ESB-rök Gunnars Hólmsteins halda hvorki vatni né vindi

Ekki voru allir í mótmælum dagsins ESB-sinnar. En það er Gunnar Hólmsteinn Ársælsson í Frbl.grein um helgina. Ekki er hann nákvæmur um sannleikann, er hann ritar: "Maður er orðlaus," því að meira en nóg fjölyrðir hann. En að hann sé nokkurn veginn raka-laus, það má kannski fallast á. Lítum á málið.

Þessi eru meint rök hans fyrir því sem hann kallar „okkar [Esb-inntökusinna] afstöðu í Evrópumálum“ :

1) Það sé „náttúrlega ekki rétt,“ að þeir vilji færa fullveldið í hendur ESB, „því allar þjóðir ESB eru enn frjálsar og fullvalda.“

En jafnvel brezkir stjórnmálamenn (í því fjölmenna ríki) eru orðnir mjög fúlir yfir miklu fullveldisframsali til Brussel. Danir og Svíar eru farnir að finna sárt fyrir þessu, enda hrapaði þeirra atkvæðavægi í leiðtogaráði ESB og í hinu löggefandi ráðherraráði þess niður í 1,1% og 1,85%, respective, hinn 1. nóvember síðastliðinn.

Þar að auki samþykkja ný meðlimaríki með sínum inngöngusáttmála allt lagaverk Evrópusambandsins, það sem þangað til hefur verið grautað saman (oft við mjög takmarkaða hrifningu), og skuldbindur sig til að taka við öllum nýjum lögum þaðan (frá ESB-þinginu og ráðherraráðinu, sem er jafnvel voldugri löggjafarstofnun en sú fyrrnefnda; þar fengjum við 0,06% atkvæðavægi!), og því er svo bætt við þetta í inngöngusáttmálanum (accesion treaty, „aðildarsamningnum“ sem sumir hér kalla svo), að "Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it," þ.e.a.s.: ESB-lög hafa forgang fram yfir hvaða ráðstafanir sem er af vettvangi þjóðanna (aðildarþjóða) sem kunna að rekast á þá ESB-löggjöf! Og ekki nóg með það, heldur er túlkun ágreinings milli miðstjórnar ESB og einstakra aðildarríkja um lagamál falin þeim ESB-vinnuferlum á vald, sem sjá um samræmda (einsleitna, uniform) túlkun ESB-laga. Sjá á ensku um allan þennan upphafs-grunn hvers aðildaráttmála: http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/878892/ 

2) Ekki sé um að ræða baktjaldamakk í "reykfylltum" herbergjum í Brussel, segir Gunnar Hólmsteinn. ---Ekki eru þetta nú veigamikil rök, enda mörg dæmi um slíkt baktjaldamakk, ekki sízt á seinni árum, og eru ýmis ESB-ríkin harla ósátt við ofríki Frakka og Þjóðverja í æðstu stjórn ESB á ýmsum málum.

3) "Það geta varla talist landráð, að leyfa íslensku þjóðinni að ráða?" (þ.e.a.s. með því "að klára aðildarviðræður, fá samning á borðið [og] kjósa um hann"), segir Gunnar. –––En er það í alvöru að kjósa um „samning“ að ganga að kjörborði og segja JÁ eða NEI við einhverju sem menn hafa EKKI LESIÐ? Hve margir lásu t.d. "nýju stjórnarskrána" í 114–115 greinum í heild (eða bara hálfa!), áður en þeir (reyndar ekki nema tæp 49% manna með kosningarétt) kusu um hana 20. okt. 2012? Halda einhverjir, að ennþá lagaflækjulegri texti ESB-inntökusáttmála verði almennt lesinn af kjósendum hér?!!

En ef þetta grunnplagg verður ekki almennt lesið, verður þá í raun og veru hægt að tala um, að verið sé að kjósa um inntökusáttmálann af einhverri upplýsingu? (Og átta allir sig á því, að sumt í lagatextanum er jafnvel áróðurskennt?!)

Og er vert að láta óupplýst fólk kjósa með einni einustu kosningu um eitthvað svona afdrifaríkt næstu áratugi, jafnvel aldir, sem meðal annars mundi fá Evrópusambandinu í hendur æðsta STJÓRNVALD yfir fiskveiðimálum okkar (jafnvel svæðalokunum, veiðibanni vissra tegunda o.m.fl., allt niður í möskvastærðina á netum okkar!), einnig æðsta og RÁÐANDI LÖGGJAFARVALD (með forgangsrétti, eins og áður sagði, yfir öll okkar lög, gömul sem ný), sem og ÆÐSTA DÓMSVALD (þ.e. ESB-dómstólsins í Lúxemborg)? Og hér minni ég á, að fulltrúi þess dómstóls tók þátt í gerðardómi fulltrúa þriggja ESB-stofnana* haustið 2008 þar sem þeir samhljóða dæmdu Ísland sekt saka í Icesave-málinu og að við ættum að borga Bretum og Hollendingum það sem þeir kröfðust af okkur! Sem betur fer hafði Árni M. Mathiesen vit á því að skipa ekki íslenzkan fulltrúa í þann "gerðardóm" hinna hlutdrægu –– manna sem frömdu þarna dómsmorð, dæmdu falskan dóm, þvert gegn tilskipun sjálfs Evrópusambandsins (94/19/EC)! Hafi Árni ævarandi þökk fyrir einurð sína á þeim úrslitatíma.

* Hinar tvær voru framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (nú undir forsæti Junkers, sem nýlega hvatti til þess, að ESB stofni sinn eigin HER, og undir það tóku þýzkir ráðherrar!) og Seðlabanki Evrópu, sá sem nú lætur prenta evrur í gríð og erg, með verðbólguhvetjandi áhrifum; en evran er, nota bene, helgimynd hins hreina evrókrata. Fór hún þó illa með fjárhag Íra og annarra, eftir 2008!

Jón Valur Jensson.

mbl.is Mótmælin í myndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

http://www.utanrikisraduneyti.is/media/PDF/Lissabon-sattmali-2.-utgafa-juni-2012.pdf

Guðmundur Ásgeirsson, 16.3.2015 kl. 02:03

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir, Guðmundur, það er sannarlega gagn að þessu. 

Jón Valur Jensson, 16.3.2015 kl. 03:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband