ESB vann beinlínis gegn íslenzkri þjóð frá upphafi til enda í Icesave-atganginum - viðurkennt af áhrifamönnum hér!

Fullnaðarsigur Íslands í Icesave-máli var "löðrungur fyrir Evrópusambandið [sem] ákvað, í fyrsta skipti, að troða sér inn í mál fyrir EFTA-dómstólnum og taka þátt í málshöfðuninni gegn Íslandi með svonefndri meðalgöngu og ... beitti ... sér mjög hart og lýsti því þannig yfir að ef Íslendingar ynnu málið fæli það í sér miklar hamfarir. Miðað við hvað það var langt seilst hjá þeim í þessum málaferlum dylst engum að niðurstaðan er mikið áfall fyrir sambandið," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins (sjá tengil neðar á Mbl.is-viðtal).

Þetta sýndi sig ekki aðeins á seinni metrunum í þessu erfiða, langdregna máli, heldur vann ESB beinlínis gegn íslenzkri þjóð strax við upphaf atsóknar brezkra og hollenzkra stjórnvalda gegn okkur, eins og ráðamenn eru farnir að játa nú hver eftir annan.

Innanbúðarmaður í hópi ESB-innlimunarjarðýtna hér á landi, Ólafur Stephensen, ritstjóri ESB-Fréttablaðsins, dró þessar staðreyndir merkilega fljótt fram í dagsljósið og það á ólíklegasta stað: í leiðara í sjálfu Morgunblaðinu hinn 6. júní 2009, meðan hann enn var ritstjóri þar. Í þessari ritstjórnargrein réttlætti hann Svavarssamninginn umbúðalaust sem knýjandi nauðsyn með tilvísan til þvingana af hálfu Evrópusambandsins, eins og sést hér á neðar í orðum hans sjálfs. Þó gerði hann sér grein fyrir því, að krafan væri gígantísk: að íslenzka ríkið gæfi út "skuldabréf að andvirði 630 milljarða króna" með 5,5% ársvöxtum. "Ekki er gert ráð fyrir neinum afborgunum næstu sjö árin, en síðan greiðist upphæðin upp á sjö árum. Vextir fyrsta árið yrðu hátt í 40 milljarðar króna. Verði ekkert greitt af láninu næstu sjö árin verður skuldin komin í 989 milljarða króna með vöxtum og vaxtavöxtum," ritaði Ólafur, en frá myndu dragast eignir þrotabús Landsbankans, sem alls óvíst var þá, hve miklar eða litlar myndu reynast.

Ólafur sór sig ekki í hóp þeirra varnarmanna Íslands, sem höfnuðu kröfunum og voru ódeigir við að láta á rétt okkar reyna fyrir dómstólunum, heldur fann hann sér einmitt handhæga réttlætingu fyrir uppgjöf ríkisstjórnarsinna ... og í hverju? Jú, í fjárkúgun síns heittelskaða Evrópusambands á hendur okkur! Það er deginum ljósara í þessum orðum hans í leiðaranum 6. júní 2009 (feitletrun jvj): 

  • "Efasemdir hafa komið upp um hvort skuldbindingin um innstæðutrygginguna stæðist, en Evrópusambandið kom því til skila svo ekki varð um villzt að ekki væri áhugi á að láta á það reyna – slíkar efasemdir gætu kallað fram áhlaup á banka um alla Evrópu.
  • Því var komið á framfæri við íslenzk stjórnvöld að það væri sameiginleg afstaða allra aðildarríkja Evrópusambandsins að leggjast gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðstoðaði Íslendinga, yrðu kröfur Breta og Hollendinga ekki viðurkenndar og gengið til samninga um Icesave. Stjórnvöldum var því nauðugur einn kostur."

Hér vitnaði margsigldi ESB-innanbúðarmaðurinn blygðunarlaust um þessa nauðung, þessa fjárkúgun, af hálfu ESB, og samt hafa ESB-sinnar reynt að afneita þessari staðreynd hátt á fjórða ár í viðleitni sinni til að fela það fyrir þjóðinni, hvernig Evrópusambandið hefur unnið miskunnar- og sleitulaust gegn okkur í þessu Icesave-máli rétt eins og í makrílmálinu.

En ráðamenn ríkisstjórnarinnar eru sjálfir farnir að játa það nú -- sér til lokavarnar í veikri stöðu sinni vegna niðurstöðu EFTA-dómsmálsins, sem afhjúpar skrípaframferði þeirra 2009-2011 -- að þetta var allt rétt hjá Ólafi Stephensen 6. júní 2009: þau Steingrímur og Jóhanna voru undir beinum þrýstingi eða hótunum frá Evrópusambandinu, rétt eins og frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þótt fulltrúi hans hafi í Sjónvarpi í gær reynt með kattarþvotti að hreinsa AGS af allri ábyrgð. Þessar hávirðulegu stofnanir virðast síðan hafa þrýst á ríkisstjórnir Norðurlandanna í þeirri viðleitni að knébeygja Íslendinga í þágu tveggja aflóga nýlenduvelda (og í ESB eru slík tíu talsins og munu frá 1. nóv. á næsta ári ráða 73,34% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði, sem færi m.a. með æðstu löggjöf yfir sjávarútvegsmálum Íslands, ef við létum innlimast!).

Í Kastljósþætti 28. þ.m. sagði svartipéturinn Steingrímur J. Sigfússon orðrétt (2.23-): "Þá bið ég um það fyrst, að við ræðum þá bara þetta stóra mál í heild sinni, og við verðum þá að taka inn í myndina þær aðstæður sem Ísland var sett þarna í, og núna er kannski orðið skárra fyrir okkur að taka upp á borðið þegar við erum búin að fá þessa glæsilegu niðurstöðu ..."

Hann hefði betur tekið þetta "upp á borðið" hreinskilnislega gagnvart íslenzkri þjóð strax árið 2009, þ.e.a.s. að verið væri að þvinga stjórnvöld hér með ofríkisvaldi Evrópusambandsins, en hann steinþagði um það, þótt það hefði orðið til þess að efla Icesave-andstöðuna hér enn meira. Sami ráðherra var á sama tíma sjálfur illilega flæktur, þvert gegn sínum kosningaloforðum, í umsókn um inngöngu í það sama Evrópusamband; hann hefur sennilega ekki viljað "rugga þeim báti" þeirra Jóhönnu!

En hér eru orð hans sjálfs því til staðfestingar, að hann vissi þá þegar af þrýstingi ESB til að láta okkur borga í stað þess að reyna dómstólaleiðina (Kastljósþátturinn, þegar 9.50-10.12 mín. voru liðnar af honum). Steingrímur sjálfur, "straight from the horse's mouth":

  • "Ég er enn þeirrar skoðunar, sem ég varð mjög fljótt eftir að ég kom að þessu þarna upp úr áramótunum 2008 og '9, að staða Íslands, því miður, bauð ekki upp á annað en að reyna einhvern veginn að koma málinu frá með samningum. Við áttum ekki kost á því að koma til dómstóla, þeir lögðust algerlega gegn því, Bretar og Hollendingar og allt Evrópubatteríið, sagði, að það væri stórhættulegt að skapa einhverja minnstu óvissu um það, að þetta væri svona."

Og fleiri ráðamenn vissu af þessari hörðu afstöðu Evrópusambandsins, sem seint og um síðir er loksins viðurkennd -- mestallan tímann vorum við snuðuð um fulla vitneskju þessa.

Nú er eðlilega talað um réttmæti vantrausts á ríkisstjórnina (sbr. forsíðufrétt Mbl. í dag) vegna vægast sagt óhreinnar handfjötlunar hennar á þessu sóknarmáli erlends valds á hendur íslenzkri þjóð. En er ekki líka kominn tími til þess, að almenningur þrýsti á um það, að Ólafur Stephensen segi af sér sem ritstjóri Fréttablaðsins eða verði sagt þar upp störfum? Þau eindregnu tilmæli eiga fyrst og fremst að vera frá alþýðu manna, sem þarf að þola ítroðslu þessa blaðs í bréfalúgur sínar daglega, með lítt duldum ESB-ítroðsluboðskap í hverri viku, ef ekki daglega. Eins ættu auglýsendur að taka undir þessa kröfu, þennan þrýsting, því að ljóst er, að þeir eru ella að kyngja því að styðja þennan Icesave-borgunarsinna, hinn meðvirka ESB-kúgunarsinna, og virða að vettugi fram komin rök fyrir brottvísun hans.

Aðalmálið hér er samt bein ábyrgð Evrópusambandsins á þeim þrýstingi á Steingrím og Jóhönnu að "fara samningaleiðina", ekki dómstólaleiðina, í Icesave-málinu. Þar eins og í makríldeilunni vinnur þetta stórveldasamband gegn okkar þjóðarhagsmunum, og skyldi engan undra.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Löðrungur fyrir Evrópusambandið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband