Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Styrmir Gunnarsson: Þess vegna skal enn spurt:

Voru það hótanir af hálfu ESB, sem urðu til þess að fyrr­ver­andi ríkis­stjórn Fram­sóknar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks gafst upp við að aftur­kalla með form­legum hætti aðildar­umsókn Íslands að ESB?

Þessi orð Styrmis er að finna í grein hans Katalónía: Ótrúlegt framferði Madrid-stjórnarinnar - Hvað þýðir þögn ESB?


Ingibjörg Sólrún afhjúpaði tengslin milli óskastefnu Samfylkingarinnar að keyra okkur inn í ESB og stefnu hennar á stjórnarskrár­breytingar

Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson  Jón Steinar Ragnarsson, klár þjóðfélags­rýnir sem skrifað hefur um ESB-málefni, bendir enn á rótina að stjórn­ar­skrár­hugmynd Sam­fylk­ing­ar­innar, vísar á frétt frá 2009 til að "rifja upp hvenær og hvers­vegna þessi stjórn­ar­skrár­sirkus byrjaði".

Sannarlega er það nánast opinberun að lesa þessa átta ára Vísisfrétt:

Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild

 4. febrúar 2009 13:28Ingibjörg Sólrún.
Ingibjörg Sólrún. 

Áttatíu daga stjórnin hyggst breyta stjórnarskrá á þann veg að Ísland getur á næsta kjörtímabili gengið í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikilvæg breyting, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar. Vara­for­maðurinn segir stjórnina vera að tryggja að Evrópumálin læsist ekki inni á næsta kjörtímabili. 

Evrópusambandsaðild er hvergi nefnd í verkefnaskrá 80 daga stjórnarinnar og eina tilvísunin til þessa mikla hitamáls er að Evrópunefnd skuli ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmuna­aðila til Evrópu­sambandsins og skila skýrslu 10 dögum fyrir kosningar. Í þeirri skýrslu eigi að vera mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðar­horfum í gjaldmiðlamálum.

En þótt lítið fari fyrir því í verkefnaskránni þá mun núverandi ríkisstjórn engu að síður gera mikilvægar breytingar á stjórnar­skrá sem leiða til þess að ef þjóð og alþingi kýs, þá getur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili.

Eins og staðan er núna þarf tvö þing með kosningum á milli til að breyta stjórnarskrá. 80 daga stjórnin ætlar hins vegar að breyta því svo að hægt verði að breyta stjórnarskrá með þjóðar­atkvæða­greiðslu. Og það þarf stjórnarskrár­breytingu til að ganga í ESB. Það þýðir að ef næsta ríkisstjórn hefur hug á að fara í aðildar­viðræður, þá þarf hún ekki að senda sjálfa sig heim og boða til kosninga, heldur getur einfaldlega lagt aðild að Evrópu­sambandinu í þjóðaratkvæði.

Ingibjörg telur mikilvægt að sett verði ákvæði í stjórnarskrána fyrir komandi þingkosningar svo þjóðin geti hvenær sem er gert breytingar á stjórnarskránni með þjóðar­atkvæða­greiðslu. „Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni."

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar og annar tveggja formanna Evrópunefndarinnar, segir mikilvægt að breyta stjórnarskránni nú til að læsa Evrópumálin ekki inni næstu fjögur ár. 

Já, augljóst er hér, til hvers refirnir voru skornir! Megintilgangur þessara leiðandi Samfylkingar­manna 2009 með hugmyndum um uppstokkun stjórnar­skrárinnar var sá að koma okkur inn í Evrópu­sambandið, það liggur ljóst fyrir í þessum afhjúpandi orðum formanns og vara­formanns Samfylk­ingar­innar í aðdrag­anda þessara stjórnar­skrár­mála. Allt masið um nauðsyn þjóðar­atkvæða­greiðslna og ákvæða um þjóðareign á auðlindum og að skýra betur stöðu forseta­embætt­isins í stjórnkerfinu var svo í áróðri þessara afla fyrir "nýrri stjórnar­skrá" fyrst og fremst til þess ætlað að þjóna þessum megintilgangi þeirra: að innlima Ísland í Evrópu­sambandið og undir forræði þess í löggjafarmálum.

Menn geta lært af þessu hvernig Samfylkingin er innrætt og hvað hún í raun setur á oddinn, eins og sýndi sig líka í Icesave-málinu, þegar flokkurinn hlýddi í þrælslegri auðmýkt því sem Brussel-valdið lagði hér að stjórnvöldum. Merkilegt hve flokknum tókst vel að fela svo þennan beina tilgang sinn, þegar á leið, en það afsakar ekki að margir, fyrst og fremst Rúv-fréttamenn í Efstasleiti, 365 miðlar og fjöldi álitsgjafa unnu eins og jarðýtur að þessum málum sem m.a. tóku þá mynd á sig að leggja til billega aðferð í 111. gr. tillagna hins ólöglega "stjórnlaga­ráðs" um framsal ríkisvalds til erlends valds (les: til Evrópu­sam­bands­ins) og svo annað ákvæði í 67. gr. sem koma átti beinlínis í veg fyrir, að þær "þjóðréttar­skuldbindingar" mætti endurskoða eða þeim hafna í þjóðaratkvæðagreiðslu!

Merkilegt er að uppgötva, að á næstsíðasta kjörtímabili hafði Inga Sæland, núverandi formaður Flokks fólksins, verið fylgismaður Samfylkingarinnar. Nýlega hefur hún þó í Útvarpi Sögu svarið af sér, að hún vilji koma Íslandi í ESB, en var hún þá í alvöru svona illa áttuð um stefnu síns gamla flokks, Samfylkingarinnar, þegar veldi hans var sem mest? Vart verður því trúað um þvílíka áhugamanneskju um stjórnmál, að hún hafi ekki vitað þetta. Gott og vel, kjaramálin hafa eflaust tekið huga hennar, en var fullveldi landsins ekki merkilegra í hennar huga en svo, að hún hafi þá verið reiðubúin að vinna gegn því með því að greiða Samfylkingunni atkvæði sitt?

http://www.visir.is/g/200938564492

PS. Vegna lokaorða þessarar greinar (sem skrifuð var 22. september) skal þess getið, að Flokkur fólksins hefur nú lýst yfir ótvíræðri andstöðu sinni við Evrópusambandsaðild Íslands. Það sama á einnig við um Framsóknarflokkinn og Miðflokkinn.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tillaga Bjarna „óásættanleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert verður af aðildarviðræðum ESB við Tyrki (og minnt hér á nauðsyn brýnnar aðgerðar Alþingis)

Leiðtogi vold­ug­asta rík­isins í Evrópu­sam­band­inu, Angela Merkel, var að lýsa vilja sín­um til þess að sam­bandið slíti aðild­ar­viðræðum við Tyrki.

Spenna hafði að undan­förnu aukizt milli Þýzkalands og Tyrklands. Erdogan, forseti Tyrklands, hvatti landsmenn sína, sem búsettir eru í Þýzkalandi til að kjósa gegn Kristilegum demókrötum, flokki Merkel, í komandi kosningum, 24. þessa mánaðar, sem og gegn  öðrum stjórn­ar­flokk­um lands­ins. Og nú segir Merkel sjálf:

„Ég sé ekki fyrir mér að þeir gangi nokkurn tímann í sambandið og ég trúði aldrei að svo yrði.“

Hún bætti því við að hún ætlaði að ræða við stjórn­mála­leiðtoga Evr­ópu­sam­bands­ríkj­anna um að „slíta þess­um aðild­ar­viðræðum“. Þessi orð féllu í sjón­varps­kappræðum hennar í kvöld við mótframbjóðandann Martin Schulz, fulltrúa sósíaldemókrata. Þjóðverjar ganga til kosninga 24. september. (Rúv.is, Mbl.is (tengill neðar), með myndum leiðtoganna).

Já, þetta hljómar auðveldlega, „að slíta þess­um aðild­ar­viðræðum“. Hvað um að hr. Bjarni Benediktsson fari nú loksins að vinda að því bráðan bug að láta Alþingi afturkalla formlega umsóknina ólögmætu, sem kennd er við Össur Skarðhéð­insson, um inngöngu Íslands í Evrópu­sambandið? Getur Bjarni ekki komið sér að því verki án frekari tafa? Eða hvað heldur aftur af honum? Er hann eitthvað tvöfaldur í roðinu? Eða ímyndar hann sér, að það sé ekki þing­meirihluti fyrir því, þótt ESB-Samfylkingin hafi kvarnazt niður í að verða þriggja manna þingflokkur?!

Sjálfstæðisflokkurinn stendur illa undir nafni, ef hann ætlar ekki að verða við þessari kröfu. Og hún kemur meðal annars frá góðum og gegnum meðlimum flokksins eins og Styrmi Gunnarssyni, fv. ritstjóra Morgun­blaðsins, Halldóri Jónssyni verk­fræðingi og Jóni Magnússyni hrl.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Merkel vill slíta viðræðum við Tyrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband