Full ástæða er til að AUKA makrílhlut okkar, alls ekki að skerða hann!

Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin. Þá leggja samtökin áherslu á að stjórnvöld haldi fast við fyrri kröfur um aflahlutdeild í makríl.

Svo segir m.a. í ályktun framkvæmdastjórnar Heimssýnar, en hana skipa 9 manns með formanni og varafomanni, en þarna eru einnig þrír fyrrverandi ráðherrar, Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007, Ragnar Arnalds, fjármálaráðherra 1980-1983, og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011.

  • „Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16-17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land."

Orð eru það að sönnu. Nú hefur ICES, hið skeikula Alþjóðahafrannsóknaráð, endurmetið stofnstærð makríls í NA-Atlantshafi, skyndilega hækkað fyrra mat um 500.000 tonn í stað þess að gefa því undir fótinn, að of mikill ágangur hafi verið á hann, eins og Evrópusambandið hefur haldið fram og verið þess lygilega réttlæting fyrir því að sækja hart að Íslendingum og Færeyingum.

  • Framkvæmdastjórn Heimssýnar skorar á íslensk stjórnvöld að falla ekki frá kröfum um 16-17% hlutdeild í makrílveiðinni, nú þegar samið er um skiptingu aflans á fundi hagsmunaríkja í Lundúnum. Þar er lögð áherzla á að „ekki verði látið undan hótunum Evrópusambandsins í samningum um hlutdeild Íslands í heildar-makrílveiði“. (Mbl.is.)

Við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland viljum vekja sérstaka athygli á því, að í raun ættu breyttar aðstæður að gefa okkur enn meiri rétt en þann að standa vörð um 16-17% hlutdeildina (ESB "býður" nú 11,9%!!!). Ótvíræð AUKNING makrílstofnsins kemur einmitt án efa til af nýjum og gjöfulum beitarlöndum hans við Ísland, Grænland og Færeyjar -- þess vegna hefur stofninn stækkað svona mikið -- og þess vegna ættum við að gera auknar kröfur í veiðikvótann, sennilega á bilinu 20-25%.

"Heimssýn skorar jafnframt á ríkisstjórnina að afturkalla þegar í stað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu,“ segir ennfremur í ályktuninni, og koma þau orð ekki eins og skollinn úr sauðarleggnum, heldur skiljast þau einmitt í beinu samhengi við þá þrýstings- og ofríkispólitík sem nú er iðkuð í Brusselgarði gegn íslenzku þjóðinni. Og það mega ráðamenn okkar vita, að framtíð makrílveiðanna er fremur þjóðarmál en þeirra mál. Hér verða engin svik liðin og heldur engin hræðslugæði.

Já, sannarlega er ástæða til að standa vörð um lífshagsmuni Íslendinga í makrílmálinu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Gefi ekki eftir í makríldeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband