29.6.2012 | 08:06
Fréttablaðið vill taka þátt í skuldasöfnun og hallarekstri ESB
Í leiðara Fréttablaðsins nýlega gagnrýnir Ólafur Þ. Stephensen Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vera eina undantekningin frá hópi flokka íhalds- og hægriflokka á Norðurlöndum. Ólafur spyr um útskýringar Sjálfstæðisflokksins, hvers vegna allt sé svo öðru vísi varðandi Ísland en hin Norðurlöndin. Hann skrifar m.a.:
"Meiningin er ekki að stofnanir Evrópusambandsins skipti sér af því hvernig skattfé í einstökum ríkjum er varið, heldur að settar verði reglur um að ekki megi reka ríkissjóði með gegndarlausum halla eða safna of miklum skuldum. Af hverju finnst íslenzkum íhaldsmönnum það slæmt? Finnst þeim hallarekstur og skuldasöfnun spennandi?"
Það virðist hafa farið fram hjá ritstjóra Fréttablaðins, að allar tillögur embættismanna ESB í Brussel miðast að því að koma á einni yfirstjórn fjármála aðildarríkjanna í Brussel með ákvörðunarrétti framkvæmdastjórnarinnar að ákveða fjárlög ríkjanna að meðtaldri skattinnheimtu. Enginn forystumaður Sjálfstæðisflokksins hefur nokkurn tíman haldið því fram, að skilmálar Maastricht um hámark skuldasöfnunar eða ríkishalla séu slæm viðmiðun. Þvert á móti hefur það margoft komið fram, að þessi viðmiðunaratriði væru góð leitarmerki fyrir íslenskan fjárhag burtséð frá aðildarumsókn að ESB.
Ritstjóri Fréttablaðsins virðist ekki þekkja til þeirrar staðreyndar - eða það er e.t.v. of óþægileg staðreynd að tala um, að einungis fjögur ríki ESB fylgja Maastrichtsáttmálanum: Svíþjóð, Finnland, Eistland og Lúxembúrg. Öll hin brjóta sáttmálann. Þess vegna hittir spurning Ólafs hann sjálfan: Finnst Fréttablaðinu það slæmt að halda sér burtu frá gegndarlausri skuldasöfnun og hallarekstri ESB-ríkjanna?
Fréttablaðið dreifir fölskum upplýsingum, þegar það breiðir yfir staðreyndir og heldur uppi linnulausum áróðri um að Ísland eigi að ganga með í ESB. Að líta fram hjá augljósum staðreyndum um skuldastöðu ESB ríkja og hrun evrunnar er ekki sæmandi neinum miðlum, sem vilja láta taka mark á sér.
Það er einmitt þess vegna, sem Ólafur Stephenssen ritstýrir Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu.
gs
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.