3.7.2013 | 01:44
Eins og Norðmenn gerðu
Frá Birni S. Stefánssyni
Norðmenn bjuggu sig undir Efnahagsbandalagsmálið á sjöunda áratug síðustu aldar með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal á valdi. Það var þannig, að framsal á valdi til bandalags ríkja, sem Noregur er aðili að, getur gerst með samþykki þriggja fjórðu þingmanna.
Aðild að Efnahagsbandalaginu var á dagskrá í Noregi fljótlega eftir þessa stjórnarskrárbreytingu. Mið-hægristjórn Bortens vann að henni, en málinu var hleypt upp. Stjórn Verkamannaflokksins, undir forystu Brattelis, hélt málinu áfram. Fyrirsjáanlegur var meirihluti á þingi fyrir aðild, en ekki þrír fjórðu. Samtök fyrir aðild lögðu þá til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var ekki bindandi, því að engin ákvæði voru um slíkt í stjórnarskránni. Ef einhverjir þingmenn, sem voru andvígir aðild, mundu greiða atkvæði með aðild með vísan til þess, að meirihluti þjóðarinnar hefði reynst vera fylgjandi aðild, hefði meirihlutinn á þingi getað farið í þrjá fjórðu. Andstæðingar aðildar lýstu sig samþykka þjóðaratkvæðagreiðslu, og þingið ákvað, að hún skyldi fara fram. Þá varð heiftúðugt stríð meðal landsmanna. Fullur fjandskapur varð gjarna meðal vina og ættingja. Í Verkamannaflokknum var kröftugur minnihluti andvígur aðild. Bratteli lýsti því, að stjórn hans mundi segja af sér, ef þjóðin felldi aðild. Svo fór. Það var 1973, og Bratteli sagði af sér. Aðildarsamningurinn var ekki borinn undir þingið.
Árið eftir heyrði ég Einar Gerhardsen, fyrirrennara Brattelis, á málstofu um þjóðaratkvæðagreiðsluna í stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla lýsa afsagnarhótun Brattelis sem býsnum. Ef enginn hefði komið fram í andstöðu við aðild í flokknum, sagði hann, hefði flokkurinn þurft að búa til slíka andstöðu í honum. 1994 var eins og 1973, að á þingi var meirihluti með aðild. Þjóðaratkvæðagreiðsla (ekki bindandi) fór fram, og aðild var hafnað. Samningur Noregs um aðild var ekki borinn undir þingið.
Síðar hefur það gerst fyrir þingkosningar, að andstæðingar aðildar hafa kannað skipulega meðal frambjóðenda, sem voru líklegir til að ná kjöri og höfðu lýst sig andstæða aðild, hvort þeir ætluðu að standa við það, enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsla færi á annan veg. Þá hafa aðildarsinnar á þingi lagt til að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta úr þremur fjórðu í tvo þriðju, en án árangurs.
BJÖRN S. STEFÁNSSON, dr. scient.
Frá Birni S. Stefánssyni.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 14. maí sl. Endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
Geta má þess, að dr. Björn er mjög kunnugur málefnum Norðmanna, hefur sínar prófgráður þaðan og starfaði þar um árabil.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það er mikilvægt í þessu sambandi, að enginn samningur liggur fyrir um innlimun Íslands í ESB. Hvað á þá að leggja fyrir í þjóðarkönnun? Engar forsendur eru fyrir þjóðarkönnun um aðildar-samning.
Ríkisstjórnin hefur sagt að ef vilji er hjá Alþingi að sækja um aðild, þá beri að kanna hug þjóðarinnar til umsóknar, með þjóðarkönnun. Enginn slíkur vilji hefur komið fram hjá núverandi Alþingismönnum. Engar forsendur eru því fyrir þjóðarkönnun um umsókn.
Það stendur því upp á Alþingi að taka afstöðu til málsins og ríkisstjórnin segir að það verði gert þegar fyrir liggja skýrslur um samningaferlið hingað til og hvort einhver fengur geti verið fyrir Ísland að láta innlimast, miðað við núverandi stöðu ESB og horfur um framtíð þess.
Margir telja að málið liggi ljóst fyrir og að Alþingi geti ekki verið neitt að vanbúnaði að slíta formlega ESB-viðræðunum. Ég vil að aðlögunin verði afgreidd STRAX og þjóðin geti því STRAX farið að takast á við fjölmörg mál sem viðræðunum tengjast.
Að tala um þjóðarkönnun núna, um einhvern þátt ESB-viðræðnanna, er því misskilningur. Þegar afstaða Alþingis er ljós, skulum við takast á við ESB-sinnana um sjálfstæði landsins.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 3.7.2013 kl. 13:17
Góðar ábendingar, Loftur. Það er merkilegt með þetta Össurar- og Jóhönnulið. Ekki fannst þeim nein ástæða til þjóðarkönnunar um umsókn árið 2009, þegar þau höfðu alla aðstöðu til þess -- felldu meira að segja ítrekað tillögur um það! Svo ætlast þau til þess að hinir flokkarnir geri það nú, sem þau svikust sjálf um að gera, jafnvel þótt báðir ríkjandi stjórnarflokkar nú hafi engan áhuga á þessari umsókn, sem réttilega er kennd við Össur, ekki Framsókn né Sjálfstæðisflokk. Þau misstu tækifærið að fá þjóðarálit á athæfi sínu í júlí 2009, enda óttuðust þau reyndar fátt meira!
Jón Valur Jensson, 3.7.2013 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.