Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Afskiptasemi "Félags atvinnurekenda" er jafn-vitlaus og hún er óviðeigandi

Ómark er að ákalli sex manna stjórnar FA sem líklegt er að ÓLAFUR STEPHENSEN, frkvstj. FA (áður ritstjóri ESB-Fréttabl.), hafi samið eða fengið í pósti frá BRUSSEL.
 
Í stjórn Félags atvinnu­rek­enda eiga sæti: Birgir S. Bjarnason, form., frkvstj. Íslensku umboðssölunnar, Anna Svava Sverrisdóttir, fjármálastjóri Fítons, Bjarni Ákason, frkvstj., Epli.is - Skakkiturn, Guðný Rósa Þorvarðardóttir, frkvstj. Parlogis, Halldór Haraldsson, frkvstj. Smith & Norland, og Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness.
 
Þessir sexmenningar, sem eru ekkert merkilegri en hverjir aðrir, eiga ekkert með að setja ríkisstjórn Íslands stólinn fyrir dyrnar og mættu gjarnan passa sig á því að ofmetnast ekki þegar þau freista þess ábúðarmikil að flagga nafni þessara samtaka sinna.
 
Svo er hlálegt að byggja þetta ákall sitt á meintu gildi evrunnar, sem hefur átt í miklum vandræðum og ekki sízt nú, þegar a) prentun hennar er aukin í gríð og erg, eins og það er nú gæfulegt, og b) Grikkir eru vísir með að detta út úr evrusvæðinu og það sjálft jafnvel að gliðna sundur í beinu framhaldi. So much for "stability"!
 
Þá mættu þessir sexmenningar gjarnan reyna að ímynda sér, hvernig farið hefði, ef Ísland hefði verið með evruna við bankahrunið. Eitt er víst, að okkar stórauknu útflutningstekjur af sjávarútvegi og ferðaþjónustu komu að miklu leyti til vegna sveigjanleika krónunnar og bættrar stöðu okkar á mörkuðum vegna þess.
 
Þar fyrir utan lýsir það vitaskuld algerri skammsýni, ef ekki LOKUN, að horfa bara til peningamála í sambandi við Evrópusambandið. Það hefur ekkert ríki grætt á því að afsala sér æðstu ráðum um sína eigin löggjöf, dómsvald og framkvæmdavald.
 
Svo mega þessir sexmenningar minnast þess, að Össurarumsóknin, sem þeir vilja halda í, var ekki aðeins ólögmæt, heldur beint stjórnarskrárbrot. Ætli þeir hafi klórað sér í kollinum yfir því?
 
Jón Valur Jensson.

 


mbl.is Mótmæla afturköllun aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órúlegur sleðaháttur utanríkisráðherra við að afturkalla Össurarumsóknina ólögmætu

Eftir að leiðandi maður stærri stjórnarflokksins, Bjarni Ben., sagðist í vik­unni reikna með að afturköllunar-til­lagan kæmi fram á næstu dög­um, kemur það eins og skrattinn úr sauðarleggnum frá Gunnari Braga Sveinssyni, að til­laga hans um aft­ur­köll­un aðild­ar­um­sókn­ar að ESB "verði lögð fram eigi síðar en 26. mars nk." og svo bætt við fáránlegum fyr­ir­vara, orðrétt í þing­mála­skránni: „Til­laga til þings­álykt­un­ar um að draga til baka um­sókn um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, ef til kem­ur“ (!!!).

Það mætti halda, að þessum manni sé ekki sjálfrátt. Hvað í ósköpunum skýrir seinlæti hans og þær vöflur sem á honum eru? Af hverju drífur hann ekki í því strax að leggja fram tillöguna, á hann svona erfitt með að hugsa fáeinar setningar um málið og setja þær á blað, eða er hann undir stöðugri pressu frá innlimunarsinnum Samfylkingar eða hagsmunaöflum? Þarf hann ekki að fara að skýra sitt mál? Af hverju er hann aldrei tekinn á beinið í þessum efnum í Kastljósþætti – eiga þeir allir að ganga út á að hjálpa þeim aðilum, sem vilja koma okkur undir vald og fjarstýringu erlends stórveldis? Það hljóta allir að sjá það, að svona seinlæti er ekki eðlilegt, miðað líka við stefnu beggja stjórnarflokkanna.

Er utanríkisráðherrann að gera þessum fjendum íslenzks sjálfstæðis leikinn auðveldari með því að hafa nógan tíma til liðssafnaðar og þurfa ekki að berjast í vetrarveðri við sín fjarstýrðu mótmæli á Austurvelli? 

Svo er Esb-Fréttablaðið eins og fyrri daginn farið á fullt í innlimunar-baráttuna, nú í morgun með því að leggja sérstakar fyrirspurnir til sendiherra Evrópu­sambandsins hér á landi og gefa honum kost á ókeypis áróðri framan í alla í uppsláttar"frétt", jafnvel þótt sú svívirða hafi líka viðgengizt hér, að þetta stórveldi fekk mótþróalaust að komast upp með að dæla hundruðum milljóna króna í sinn áróður hér í gegnum sína rangnefndu "Evrópustofu" (hún er hvorki stofa Sviss né Úkraínu, Noregs né Rússlands, Georgíu né Azerbaidjan og að sjálfsögðu ekki "stofa" Íslands! og getur reyndar engan veginn talizt með fínni stofum hérlendis, enda er tilgangur hennar rotinn og beinist gegn okkar sjálfstæði og fullveldi og starfshættir hennar –– eins og hjá hinum finnska, fyrrv. sendiherra ESB –– í beinni andstöðu við Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða).

Tími er til kominn fyrir Gunnar Braga Sveinsson að reka af sér slyðruorðið og sleppa sínum hræðslukenndu fyrirvörum!

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB-tillaga lögð fram fyrir 26. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn (og sérstaklega ráðherrar) ættu að lesa þessa grein formanns Heimssýnar!

  • Okkur sem stóðum í eldlínunni í stjórnmálum síðasta kjörtímabili er ljóst að barátta Framsóknar­flokksins gegn umsókn og aðild að Evrópu­sambandinu skóp þeim kosninga­sigurinn vorið 2013.
  • Með andstöðu sinni við umsóknina að ESB náðu þeir til baka megin­hluta þess fylgis sem þeir höfðu áður tapað til Vinstri grænna á meðan forysta þess flokks var trú stefn­unni og andstöðunni við inngöngu í ESB.

Svo ritar Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi sjávar­útvegs­ráðherra, á Moggavefsíðu sinni í dag og miðlar þar af reynslu sinni. Réttilega minnist hann líka á Icesave-málið sem þátt í kosningasigri Framsóknar, en sá flokkur var hinn eini á þingi, sem stóð órofa og heill gegn öllum sviksamlegum Icesave-frumvörpum Jóhönnustjórnar og Steingríms.

Samtengd eru þau mál reyndar órofa böndum, og valdstofnanir Evrópu­sambandsins börðust af fullkominni óbilgirni og hörku fyrir ósigri íslenzku þjóðarinnar í Icesave-málinu,* eins og ljóst er öllum, sem þekkja þá sögu. Jafnvel þrátt fyrir sína eigin tilskipun um innistæðutryggingar felldi "gerðar­dómur", skipaður að meirihluta af fulltrúum ESB, úrskurð um, að Íslendingar ættu að borga Icesave-kröfur ríkisstjórna Bretlands og Hollands upp í topp!

Það var síðla hausts 2008, sem þetta dómsmorð var framið, en fjármála­ráðherra Íslands, Árni Mathiesen, hafði borið gæfu til þeirrar ákvörðunar að Ísland skyldi ekki eiga fulltrúa í þeim ofstopafulla gerðardómi.

Það eru verulega góðir hlutir í áminnztri grein Jóns Bjarnasonar og réttmætt tiltal hans til núverandi forystu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þið getið lesið grein hans HÉR!

Landsmönnum öllum óskum við á Fullveldisvaktinni farsældar á nýju ári og lausnar undan þeirri langvinnu óværu, sem hinn mikli sundurlyndisfjandi, Össurarumsóknin ólögmæta, hefur verið um allt of langan tíma á baki þjóðarinnar.

* Rétt eins og í makrílmálinu, en lögmætar makrílveiðar okkar í eigin landhelgi hafa gefið af sér rúma 100 milljarða króna í útflutningstekjur – nokkuð sem Evrópusambandið vildi ekki unna okkar heimildar til. Og hrópi nú allir áhangendur þess húrra fyrir þessum ofurgyllta gullkálfi sínum!

Jón Valur Jensson.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband