26.4.2012 | 07:24
Neyðarákall eins leiðtoga Evrópusambandsins um að efla samrunaferlið, annars vofi yfir hrun ESB
Athyglisverð eru orð forseta ESB-þingsins, Martins Schulz, sem féllu á fundi í Brussel í dag með fulltrúum í framkvæmdastjórn ESB: "Í fyrsta skipti í sögu Evrópusambandsins er hrun sambandsins raunhæfur möguleiki," sagði sá ráðamaður samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com.
- Ástæðan fyrir því að svona væri komið fyrir ESB í dag, sagði Schulz, væri "fyrst og fremst sú að forystumenn ríkja þess heimta að fá að taka sífellt fleiri ákvarðanir sjálfir þvert á þau vinnubrögð sem gilt hafa á vettvangi sambandsins" (Mbl.is).
Þarna er hann að tala gegn Bretum o.fl. sem hafa viljað fara eigin leiðir vegna skulda- og bankakreppu ESB-ríkja og þar með einnig að tala gegn fullveldisvaldi ríkjanna andspænis ESB-miðstýringarvaldi í Brussel og Strassborg. Lausnina sér hann ekki í öðru en enn frekari samruna, og það á við um marga aðra ráðamenn Evrópusambandsins og ýmissa stærstu ríkjanna innan þess.
Lesendum til upplýsingar má nefna, að Martin Schulz er einn furðumargra forystumanna Evrópusambandsins, sem koma úr röðum (fyrrverandi) róttækra sósíalista og kommúnista eða byltingarmanna af '68-kynslóðinni. Undarlegt má heita, að allir þessir tilheyra þeim hópi:
- José Manuel Barroso, sjálfur forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hinnar eiginlegu ríkisstjórnar þess (kommissararáðsins, European Commission), er fyrrverandi Maóisti frá Portúgal. Hann er fæddur 1956 og varð ungur einn af leiðtogum PCTP MRPP (Partido comunista DOS of trabalhadores portugueses - Movimento Revolucionário DO Partido DO Proletariado Português), maóísks vinstri flokks, en gekk síðar úr honum og í desember 1980 í Partido Social Democrata (PSD) í Portúgal. (Sjá HÉR!)
- Stefan Füle, stækkunar- eða útþenslustjóri ESB, í framkvæmdastjórn ESB, gerðist meðlimur tékkneska kommúnistaflokksins 1982, eftir innrás Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra 1968, og var meðlimur hans allar götur þar til eftir 1989, að kommúnisminn féll; auk háskólanáms í Prag var hann útskrifaður frá MGIMO-diplómatastofnuninni í Moskvu, sem var þekkt fyrir náin tengsl við sovézku leyniþjónustuna, KGB.
- Daniel Cohn-Bendit, f. 1945, ESB-þingmaður, leiðtogi græningja á þinginu og mjög virkur ræðumaður þar, en hann var einn þekktasti róttæklingur '68-kynslóðarinnar á tímum maí-byltingarinnar í París. Hann er nú meðal helztu málsvara ESB-samrunaferlisins. (Hér er hans eigið æviágrip á ensku.)
- Martin Schulz. Hann er fæddur 20.12. 1955 og því of ungur til að ná því að teljast til hinna byltingarsinnuðu árið 1968, en 19 ára (1975) varð hann meðlimur í hinni róttæku hreyfingu Jusos (Jungsozialistinnen und Jungsozialisten in der SPD), ungliðahreyfingu þýzka sósíaldemókrataflokksins (SPD), en sú hreyfing hafði færzt út á vinstri kantinn 1969 og leit upp frá því á sig sem sósíalísk og femínísk samtök innan SPD (sjá nánar hér). Fróðlegt væri að vita, hvort hann hafi hallazt þar á sveif með marxíska vængnum í Jusos. Hans eina heiðursdoktorsgráða kemur frá Rússlandi.*
Þetta er ekki rakið hér til að gera lítið úr þessum mönnum persónulega, og fráleitt er að telja gefið, að þeir séu ofurróttæklingar nú ellegar sjálfkrafa vanhæfir vegna róttækrar fortíðar til að taka þátt í stjórnmálum. En það er eðlilegt að hafa þá fortíð í huga, þar sem hinir róttæku hafa iðulega aðhyllzt marxískar lausnir á samfélagsmálum, verið hrifnir af heildarlausnum og sumir hverjir af hugmyndafræði alræðisstefnu. Þetta er ekki bezta veganestið fyrir volduga ráðamenn stórveldis, þar sem taka þyrfti eðlilegt tillit til radda hinna smáu meðlimaríkja. Hafa sum orðaskipti í ESB-þinginu, m.a. við forseta Tékklands og brezka ESB-þingmanninn Nigel Farage, verið til vitnis um, að stutt er í þolinmæðina gagnvart röddum efasemdarmanna og andstæðinga frekara samrunaferlis.
*Sjá Wikipediugreinina um Schulz, þar segir: "On 18 May 2009 Martin Schulz was awarded an honorary doctorate by the Kaliningrad State Technical University. The university thus honoured his longstanding commitment to improving relations between Europe and Russia and his support for the development of what is still the only interdisciplinary and intercultural university course in European studies in Russia."
Þetta er e.t.v. fullkomlega eðlilegt, en gæti einnig bent til viðleitni Schulz til að stuðla að því að Rússland og ESB nálgist hvort annað. En ef Rússland gengi inn í Evrópusambandið, yrði það ekki líklegt til að gera það síðarnefnda lýðræðislegra, miklu fremur að ýta undir miðstýringu þar, efla samrunaferlið og stofnanaræði í Brussel, að mati undirritaðs. Ennfremur myndi þá íbúafjöldi ESB aukast um nál. 27% og atkvæðavægið, sem Íslandi sem hugsanlegu ESB-ríki stæði til boða í leiðtogaráði og ráðherraráði Evrópusambandsins, myndi þar með hrapa allverulega úr því 0,06% atkvæðavægi, sem land okkar fengi þar að óbreyttu, miðað við reglur Lissabon-sáttmálans eftir 1.11. 2014, sjá nánar nýendurbirta grein Haraldar Hanssonar á þessum vef: Ísland svipt sjálfsforræði -- fróðleiksgrein sem allir ættu að lesa!
Jón Valur Jensson.
Hrun ESB orðið að raunhæfum möguleika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:53 | Facebook
Athugasemdir
ILLT SKAL MEÐ ILLU ÚT REKA. Núverandi Ríkisstjórn Islands komst til valda með ofbeldi og árásum á Alþingi. Jóhanna Sigurðardóttir þótti líklegust til að sameina þjóðina eftir fallið. Þá skeði það að glæpnum var stolið, rétt eins og í kommúnistabyltingunni í Rússlandi forðum. Kommúnistaflokkur Islands hrifsaði völdin. Þeirra ´Sovét Island´ er orðið að veruleika. Við erum valdið, Þegiði, öskraði Formaðurinn. Þeir sjá fyrir sér framtíð Evrópu sem eitt allsherjar sæluríki kommunismans. Þeirra bíða feitar stöður við nægtarborðin í Brussel. Hvað varðar okkur um þjóðarhag! Þeim hefur tekist meistaralega að tengja atvinnu og húsnæðislausa í norðan-nepjunni,og fá þá til að trúa að orsök hrakfara séu þau stjórnvöld islensk, sem byggðu upp landið.
Hvar eru nú samtökin sem börðust gegn Icesave og höfðu sigur.
Með sama áframhaldi vaknar þjóðin upp við það einn svartan veðurdag, að vera orðin innlimuð í ESB, Reyndar fyrir löngu kannske, Össur stakk bara boðskapnum undir teppið. Hvað varðar okkur um þjóðarhag!
Björn Emilsson, 27.4.2012 kl. 00:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.