Klaufarnir Bjarni Már Magnússon, doktor í lögum, og Stefán Ólafsson prófessor

Þeir eiga innlegg í ESB-umræðu í Fréttablaðinu í dag, sá fyrri um fullveldi, hinn segir Norðmenn hafa skoðað tvisvar "í pakkann, með aðildarviðræðum". Villa beggja er að fylgja ekki eftir því, sem vitað er um framhald mála. Þannig stöðvar Bjarni Már Magnússon athugun sína árið 1923, en Stefán Ólafsson 1994.

Hvernig þá í ósköpunum? Jú, tökum fyrst hinn þekktari þeirra fyrir, Stefán, prófessor í félagsfræði. Hann segir það rangt hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, að ekki sé hægt að skoða í pakkann með aðildarviðræðum. Afsönnun þess liggi fyrir, því að tvívegis hafi Norðmenn gert það. Þar vísar hann til aðildarviðræðna þeirra og uppáskriftar norskra stjórnvalda á inngöngusáttmála (accession treaty heitir þetta) sem norska þjóðin hafnaði 1972 og 1994.

Hvar skjátlast þá Stefáni í þessum efnum? Á tvíþættan veg.

1. Hann gengur fram hjá því, að þegar þjóðirnar austan gamla járntjaldsins fóru að sækja um ESB-inngöngu, mörgum árum eftir 1994 , var fyrirkomulagi inntökuferlisins breytt. Það er EKKI lengur verið að "SEMJA" (negotiate) um nein varanleg kjör ESB-umsóknarríkjanna innan stórveldisins (sambandsins), það tekur t.d. framkvæmdastjórn ESB fram með skýrum orðum í yfirlýsingu sinni ágúst 2011 (sjá pistil hér fyrir neðan), heldur er einfaldlega verið að ræða um upptöku landsins á um 100.000 blaðsíðna lagaverki ESB, ekki hvort það verði allt tekið upp, heldur í mesta lagi á hve löngum tíma (fáeinum árum yfirleitt varðandi þær örfáu undanþágur sem gerðar eru frá því að taka upp lagaverkið samstundis og

2. Stefán neitar ennfremur að LÆRA (nokkuð sem háskólakennari ætti að kunna skil á) af niðurstöðu inngönguviðræðna Norðmanna 1993-4. Hvað átti hann að læra? Jú þetta: að þeim var með eitilhörðum samningskröfum gert að hlíta þeirri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins út í æsar, að þeir fengju fiskveiðilögsöguna EKKI fyrir sjálfa sig, ekki einu sinni part hennar, norðan viss breiddarbaugs. Niðurstaða eða öllu heldur innihald "pakkans" sem þeir "fengu" í sjávarútvegsefnum var einmitt þessi : að þeir fengju ekki neitt! Af þessu neitar Stefán að læra. Hann lætur sem "pakki" handa Íslendingum gæti falið í sér óvæntan glaðning. Sennilega er hann að gefa mönnum í skyn, að ekki yrði um afturhvarf frá sigrum okkar í landhelgismálinu að ræða. En fyrir slíku eru engin rök. Hin sameiginlega sjávarútvegsstefna (CFP) Evrópusambandsins útilokar það, og það hafa forystumenn sambandsins staðfest ítrekað með orðum sínum. "Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB,“ sagði til dæmis Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel þegar spurt var út í sjávarútvegsstefnu sambandsins, og í sama knérunn falla orð Emmu Bonino og Olli Rehn, sjá nánar hér: Margstaðfest staðreynd: Engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB!.

Er þá villulisti Stefáns prófessors upp talinn? Nei, jafnvel þótt aðeins sé miðað við 19 einsdálkslínur frá honum í ESB-Fréttablaðinu í dag, heldur hann þar einnig uppi sjónhverfingum um annað mál, þegar hann skrifar um "hinar síendurteknu rangfærslur um að ESB muni taka yfir náttúruauðlindir Íslands, ef við gerumst meðlimir í Evrópusambandinu." Stefán reynir hér að vísu fyrst að stilla þessu upp sem stærstum möguleika ("taka yfir [allar] náttúruauðlindir Íslands"), en það er aðeins málskrúðs- eða kappræðu- (rhetorísk) -aðferð hjá honum að láta þá líta svo út sem hér sé ekkert að óskast. Rökvillan er sú að gefa sér uppteiknaða forsendu, sem hægt sé að segja að eigi sér ekki beina og skýra tilvist í sáttmálum ESB sem opinská stefna þess, en horfa hins vegar fram hjá því, að í Lissabon-sáttmálanum eru einmitt valdheimildir gefnar til þess að fara með vissum hætti fram hjá eignaryfirráðum meðlimaríkjanna á auðlindum sínum. Þar er nefnilega tekið sérstaklega fram, að meðlimaríkin skuldbindi sig til að koma fram sem “samheldið afl í alþjóðasamskiptum” og m.a. geti þá ESB stýrt framboði (supply) á orku, þ.e.a.s. með því að "ensure security of energy supply in the Union"; það getur þá líka átt við um öflun orkunnar (sbr. í ensku máii: 'to supply us with this': að afla okkur þessa) og þá jafnvel allt að frumframleiðslustigi. Þá er þar með komin átylla fyrir ESB til að grípa inn í orkuöflun (t.d. olíu eða vatnsafls- eða jarðvarma-framleiddrar raforku) til að tryggja meðlimaríkjunum þá orku, t.d. í nýrri orkukreppu og til að koma í veg fyrir að t.d. Norðmenn eða Íslendingar selji olíu til annarra heimshluta. Eins gæti þetta jafnvel orðið undirstaða kröfu á hendur okkur að við útvegum mikið rafmagn gegnum rafstreng til Skotlands, jafnvel þótt það fæli í sér, vegna jafnræðisreglna ESB, að við yrðum að stórhækka rafmagnsverð til íslenzkra heimila. (Þetta er ekki á döfinni næstu árin eða kannski meira en áratug, vart áður en ESB tækist að narra Norðmenn inn, en til þess eru valdheimildir settar að nota þær; og það, sem getur gerzt vegna slíkra samþykktra grunnreglna, það gerist gjarnan og mun gera það, ef stórveldishagsmunir bjóða svo.

Af innslagi Bjarna Más Magnússonar

Hann vísar í grein ('Ytra fullveldi') á leiðarasíðu Esb-Fréttablaðsins í dag til úrskurðar Fasti-dómstólsins (fyrirrennara Alþjóðadómstólsins í Haag) um fullveldismál, þ.e. í svonefndu S.S. Wimbledon-máli. "Í stuttu máli komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríki sem tekur á sig skuldbindingar með þjóðréttarsamningi væri ekki að skerða fullveldi sitt, heldur að nota það," ritar hann og álykar sjálfu: "Nú hefur sá skilningur legið fyrir í níutíu ár að þegar ríki tekur á sig skuldbindingar af þjóðréttarlegum toga sé ríkið að nota fullveldið en ekki afsala sér því."

En hér gerir Bjarni Már sig sekan um alvarlega yfirsjón. Þegar ríki framselur sjálf æðstu fullveldisréttindi sín í löggjafarmálum (auk framkvæmda- og dómsvalds) til annars ríkis eða ríkjabandalags, þá er það sannarlega að gera nokkuð, sem kemst nánast eins nærri því og unnt er að afsala sér fullveldi. 

En gerist þetta nokkuð við inntöku ríkis í Evrópusambandið? Já, svo sannarlega! Sjá hér: 'Réttinda-afsalið sem yfirlýst og staðfest yrði með aðildarsamningi (accession treaty) við Evrópubandalagið' = http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/878892/

Þar kemur m.a. fram (í þessu ESB-skjali: http://eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0001010001 ) "that Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it, and that procedures exist for ensuring the uniform interpretation of Community law; whereas accession to the European Union implies recognition of the binding nature of these rules, observance of which is indispensable to guarantee the effectiveness and unity of Community law." Landslög víki sem sé alltaf fyrir ESB-lögum, og allt túlkunarvald sé lagt í hendur Evrópusambandinu!

Bjarni Már er strandaður á árinu 1923 og hefði getað gert betur en þetta! Tilætlun Evrópusambandsins er allt önnur og róttækari og sannarlega eðlisólík þeirri, sem felst t.d. í varnarsamningi Íslands við Bandaríkin, GATT-samningnum, undirskrift Mannréttindayfirlýsingar SÞ og fríverzlunarsamningnum við EFTA-ríkin. Bjarni Már þarf að bæta ráð sitt í sinni næstu grein.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband