25.4.2012 | 19:40
Ísland svipt sjálfsforræði, eftir Harald Hansson
Að svipta einstakling sjálfsforræði er líklega stærsta löglega inngrip sem hægt er að gera í líf einstaklings, sem ekki hefur gerst brotlegur við lög. Að svipta heila þjóð sjálfsforræði gerist ekki nema lönd séu hernumin í stríði eða ef ógnarstjórn af einhverju tagi tekur völdin, oft í kjölfar valdaráns.
Það sem taflan (neðri myndin) sýnir er ekki algjör svipting á sjálfsforræði. En þau lönd sem verst fara út úr skerðingu á atkvæðisrétti í Ráðherraráði ESB fara óþægilega nærri því. Með Lissabon-samningnum er vægi atkvæða sex stærstu ríkjanna aukið verulega á kostnað hinna. Breytingin tekur gildi í lok kjörtímabilsins sem hófst sumarið 2009, nánar tiltekið 1. nóvember 2014.
Þau ríki sem eru með minna en milljón íbúa fara langverst út úr Lissabon-samningnum. Ef Ísland væri nú þegar í klúbbnum væri skerðingin á atkvæðavægi Íslands 92,6% -- hvorki meira né minna; færi úr nánast engu niður í akkúrat ekkert. Aftasti dálkurinn sýnir breytinguna. Aukið vægi er í bláu en skert vægi í rauðu.
Hin mikla aukning á atkvæðavægi Þýskalands skýrist af því að landið hefur sama atkvæðavægi og Frakkland, Bretland og Ítalía þrátt fyrir mun fleiri íbúa. Það á að leiðréttast með Lissabon.
Eftir breytinguna þarf 55% aðildarríkja og 65% íbúafjölda til að samþykkja ný lög. Vægið verður uppfært árlega samkvæmt íbúaþróun. Ef fjölmennt ríki eins og Tyrkland gengur í ESB minnkar atkvæðavægi smáríkjanna enn frekar.
Á sama tíma og vægi stóru ríkjanna er aukið verulega eru vetó-ákvæði (neitunarvald) felld úr gildi í fjölmörgum málaflokkum. Þetta öryggistæki smáríkjanna er tekið burt.
DÆMI - Sjávarútvegur:
Til að varpa ljósi á áhrifaleysi Íslands (0,06%) innan ESB, þá hefðu þau fimm ríki, sem ekki eiga landamæri að sjó og stunda ekki sjávarútveg, 108 sinnum meira vægi en Ísland við afgreiðslu mála um sjávarútveg. HUNDRAÐ-OG-ÁTTA SINNUM MEIRA. Samt eru þetta engin af stóru ríkjunum!
Stórt kerfi býður upp á baktjaldamakk með atkvæði og menn geta velt fyrir sér hvort Ísland eða Spánn hafi meira að bjóða ríkjum eins og Austurríki og Ungverjalandi í slíkum hrossakaupum. Það er hægt að líta til Alþjóða-hvalveiðiráðsins eftir dæmum.
Sjávarútvegur er aukabúgrein í landbúnaði innan ESB. Sjávarútvegur er það sem Íslendingar þurfa að byggja á til framtíðar. Að setja stjórn hans undir yfirþjóðlegt vald, þar sem við höfum ekkert að segja, er algjört brjálæði. Það er aðeins hænufeti frá því að svipta Ísland sjálfsforræði.
Algjör og undantekningalaus undanþága fyrir íslenskan sjávarútveg er frumskilyrði fyrir því að menn geti svo mikið sem gælt við þá hugmynd að leyfa krötum að verða okkur til skammar með bjölluati í Brussel.
Þessi sígilda grein Haraldar Hanssonar er endurbirt hér með leyfi höfundar og að gefnu tilefni.
Ekki í höndum Samfylkingarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:28 | Facebook
Athugasemdir
Mín krafa er að þessari martröð ljúki með afturköllun á þessum umræðum nú þegar. Ég er búin að fá nóg og miklu meira en það.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.4.2012 kl. 19:43
innilega sammála þér Ásthildur
Magnús Ágústsson, 26.4.2012 kl. 00:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.