22.2.2014 | 05:18
Tapsár Benedikt Jóhannesson vildi að frændi sinn héldi sig við brot á flokksaga og flokksins stefnu
Það "loforð" Bjarna Ben., sem Benedikt frændi hans Jóhannesson sífrar yfir í Mbl.is-viðtali, var ekkert loforð sem formaðurinn gaf fyrir flokkinn, enda var flokkurinn með allt aðra stefnu. Bjarna hefði verið nær að halda sig skýrt við hana, en tala ekki með tungum tveim og sitt með hvorri. Hann hefði líka betur haldið sig við andstöðu flokkins við Icesave-samningana -- sér það jafnvel núna sjálfur.
Stefna flokksins í ESB-málinu var mótuð á landsfundi hans 2013. Fáir hafa gert jafn-skýra grein fyrir henni og Sigríður Ásthildur Andersen í Mbl.-grein nú í vikunni. Landsfundur talaði skýrt nefnist greinin (20 febr.). Þar segir hún m.a.:
- Stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum Evrópusambandsins er ákaflega skýr. Hana mótaði síðasti landsfundur, æðsta vald í málefnum flokksins. Í fyrsta lagi er stefna Sjálfstæðisflokksins sú að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Í öðru lagi, og það er mjög mikilvægt, tók landsfundur þá skýru ákvörðun að Sjálfstæðisflokkurinn vill að aðildarviðræðum verði hætt. Þótt slík stefna liggi auðvitað í augum uppi, fyrst flokkurinn vill að Ísland standi utan Evrópusambandsins, var mjög mikilvægt að landsfundur kvæði skýrt á um að aðildarviðræðum yrði hætt.
- Landsfundur sagði meira
- En landsfundur sagði ekki aðeins að aðildarviðræðum yrði hætt. Fundurinn gerði fleira og það skiptir einnig verulegu máli. Það var nefnilega lagt til, í upphaflegum drögum að ályktun, að stefna Sjálfstæðisflokksins yrði sú að gert yrði hlé á aðildarviðræðunum. Því hafnaði landsfundurinn. Landsfundur beinlínis hafnaði þeirri tillögu að gert yrði hlé á viðræðunum og ákvað að stefna Sjálfstæðisflokksins væri þvert á móti sú að viðræðunum skyldi slitið. Það var í þessu samhengi sem fundurinn bætti því við að slíkar viðræður, sem þá skyldi búið að slíta, skyldu aldrei hafnar aftur án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðslan var varnagli. Þannig er stefna flokksins auðvitað ekki sú að efnt skuli til atkvæðagreiðslu núna, um það hvort aðlögunarviðræðunum verði haldið áfram. Landsfundur, æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins, tók af skarið. Viðræðunum skal einfaldlega slitið. Og að því búnu skal það tryggt að aldrei verði farið aftur í slíkar viðræður án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Skyldi Benedikt, með allt sitt reikningsvit, í alvöru ganga illa að skilja þetta? Fór ekki frændi hans flatt á því að svíkja þjóðina í Icesave-málinu? Varð ekki flokkurinn að líða fyrir það, þótt enga sök bæri á þessari kúvendingu Bjarna? Hafði Icesave-sinninn Benedikt kannski náð að hvísla í eyra Bjarna Ben.?
Stundum eru frændur frændum verstir -- og á stundum formenn flokkum verstir. En Bjarni hefur gott tækifæri til að bæta sig. Var hann ekki að því í gær, eða eru síðan allt í einu einhverjar vöflur á honum og Gunnari Braga?
Við viljum fá hreinskiptni og skýrar línur, stjórnmálamenn sem tvínóna ekki við einbeittar ákvarðanir, slá ekki úr og í og stunda ekki tvöfeldni.
Jón Valur Jensson.
Það var búið að gefa loforð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 05:55 | Facebook
Athugasemdir
Síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins tók sem betur fer skýra afstöðu með að slíta viðræðum. Það hafðist ekki þrautalaust, enda var tiltölulega fámennur en samstæður hópur ESB- sinna ansi virkur og hafði áður lamið í gegn sín Össurar- style „hlé“ á tveimur fyrri slíkum. Síðan lagðist hópurinn jafnan á Bjarna Ben til þess að fá hann til að lofa framhaldi.
Öll trompin voru notuð, samtökin SA, SI, Viðskiptaráð og hvar sem þrjár manneskjur komu saman, að því er virtist. En hann gaf sig sem betur fer ekki og niðurstaðan er vonandi sú að þessari eymdarferð til ESB sé lokið, Íslandi til hagsbóta. Þá taka við eðlileg samskipti við allar Evrópuþjóðir og aðrar þjóðir.
Ívar Pálsson, 22.2.2014 kl. 10:49
Það velkist enginn î vafa um hverju Bjarni Benediktsson lofaði. Heiðarlegir menn standa við orð sín. Oð skulu standa. Svik eru svik.
Eiður Svanberg Guðnason, 22.2.2014 kl. 18:02
Sagði hann einhvern tímann:
"Ég lofa því, að flokkurinn haldi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál?"
NEI, það gerði hann ekki og hafði heldur ekkert umboð til þess.
Og Eiður minn, þú ert nú bara evrókrati, ekki mikið mark á þér takandi.
Jón Valur Jensson, 22.2.2014 kl. 21:09
Já, þú ættir fremur að halda þig við þætti þína um íslenzkt mál.
En úpps! Fór ég með slettu þarna: "evrókrati"?
Ég viðurkenni að vísu, að það fyrirbæri er mjög óþjóðlegt ...
svo að maður tali hér ekki bara í alvöru, heldur í gamni og alvöru.
Jón Valur Jensson, 22.2.2014 kl. 21:12
Andskotans ástand er þetta í þjóðfélaginu núna, meira að segja að fréttastofa RUV hefur tekið afstöðu. Eins og alltaf er afstaðan sú að minnihlutinn eigi að KÚGA meirihlutann. Skömm sé RUV og ESB sinnum, látið okkur í friði.
Örn Johnson, 23.2.2014 kl. 00:29
Nú ættuð þið Sjálfstæðismenn að hlusta á fyrrverandi formann flokksins. Hann er rödd skynseminnar. Þetta eru söguleg svik í íslenskri pólitík. Hver trúirloforðum Bjarna Benediktssonar eftir þetta? Nefni nú ekki Framsóknarfyrirbærið.
Eiður Svanberg Guðnason, 23.2.2014 kl. 15:17
Eru þeir Örn Johnson og Ívar Pálsson í Sjálfstæðisflokknum? Kannski, en ekki ég undirritaður og ekki nema lítill hluti félagsmanna í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland.
En ef ég tala fyrir sjálfan mig, þá er ég hvorki Þorsteins- né Bjarnatrúar!
Jón Valur Jensson, 23.2.2014 kl. 20:07
Eiður, Þorsteinn Pálsson er sannarlega ekki talsmaður fjöldans í Sjálfstæðisflokknum, sem er harður gegn ESB-aðild. Hann var formaður fyrir langalöngu áður en ESB- dellan heltók stjórnmálin. Davíð Oddson sigraði Þorstein blessunarlega og Þorsteins- hlutinn er það lítið brot að hann leggur ekki í að stofna nýjan flokk með hægri hluta Samfylkingar. Sá yrði eins og sértrúarsöfnuður, um ESB-aðild.
Já, Jón Valur, ég er Sjálfstæðismaður, sem hef barist á Landsfundum flokksins gegn ESB- aðlögun og umsókn. Loksins tókst að koma þessu orði "hlé" út núna síðast og "hætt" kom í staðinn. Þá varð þetta á hreinu og núna er þetta loksins að gerast. Bjarni og Sigmundur Davíð hafa þetta klárt og nú er hægt að nota tímann í annað!
Ívar Pálsson, 23.2.2014 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.