Frambjóðendur fái umboð til að afturkalla umsókn um innlimun í ESB

Eftir Jón Val Jensson

 

Jón Valur Jensson  Sú afstaða landsfunda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, nýafstaðinna, að leggja fram skýra stefnu gegn Esb-umsókn og hinni rangnefndu „Evrópustofu“ (230 milljóna áróðursbatteríi sem Esb-sinnar verja sem sjálfsagt mál!) – sú stefna flokkanna tveggja er einarðleg og heiðarleg. Þeir leggja hana fram til að láta kjósa um hana í næsta mánuði. Kjósi meirihlutinn þá flokka, hefur þeim verið veitt fullt, lýðræðislegt umboð til að fylgja stefnunni eftir og því engin þörf á að eyða 200 millj. kr. í þjóðaratkvæði um þau mál sérstaklega.

 

Þar að auki bera þeir tveir flokkar ekki ábyrgð á hinni hneykslanlegu Esb-umsókn Samfylkingar og leiðitamra, stefnuskrársvíkjandi VG-þingmanna 2009. Allan tímann frá þeirri umsókn hefur skýr meirihluti Íslendinga verið andvígur því, að Ísland verði partur af Evrópusambandinu. Sá meirihluti er nú 70% (Gallup 6. marz 2013).

 

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, einn helzti talsmaður hinna rangnefndu Evrópusamtaka, átti grein í Morgunblaðinu 20. þ.m. og mælti þar sem fyrrum með Evrópusambandinu.

 

Gunnar ætti að forðast að villa um fyrir fólki með yfirborðslegum orðum um rýrnun krónunnar frá upphafi hennar. Við mælum velsæld okkar í húsakosti og lífskjörum, ekki í hans villandi niðurreiknun. Eða vill hann heldur taka sér búsetu í þröngum, kolakyntum húsum okkar eins og þau voru fyrir 90 árum, með malargötur alls staðar, síma aðeins á heimilum sæmilega efnaðra, enga ljósvakamiðla og litla félagslega þjónustu?

   

70% Íslendinga hafa það á hreinu, að þeir vilja ekki skipta á sjálfstæði og fullveldi lands og þjóðar, ásamt fiskveiðilögsögu okkar, fyrir meinta vaxtalækkun, sem Gunnar Hólmsteinn veifar eins og gulrót fyrir framan asna (þegjandi um, að hér er mun smærri markaður en á meginlandinu). Miklu fremur lærum við aðhald og sparnað af biturri reynslu og stefnum í landi tækifæranna að sjálfbæru heimilisbókhaldi á komandi árum í stað eilífs trausts á lántökur.

 

En af hverju þegir Gunnar um hið hrikalega fullveldisframsal sem fælist í því að bæta ofan á okkur tveimur ráðandi yfir-löggjafarþingum stórveldisins?

 

Hér er fullt tilefni til að hyggja að lærdómum sögunnar. Vegna stefnu Dana með hinum illa þokkuðu stöðulögum og tilboðs þeirra um hluttöku okkar í þeirra eigin löggjafarþingi ritaði hinn hyggni og varfærni Jón forseti eftirfarandi í I. árgang Andvara árið 1874 (hornklofainnskot JVJ):

 

  • „Um hitt, sem einungis snertir Danmörku, höfum vér aldrei óskað að hafa neitt atkvæði; það eru Danir sjálfir, sem hafa verið að ota að oss þessum málum og bersýnilega til þess að ávinna með því fullkomið yfirvald yfir oss í vorum eiginmálum, því að þá er það eftir þeirra áliti jafnrétti, að þegar vér erum til dæmis 25 sinnum færri en þeir, þá skulum vér hafa einungis eitt atkvæði móti 25 í hverju máli sem er. Þeir [þ.e. Danir] eru íhaldnir [= skaðlausir], þó að þeir gefi oss eitt atkvæði af 25, þótt það sé í þeirra eiginmálum, en vér getum ekki staðizt við að hafa ekki meira en 25. part atkvæða í vorum eiginmálum. Oss finnst því auðsætt, að í þessari grein sé mikill óréttur falinn, er vér ættum sem fyrst að fá rétting á.“ (Tilvitnun lýkur í JS.)

 

Sjá menn ekki hliðstæðuna? Evrópusambands-innlimunarsinnar láta eins og það yrði til góðs fyrir okkur að fá atkvæði um „málefni Evrópu“ og að sá mikilvægi ávinningur réttlæti það að gefa þingfulltrúum hinna 27 þjóðanna „hlutdeild í“ (reyndar yfirgnæfandi vald yfir) okkar löggjafarmálum, okkar eiginmálum, ef þeim sýnist svo.

 

Hliðstæðan er reyndar ekki fullkomin, því að í stað þess að eignast 25. hvern þingmann á þingi Dana myndum við eiga 125. hvern þingmann á Esb-þinginu í Strassborg og Brussel og einungis 1/1666 (0,06%) alls atkvæðavægis í hinu volduga ráðherraráði í Brussel – því, sem t.d. fer með virkustu löggjöf um sjávarútvegsmál í Esb. (þ. á m. „regluna“ óstöðugu um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða)!

 

En getum við, eins og Jón forseti orðar það, „staðizt“ með því að hafa einungis 1/125 eða 1/1666 atkvæða í okkar eiginmálum? Vitaskuld ekki!

 

Væri fróðlegt að sjá svör Gunnars Hólmsteins við þessum atriðum, eða telur hann slíkt fullveldisframsal bara í himnalagi?

 

En ég hvet alla kjósendur til að gæta að afstöðu framboðanna til fullveldis okkar andspænis því Evrópusambandi, sem eyðir nú tugum milljóna í boðsferðir sveitarstjórnarmanna héðan til Brussel, hefur eytt margfalt meira í lúxusboðsferðir annarra, ennfremur hundruðum milljóna í (að mestu) fyrirhugað starf tveggja áróðursmiðstöðva, í Reykjavík og á Akureyri, og yfir 5.000 milljónum í IPA-styrki, allt til að liðka fyrir þeirri innlimun Íslands, sem er ætlunarverk Evrópusambandsins og voldugra ríkja sem að því standa.

 

 

Höfundur er fullveldissinni og formaður Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þeirra við Ísland. 

Þessi grein birtist í Morgunlaðinu 26. marz sl.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Sigurður Ragnarsson í Keflavík setti athugasemd á Facebókar-þráð, þar sem JVJ hafði tengt inn á þessa grein, og leyfir, að sú aths. sé birt hér (sem þakka ber):

Sigurður Ragnarsson:

"Góð grein. Sú gulrót er skemmd, að evrubúskap á Íslandi fylgi allt aðrir vextir. Ekki minnkar kostnaður í bankakerfinu, ekki heldur áhætta af hálfblönkum eða áhættusæknum viðskiptavinum, né heldur fjölgar viðskiptamönnum eða lækkar ávöxtunarkrafa okkar kæru hrægamma, sem eiga bankana. Samkeppni banka eykst tæplega. Þeim opnast ekki allar dyr í útlöndum, því að eftir sem áður yrðu þeir lítil og vanburðug fyrirtæki í alþjóðlegu samhengi. Skiptigengi evru og krónu gæti orðið svo óhagstætt hinni síðarnefndu, að verðbólgupúkinn fitnaði sem aldrei fyrr. Meira að segja í Þýzkalandi fór verðlag af ýmsum ástæðum nokkuð úr böndunum með upptöku evru. Þetta er sem sagt flókið mál, sem jafnvel saxneskum nákvæmnismönnum tókst ekki að reikna til fulls. Ef einhverjir íslenzkir wannabe pólitíkusar þykjast vita betur, segir það mest um þá sjálfa."

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 2.4.2013 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband