26.3.2013 | 11:28
Blekkingarviðleitni utanríkisráðherra á útleið
Í Esb-Fréttablaðinu í dag kallar hann þann Carl Bildt til vitnis, sem hann sjálfur kallaði hingað til að taka þátt í Esb-áróðursviðleitni sinni og þess sama stórveldis. Þeir una því ekki, að jafnræði verði með NEI- og já-sinnum í málinu, ekki hinu, að Alþingi styrki báðar hreyfingar jafnt með fjárstyrkjum, heldur berjast fyrir því, að Evrópusambandið fái hér að spandera 230 milljónum króna í áróður gegn tvær rangnefndar "Evrópustofur" (í Reykjavík og á Akureyri) og að embætti utanríkisráðherra lýðveldisins sé misnotað til að safna blekkjandi vitnisburðum utan úr heimi, m.a. með heimsóknum ýmissa Esb-samherja Össurar sjálfs, og einnig það er á ýmsan hátt kostnaður fyrir Ísland, fyrir utan þann hartnær milljarð króna, sem vitað er, að eytt hefur verið í þetta umboðslausa Esb-umsóknarmál Samfylkingarinnar nú þegar.
Össur endurtekur eins og páfagaukur þá fullyrðingu Carls Bildt (fullyrðingu sem Esb-vænn Egill Helgason laðaði fram með leiðandi spurningu) að fullveldi þjóða innan Evrópusambandsins sé meira en utan þess! Á hvern hátt er fullveldi Möltubúa (þeirrar þjóðar sem er þar næst okkur að stærð, um 410.000 manns) meira en fullveldi Svisslendinga?!
Carl Bildt, maður sem unir því vel að vera sjálfur partur af nómenklatúru Brussel-valdsins, færði engin rök fyrir því, að fullveldi þjóða, sem fengið hafa á sig tvö yfir-löggjafarþing, hafi aukizt og muni með viðvarandi hætti verða meiri þar en utan Esb. Ekki hafa Bretar trú á því.
Hann skrökvaði því einnig, að Ísland og Noregur "verð(i) möglunarlaust að taka við ákvörðunum ESB og innleiða án þess að hafa nokkur áhrif," svo að vitnað sé í áróðurspistil Össurar í dag. Þetta er nefnilega EKKI svo. Nefnd þessara þjóða, ásamt Liechtensteinum, fer samkvæmt tveggja stoða kerfinu yfir þau Esb-lög, sem ætlazt er til, að við innfærum, og aðhæfir þau eftir megni. Síðan fara þau í ráðuneyti landanna til yfirferðar og svo til Alþingis (í okkar tilfelli), sem hefur sitt fulla vald til að samþykkja þau eða fella eða gera breytingartillögur þar um. Ennfremur höfum við þann öryggisventil gagnvart þeim lögum, sem fólginn er í synjunar- eða málskotsvaldi forseta Íslands. Í EES-kerfinu höldum við nefnilega enn okkar æðsta löggjafarvaldi; formlega (og formið er mikilvægt um öll lagamál) er Ísland á engan hátt undir Esb-þinginu í Strassborg og Brussel né undir ráðherraráðinu í Brussel, en þetta eru löggjafarstofnanir Esb.
Þar að auki höfum við jafnvel getað breytt vissum EES-reglugerðum eftir á, til dæmis vökulögum bílstjóra, þótt stjórnvöld hafi vissulega verið allt of lin við að sýna fullt sjálfstæði gagnvart Brusselvaldinu. Ennfremur þarf að gera heildarrannsókn á því, hvort við höfum áunnið nokkuð, í heildina talið, með EES-samningnum og segja honum upp, ef skaðinn er meiri en hagnaðurinn hér og þar fyrir suma aðila.
Grein á undirritaður í Morgunblaðinu í dag: Frambjóðendur fái umboð til að afturkalla umsókn um innlimun í ESB, og þar fjalla ég sérstaklega um hið ömurlega litla, einskis nýta atkvæðavægi sem við fengjum (við Esb-inntöku) innan löggjafarstofnana Evrópusambandsins og ber það saman við þá hliðstæðu, sem Íslendingum var boðin á efri árum Jóns forseta Sigurðssonar og hann hafnaði algerlega og það með dagljósum rökum (sjá greinina).
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:00 | Facebook
Athugasemdir
Björn Bjarnason á fína grein í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann svarar Carl Bildt og Össuri. Greinin heitir Bildt, Össur, fullveldið og Kýpur, og þar segir hann m.a. í byrjun:
"Á árunum 2004 til 2007 sátum við Össur Skarphéðinsson saman í nefnd sem kannaði tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Meginniðurstaða nefndarinnar var að hagsmunum Íslands væri mjög vel borgið með samningum um evrópska efnahagssvæðið (EES), hann hefði staðist tímans tönn. Íslendingar hefðu hins vegar ekki nýtt aðild að EES sem skyldi. Þeir hefðu mun fleiri tækifæri til áhrifa á löggjöf ESB en nýtt hefðu verið.
Af grein Össurar Skarphéðinssonar í Fréttablaðinu 26. mars 2013 má ráða að hann kjósi að gleyma því sem hann lærði í störfum nefndarinnar. EES-samstarfið lifir góðu lífi og tækifærin bíða enn eftir að þau séu nýtt. Össur kýs í grein sinni að vitna í Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem á í vök að verjast heima fyrir vegna vaxandi gagnrýni Svía á starfshætti innan ESB og meiri þunga en nokkru sinni fyrr í andstöðu þeirra við upptöku evru. Bildt er talsmaður ESB-sambandsríkis og evru-sinni. Hann veit að andstaða Íslendinga við ESB-aðild hefur áhrif í Svíþjóð. Hann munar ekki um að rægja EES-samstarfið til að fegra eigin málstað." (Tilvitnun lýkur, en það er meira og gott í greininni.)
Þetta er náttúrlega meðfram vörn Björns fyrir EES-kerfið, en samt væri enn fróðlegt að fá að vita, hvaða ágóða við höfum haft, í heildina talið, af EES-samningnum. Nefndin, sem þeir Össur sátu í, skilaði niðurstöðu sinni árið 2007 -- FYRIR bankakreppuna og áður en þar kom í ljós, hvílíkt tjón við höfðum beðið af ævintýrum útrásarvíkinganna í krafti fjírfrelsisins, sem EES opnaði á. Ennfremur má enn minna hér á þessa grein undirritaðs: Endurskoðunarskrifstofur og nýir staðlar þeirra á ábyrgð ESB ollu hruninu; Íslendingar saklausir.
Jón Valur Jensson, 27.3.2013 kl. 10:25
Nefndin, sem þeir BB og Össur sátu í, skilaði niðurstöðu sinni árið 2007, og hún er hér: Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", Rv. 2007.
Jón Valur Jensson, 27.3.2013 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.