúðar er nefnilega bara áróður ættaður ú Skaftahlíð, þar sem ESB-innlimunarsinninn Jón Ásgeir Jóhannesson stýrir leikbrúðum sinum á 365 fjölmiðlum, m.a. ritstjóra ESB-Fréttablaðsins og fréttastjórn á Stöð 2 og Bylgjunni.

Helzta frétt kvöldsins er ekki það, sem Bjarni Benediktsson benti Katrínu, formanni VG, á í þingræðu sinni, þ.e. að forveri hennar, Steingrímur J., hefði sjálfur áskilið sér rétt til þess slíta viðræðunum við Evr­ópu­sam­bandið hvenær sem væri og bætt því við, að það ætti þingið að gera líka; "þannig hafi þeir sem staðið hefðu að þings­álykt­un­ar­til­lög­unni ekki talið sig sjálfa bundna af henni," sagði Bjarni, en byggir þó þarna á eigin túlkun á því, vegna þess að ljóst er, að lagaflækjufrömuðir vinstri flokkanna geta, jafnvel með tilstyrk hins volduga Evrópusambands, er tímar líða, haldið því fram, að eitt sé að slíta viðræðum um tíma og annað að draga umsókn formlega til baka. Ekki hafa Tyrkir verið í aðildarviðræðum við ESB mörg síðastliðin ár, jafnvel naumast í neinni alvöru á þessari öld, en eru þó samt með umsókn þar skráða.

En við þurfum --- Alþingi þarf --- að taka af öll tvímæli um, að Ísland er ekki í neinni umsóknarstöðu.

Helzta frétt kvöldsins er aftur á móti ræða forsætisráðherrans á þingfundinum í dag, þar sem hann staðfesti í raun þau orð, sem Styrmir Gunnarsson hafði ritað 13. þ.m. og gáfu til kynna, að ríkisstjórnin hefði verið í einhverju samráði um þetta mál við Evrópusambandið á undangengnum dögum eða vikum. Sigmundur Davíð upplýsti einmitt í ræðunni, "að ákvörðun um að senda bréfið til ESB hafi verið tekin í samráði við ESB. ... Það hafi tekist að gera þetta í góðu gagnvart ESB." (Eyjufrétt.)

Þarna var sem sé verið að ráðfæra sig nánast við höfuðandstæðinginn (ESB, sem vill komast yfir Ísland og hefur þó hingað til sýnt okkur fullan fjandskap með dómsmorði sínu í Icesave-málinu og andstöðu við makrílveiðar okkar, sem hafa gefið okkur langt yfir 100 milljarða í gjaldeyristekjur) -- já, ríkisstjórnin dirfðist að leita ráða í Brussel, hvað hún ætti að gera, þegar hún sat uppi í örvæntingu gagnvart umræðu­frekum pappírs­tígrisdýrum Samfylkingar og vinstri flokka allra handa, að ógleymdum launuðum talsmönnum Jóns Ásgeirs og eineltisiðkandi vinnusvikamönnum á Fréttastofu Ríkisútvarpsins! (Þetta síðastnefnda rökstyður undirritaður í annarri grein sinni í dag, HÉR).

VIÐAUKI í hád. 17/3: Rúv-fréttir í hádeginu af fundi utanríkis­mála­nefndar Alþingis bera það ótvírætt með sér, að aðferð stjórnar­flokkanna og ráðherrans í þessu máli er allsendis óviðunandi. Formaður nefndar­innar, Birgir Ármannsson, segir beinlínis, að Ísland hafi "auðvitað stöðu umsóknar­ríkis, þar til" Evrópu­sambandið hafi tekið ákvörðun um annað, þetta sé "þeirra listi". Össur Skarphéðinsson bregzt svo við með því að segja það "mjög jákvætt, að [umsóknin] sé enn í fullu gildi." 

Með þessu er ljóst, að ríkisstjórnin valdi þá leið að fela Evrópu­sambandinu allt vald um túlkun bréfs ráðherrans, og helzti baráttu­jálkur ESB-innlim­unar­stefnunnar, fyrrv. utanríkis­ráðherra Össur (sá sem jafnvel braut stjórnarskrána á "vegferð" sinni til að svíkja landsmenn í málinu), getur ekki leynt ánægju sinni með, að niðurstaðan (hingað til) er vitaskuld honum og Evrópusambandinu í hag.

Hér er þá líka á hreinu, að þegar undirritaður skar sig úr hópi flestra þeirra fullveldissinna, sem tjáð höfðu sig framan af um aðferð ríkisstjórnarinnar í málinu (þ.e. um bréfs-tilkynningu utanríkisráðherra), sennilega úr hópi allra álitsgefandi ESB-inngöngu-andstæðinga fram að því, fyrir utan Styrmi Gunnarsson, þá var það afstaða okkar Styrmis sem var sú rétta, m.ö.o. að leiðin, sem farin var, var röng eða að minnsta kosti allsendis ónóg í sjálfri sér. (Undirritaður er hins vegar ekki hlynntur tillögu Styrmis um að leysa hnútinn með þjóðaratkvæði.)

Það má ekkert orka tvímælis um stefnu landsins í þessu máli. Það kemur ekki til greina, að "kannski" liggi ólögmæta umsóknarplaggið hans Össurar frá 2009 á skrifborðinu hjá Brusselmönnum, sem geti bara beðið endurnýjaðrar óskar einhverrar ríkisstjórnar hér með Samfylkingu innan borðs um að "halda þá bara áfram viðræðunum, þar sem frá var horfið!" Alþingi ber að jarða þessa umsókn um inngöngu í stórveldið og gera það með ótvíræðum hætti, annað kemur ekki til greina og ekki minnsta ástæða til að styðja stjórnarflokkana í þeirri stefnu, sem þverbrýtur gegn þeim vilja landsþinga þeirra, að umsóknin verði formlega dregin til baka ... og það vitaskuld með viðhlítandi hætti, sem komi í veg fyrir enn eina skjóta atrennu ESB-innlimunarsinna að fullveldi landsins.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Töldu tillöguna heldur ekki bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er leið 4 sem væri skynsamlegust fyrir Ísland.

4.  Gunnar Bragi og framsjallar dragi bréfið þegar til baka!  Strax.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.3.2015 kl. 22:37

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

... skrifar Ómar Bjarki, margheilaþveginn Icesave-predikari fyrir austan, ESB-taglhnýtingur sem jafnvel á ESB-vænni Eyjunni og Vísisvefnum átti met í niðurþumlun á öfugmæla-innleggjum sínum.

Jón Valur Jensson, 16.3.2015 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband