Tveir sérfræðiprófessorar: Engar varanlegar undanþágur fengjust frá lögum ESB um landbúnað og sjávarútveg

Sumir ímynda sér, að undanþágur/sérlausnir fyrir ESB-ríki gagnvart lögum ESB séu varanlegar, ef ekki er tekið fram, að þær þær sé tímabundnar.

En ESB hefur það í hendi sér, hvenær þær verða afnumdar, úreltar eða þeim breytt.

Það er mjög upplýsandi að lesa orð dr. Stefáns Más Stefánssonar, prófessors í Evrópurétti við lagadeild HÍ, í bók hans Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins (2011, 108 bls.). Hann segir þar á síðu 66:

"Um varanlegar undanþágur frá reglum ESB. Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða, hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála." (Nánar þar.)

Ennfremur ritar hann á s. 66-67:

"Um tímabundnar undanþágur frá reglum ESB. Skoðun á aðildarlögum leiðir í ljós að unnt er að fá tímabundnar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins ef rök standa til þess. Er mismunandi og raunar samningsatriði hve hin tímabundna undanþága geti staðið lengi og hversu víðtæk hún getur orðið. Í aðildarsamningi Finnands, Svíþjóðar, Austurríkis og Noregs um aðild að Evrópusambandinu frá 1994 er m.a. gerð grein fyrir ýmsum aðlögunaraðgerðum sem giltu til ársloka 1999." (Nánar þar.)

Og í 3. lagi segir próf. Stefán Már (167):

"Breyting á reglum ESB í þágu einstakra aðildarríkja. Sem dæmi um þetta má nefna 142. grein fyrrnefnds aðildarsamnings en þar segir svo í lauslegri þýðingu:

  • Framkvæmdastjórnin skal heimila Noregi, Finnandi og Svíþjóð að veita langtíma innanlandsstuðning með það að markmiði að tryggja að landbúnaður verði áfram stundaður á tilteknum svæðum. Þessi svæði eiga að ná til landbúnaðarsvæða norðan 62. breiddargráðu og nokkurra aðliggjandi svæða innan þeirrar breiddargráðu, sem búa við svipaðar veðurfarsaðstæður sem gera landbúnað erfiðan."

Og takið svo eftir beinu framhaldi texta Stefáns Más (leturbr. JVJ):

"Stuðningur samkvæmt þessari grein er bundinn ströngum reglugerðarákvæðum sem framkvæmdastjórnin [í Brussel] setur. Sem dæmi má nefna að hámark er sett á heildarstuðning og tegund stuðnings er ákveðin eftir ströngum mælikvarða. Af þessu er ljóst að litið er á ákvæðið sem sérstaka útfærslu ESB-réttar. Það er ESB sem ákveður öll skilyrði fyrir stuðningnum og hann getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins í landbúnaðarmálum."

JVJ tók saman, aðallega úr bók Stefáns.  Álit hins sérfræðiprófessorsins, Ágústs Þórs Árnasonar, sjá umfjöllun hans sem tekin er upp í 1. aths. hér neðar.


mbl.is Fjöldi fólks á samstöðufundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ein mest lesna fréttin á Rúv-vefnum í kvöld:

Engar varanlegar sérlausnir eða undanþágur

Fyrst birt: 02.03.2014 18:09, Síðast uppfært: 02.03.2014 20:52
Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri. Samsett mynd: RÚV.

Ísland á ekki möguleika á neinum varanlegum sérlausnum eða undanþágum í aðildarviðræðum sínum við Evrópusambandið. Þetta er niðurstaða eins aðalhöfunda skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðnanna við ESB. Hann segir að í ljósi þessa sé viðræðum í raun sjálfhætt.

Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri, hafði yfirumsjón með úttekt á aðildarferlinu í skýrslu Hagfræðistofnunar. Hann segir að niðurstaða sín varðandi helsta þrætuepli þeirra sem vilja halda viðræðum áfram og þeirra sem vilja hætta þeim sé afdráttarlaus. „Það er alla vega alveg ljóst að það er ekki um neinar sérlausnir eða undanþágur að ræða, nema þá tímabundnar og klárlega ekki sem að yrði hluti af löggjöf Evrópusambandsins.“

Ágúst Þór segir að Evrópusambandinu þætti að vissu leyti heiður að því að fá Ísland inn í Evrópusambandið, en að það finni ekki til neinnar knýjandi þarfar til að veita Íslandi undanþágur til að laða það inn í sambandið. Hann segir að seinni rýnifundurinn um sjávarútvegskaflann hafi verið haldinn fyrir þremur árum, í mars 2011. Síðan hafi bókstaflega ekkert verið í fréttum um þann kafla og að það sé verðug spurning sem ekki hafi fengist svar við, af hverju Evrópusambandið hafi ekki viljað afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegskaflann.

Ágúst segir það niðurstöðu sína, í ljósi þess að ekki verði hægt að fá neinar varanlegar sérlausnir eða undanþágur, að aðildarviðræðum sé í raun sjálfhætt. „Það horfir þannig við mér og það má algerlega lesa það út úr þeim skrifum sem ég lagði fram í viðaukanum. Sko það verður þá einhver að koma með eitthvað upp á borðið sem segir eitthvað annað. Ég hef ekki heyrt það.“

Jón Valur Jensson, 2.3.2014 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband