Þetta kom fram í Spegilsviðtali Kristins R. Ólafssonar í Madríd við hann, Martín Fragueiro, 3. sept. 2009. Hann leit "björtum augum á viðræðurnar. Þær verða að vera báðum í hag, bæði ESB og Íslandi," sagði sjávarmálastjórinn.*
En það er undarlegt með fyrirsagnir -- að minnsta kosti á Rúv-vefnum, sem Kristinn R. Ólafsson ræður kannski engu yfir, þótt verið sé að fjalla um hans eigið framlag til frétta. Fyrirsögnin um þetta mál á á Rúv-vefnum var: Engin innrás Spánverja á Íslandsmið. Sú "ekkifrétt" hefði hins vegar átt að falla í skuggann af ískyggilegu tali Martíns um það sem þeir þeir spænsku ÆTLA sér, eins og fram kemur hér á eftir, í beinni uppskrift af upptöku af þessum Spegilsþætti og pistlinu á Rúv.is.
Kristinn segir í pistlinum:
- En ... þó að sjávarmálastjórinn fari nokkuð undan í flæmingi, má lesa það milli línanna í svörum hans að Spánverjar muni, eðlilega, standa fast á sínu í komandi aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og vísa bæði til viðskiptahagsmuna Íslendinga og veiðireynslu Spánverja við Ísland ef hún er fyrir hendi.
Þarna er strax sleginn sterkur tónn, feigðarboði raunar. Hér notar Fragueiro, þáv. sjávarmálastjóri Spánar, almennari orð:
- "Ísland er ekki óþekkt; Ísland nýtur sérvirks fyrirkomulags gegnum Evrópska efnahagssvæðið þar sem vörur þess hafa frjálsan aðgang að svæði Evrópusambandsins, þ.e.a.s. það fær svipaða meðferð og aðildarlönd þess. Þess vegna lítum við björtum augum á viðræðurnar. Þær verða að vera báðum í hag, bæði Evrópusambandinu og Íslandi sem er það land sem hefur bankað upp á til að ganga í klúbbinn. [Sic!!]
"Við" vísar þó þarna til Spánverja. Og skoðið þetta, sem segir mun meira:
- "Ég hygg að þegar ríki gengur í Evrópusambandið beri að tala um evrópusambandsvæðingu" auðlinda og rökrétt að aðgangur að auðlindum þessum byggist á veiðireynslu. Efnahagslegir þættir verða auðvitað teknir með í reikninginn, verslunarviðskiptin. Sem dæmi má nefna að viðskiptastaða sjávarafurða... - ég hef ekki gögn yfir allt Evrópusambandið - en bara viðskiptastaða Spánar og Íslands, 2007-2008, sýnir að Íslendingar fluttu inn til Spánar um 25 þúsund tonn fyrir 125 milljónir evra... (-) Hinsvegar nemur útflutningur Spánverja til Íslands ekki nema tæpri milljón evra síðustu tíu árin en það er að meðaltali 100.000 evrur á ári. Íslendingar hafa mikilla hagsmuna að gæta á markaði Evrópusambandsins og sérlega á þeim spænska..."
Veiðireynslan er vakandi í huga hans, en það er ekki eins og hann telji hana Spánverjum til trafala þvert á móti.
- "Við vitum vel hvað við þurfum að fara fram á þegar að viðræðum kemur. Ég hygg að við höfum mikilvæga þætti okkur í hag. Sögulega sókn flotans á Íslandsmið. Við erum alls ekki að tala um magnaða sókn. Og ég held að það þurfi að tilfæra eina staðreynd: nú sem stendur er Ísland sextánda mesta framleiðsluland sjávarafurða í heiminum en Spánn er í 23. sæti."
Til hvers er þessi sleipi maður að taka þetta fram? Hann hefur þegar undirstrikað, að útflutningur Spánverja til Íslands sé sáralítill (um 630 sinnum minni en útflutningur okkar til Spánar). Það tók hann ekki fram nema af því að hann lítur á það sem eins konar ójafnvægi eða skekkju sem þurfi að lagfæra, a.m.k. ef bæði löndin verða í sama ríkjasambandi. Svo vekur hann athygli á því, að Ísland (með um 130 sinnum færri íbúa en Spánn) er með mun meiri sjávarafla en hans eigið land sem Evrópumálaráðherra Spánar, Lopez Garrído, hafði þó í öðru Spegilsviðtali kallað "heimsveldi í fiskveiðum". Auðséð er þó óánægjan með þessi ójöfnu skipti, og fara menn nærri um, hvað hann gefur hér í skyn: Ísland þarf að láta eitthvað af fiskveiðiréttindum sínum í hendur annarra, enda kallast það á við tal hans um "evrópusambandsvæðingu" auðlinda. Og í 3. lagi er svo vakandi hugsun hans um "veiðireynsluna".
En hver ætti að vera ástæða Spánverjans til að hafa veiðireynsluna svo mjög á orði og tengja hana "evrópusambandsvæðingunni"? Getur það verið, að það tengist allt 3.000 tonnum af karfa?! Ég vísa hér til orða hans, en dreg síðan mikilvægari ályktanir rétt á eftir; en Kristinn spyr hans þar fyrst:
- En útilokar ekki reglan um hlutfallslegt jafnvægi önnur ríki frá veiðum á Íslandsmiðum enda hafa þau enga veiðireynslu þar hin síðari ár?
- Martín Fragueiro svarar því til að samningar um fiskveiðar milli Íslands og ESB byggist á Oportó-samkomulaginu frá 1992 það var gert í tengslum við EES-samninginn. Þar eftirlét sambandið Íslendingum um 30 þúsund tonn af loðnu í skiptum fyrir 3000 tonn af karfa. Martín Fragueiro segir að þessum aflaheimildum hafi verið útdeilt til sambandsþjóða sem höfðu reynslu af karfaveiðum, til Þjóðverja og Breta og smákvótum til Frakka og Belga. En raunin hafi sýnt að þessi samningur hafi ekki virkað þar sem Evrópusambandið hafi ekki haft næga loðnu til að bjóða Íslendingum og staðreyndin sé sú að ekkert Evrópusambandsskip sé nú við veiðar á Íslandsmiðum.
- "Ég hygg að aðgangur að tilteknum auðlindum sé hluti af því sem kallast regluverk Evrópusambandsins. Það felur eðlilega í sér réttindi en því fylgja líka skyldur. Ég hygg að þessi mál eigi að taka fyrir við samningaborðið og reyna að finna lausnir sem báðir aðilar geti sætt sig við,"
segir hann ennfremur. Við það samningaborð yrði við Spánverja, Breta, Þjóðverja, Frakka, Belgi og Hollendinga að etja, sem allir hafa stundað veiðar á Íslandsmiðum, og e.t.v. Dani og Portúgali að auki, en einnig Brussel-valdabáknið sjálft. Aðstaða okkar yrði svipuð og músarinnar í mjúkum loppunum á kettinum, sem fljótar eru að breytast í klórandi krumlur.
Þið sáuð, lesendur góðir, hvernig Icesave-samninganefnd okkar var strax árið 2009 ofurliði borin á mettíma af lögfræðingaveldi Breta, sem tilreiddu allan lagatextann (auðvitað á tyrfnu, ensku lagamáli, ofar skilningi aðalsamninganefndarmanns okkar) og settu okkur þar stólinn fyrir dyrnar. Í ennþá viðameira máli væri auðvelt að kaffæra okkur með pappírum og kjaftagangi, sem allt kapp yrði lagt á að láta líta sem bezt út. Litla Ísland, sem sparaði milljónahundruð í Icesave-málinu til að fleygja milljarða-hundruðum, yrði auðveldur biti fyrir þessa marghöfða sókn að réttindum okkar þeim réttindum sem Evrópumálaráðherra Spánar kallaði réttilega, í fyrrnefndu viðtali, forréttindastöðu" íslenzkrar þjóðar.
En Kristinn R. Ólafsson reyndi þó að ýta ráðherranum upp að vegg, þar kominn í málinu, sem fyrr er frá sagt, og knýja á um svör, en takið líka eftir, hve flóttalegur sá síðarnefndi verður, einkum í lokaorðunum:
- Kristinn R.: Væri mögulegt fyrir ESB, eða að áliti Spánverja, að það viðurkenndi sjávarútveg sem lífsnauðsynlega auðlind fyrir Ísland og að Íslendingar viðhéldu formlegri stjórnun þeirra mála?
- Martín Fragueiro: "Það er mjög erfitt að ákvarða um þetta. Sjávarútvegur er mjög mikilvægur íslensku efnahagslífi...(-) ...og ekki aðeins til að fullnægja innanlandseftirspurn heldur er útflutningsmarkaðurinn helsti markaður Íslands. Ég hygg að í Evrópusambandinu séu fjölþætt tengsl, við erum á sameiginlegum markaði og hagsmunirnir margir. Þetta snýst um að finna jafnvægi milli hagsmuna eins ríkis, hvort sem það er sendingar- eða móttökuríkið, í þessu tilfelli framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og hvers lands. Ég hygg að þetta verði að brjóta til mergjar í viðræðunum og það sé ótímabært að gera grein fyrir hver afstaða Spánar verður."
Þarna falla almenn orð, þ. á m. nokkur sem hljóma eins og sanngirni og skilningur, en þau hafa ráðherrar gjarnan uppi, þótt þeir hyggi á ásælni og kannski ekki sízt þá. (Látum Grím Thomsen þekkja valdamennina, en menn telja kvæði hans um Goðmund á Glæsivöllum óm af hans diplómatísku reynslu í París og víðar.) En "jafnvægið" sem ráðherrann talar hér ítrekað um merkir ekkert minna en málamiðlanir og hrossakaup. Og ætlum við að hafa jafn-ótrúan mann og Össur Skarphéðinsson sem kaupahéðin á okkar vegum til að gera út um þau hrossakaup fyrir íslenzka þjóð að henni óspurðri?
* Viðauki 9.6. 2012: Einnig Stefan Füle viðurkenndi ósjálfrátt (þótt það væri ekki megináherzla hans) í viðtalinu við Boga Ágústsson í Sjónvarpinu nýlega, að í þessu aðildarmáli Íslands væri líka um hagsmuni Evrópusambandsins að ræða, og er sú játning hans þvert gegn því, sem ýmsir ESB-sinnar hér á landi hafa leyft sér að fullyrða og jafnvel sumir hverjir látið sem inntaka Íslands yrði ný byrði á Evrópusambandinu!!!
** Sjá þessa grein: Íslendingar gætu þurft að greiða skaðabætur vegna þorskastríðanna, sem byggir á frétt í Ríkisútvarpinu 9. febrúar 2007. Fréttin er öll afar athyglisverð og langt frá því að vera úrelt, heldur kannski einmitt tímabærari lesning nú en nokkru sinni fyrr. Menn lesi hana alla, sér til upplýsingar (raunar er hún stutt), en ég tek hér upp lokaorð hennar:
- "Reglan um hlutfallslegan stöðugleika fjallar um fiskveiðiréttindi miðað við veiðireynslu þjóða en einnig um skaðabætur vegna tapaðra veiða. Stefán segir hugsanlegt að gangi Íslendingar í Evrópusambandið krefjist aðrar fiskveiðiþjóðir skaðabóta vegna tapaðra veiða þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína."
Meginflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur | Aukaflokkar: Auðlindir og orkumál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.