Afsal forræðis til Evrópusambandsins
Landssamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, hefur mótað afstöðu sína til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú afstaða byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum að Íslendingar fari með forræði yfir fiskimiðunum, hafi samningsforræði við skiptingu veiðiréttar úr deilistofnum og tali eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana. Með aðild að ESB yrði lagasetningarvaldið varanlega framselt frá Alþingi til ráðherraráðs Evrópusambandsins. Forræði og fyrirsvar í málefnum sjávarútvegs flyttist til framkvæmdastjórnar ESB Brussel. Værum við aðilar að Evrópusambandinu hefðum við óverulegt atkvæðavægi í ráðherraráðinu.
Þetta er úr nokkurra ára greinargerð LÍÚ, sem er þó nánast að öllu leyti í jafngóðu gildi þá sem nú. Hér er framhaldið:
Mikilvægi veiða úr deilistofnum
Með aðild myndi Ísland ennfremur afsala sér valdi til samninga um stjórn fiskveiða úr deilistofnum. Þessir stofnar, loðna, kolmunni, karfi, grálúða, norsk-íslensk síld, makríll o.fl. tegundir, eru okkur afar mikilvægir. Um 30% tekna af íslenskum sjávarafurðum er vegna veiða úr deilistofnum sem nú eru nýttir.
Evrópusambandið ætlaði okkur engar veiðiheimildir í kolmunna. Hlutdeild okkar í þeim stofni er 16%. Væri Ísland aðildarríki ESB hefðu íslenskir sjómenn orðið að henda yfir 100 þúsund tonnum af makríl sem veiddist á árinu 2008.
Ábyrgð hvíli hjá þeim er nýta auðlindina
Útvegsmenn fylgja þeirri grundvallarafstöðu að ábyrgð á stjórnun fiskveiða og ákvarðanataka við verndun vistkerfa hafsins og nýtingu lifandi auðlinda eigi að hvíla í höndum þeirra ríkja sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanirnar varða með beinum hætti.
Forræðishyggja sjávarútvegsstefnu ESB
Með aðild að Evrópusambandinu myndi Ísland verða að gangast undir hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu þess, Common Fisheries Policy. Mikil forræðishyggja einkennir þessa stefnu, þar sem ábyrgð og stjórnun á fiskveiðum er tekin frá einstökum ríkjum, sem eiga mestra hagsmuna að gæta og flutt til stjórnkerfisins í Brussel, þ.e. beint undir stjórn bandalagsins sjálfs.
Skelfilegur árangur af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB
Forræðishyggja hefur leitt til þess að stjórn fiskveiða í aðildarlöndum ESB er meira og minna í molum. Þrátt fyrir margar tilraunir hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki tekist að snúa þessari alvarlegu stöðu við. Árangurinn af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni er skelfilegur; viðstöðulaus ofveiði, allt of stór floti og óhagkvæmur rekstur, auk gríðarlega umfangsmikils og kostnaðarsams styrkjakerfis til þess að viðhalda starfsemi í greininni.
Sameiginlega sjávarútvegsstefnan hefur margoft verið harkalega gagnrýnd, jafnt á vettvangi innan sambandsins sem utan þess. Eftirlit með framkvæmd hennar er í höndum aðildarríkja. Viðurkennt er að eftirlitið er veikburða, brot á reglum eru mjög tíð og viðurlög væg. Lítill hvati er til þess að fara að lögum. Rúmlega 10.300 fiskveiðibrot voru skráð innan ESB árið 2006. Um áratuga skeið hefur ítrekað komið fram á vettvangi ESB að nauðsynlegt sé að endurskoða fiskveiðistefnuna í heild sinni.
Meira verður birt af þessari greinargerð LÍÚ í annarri færslu.
Meginflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.