Bloggfærslur mánaðarins, september 2014
23.9.2014 | 15:32
Fjarlægjumst ESB frekar eins og Bretar heldur en hitt
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gefur lítið fyrir, að innan ESB sé "skjól og stöðugleiki", og segir réttilega enga þörf fyrir Ísland að ganga í þetta ríkjasamband.
- Bjarni sagðist ekki vita hvort sá stöðugleiki sem væri til staðar innan sambandsins væri endilega það sem Íslendingar sæktust eftir. Ekki væri eftirsóknarvert að búa við stöðnun. (Mbl.is)
Þetta kom fram í viðtali ráðherrans við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC í morgun. Þarna vísar ráðherrann til þess, að mikil stöðnun ríkir nú í efnahagslífi stórs hluta Evrópusambandsins.
Hvað varðar það, hvort kostir byðust innan þessa Evrópusambands, sagði Bjarni, að "Íslendingar nytu þegar helztu kosta þess að vera í ESB með aðild Íslands að innri markaði sambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Hins vegar stæði þjóðin fyrir utan aðra hluti ESB sem hentuðu hagsmunum hennar ekki líkt og sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins."
Svo mætti reyndar fara í ýtarlega rannsókn á því, hvort Íslendingar hafi í raun nokkuð grætt á því að vera á Evrópska efnahagssvæðinu. Fortakslaust jákvætt svar við því blasir hreint ekki við. Hvor með sínum hætti gerðu dr. Hannes Jónsson sendiherra og Ragnar Arnalds, fv. fjármálaráðherra, athugun á þeim málum í bókum sínum undir lok 10. áratugar 20. aldar og fengu þar ekki út neinn heildar-ágóða Íslands af EES-samningnum (þótt vitaskuld hafi sumir grætt á honum, en þá á eftir að draga frá margvíslegan kostnað landsins). Síðan fengum við bankakreppuna undir lok næsta áratugar, og mikið af skaða okkar þá kom einmitt til af "fjórfrelsinu" á EES-svæðinu sem útrásarvíkingar hagnýttu sér til mikils tjóns fyrir land og lýð. En allt þetta lét Bjarni ógert að minnast á í sjónvarpsviðtalinu.
- Bjarni var ennfremur spurður að því hvort hann teldi að ef Bretum stæði til boða sama staða og Íslendingar hefðu gagnvart ESB, hvort þeir myndu vilja hana. Hann svaraði því til að honum virtist þeir vera meira eða minna að óska eftir því sama. Vísaði hann þar til þess að bresk stjórnvöld hafa viljað endurheimta vald yfir ýmsum málum frá sambandinu. (Mbl.is)
Athyglisvert! Þarna er stefna stórs hluta stjórnmálastéttar og meirihluta þjóðar í næsta stóra ríki í landsuðri frá Íslandi að hverfa frá samrunaþróuninni í hinu nýja Brussel-stórveldi og vill helzt endurheimta tapað vald sitt. Ætti sú afstaða, byggð á reynslu, ekki að segja Íslendingum sitthvað?
Jón Valur Jensson.
Bjarni: Þurfum ekki aðild að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2014 | 02:34
Og þótt fyrr hefði verið!
Fagna ber því sem fram kemur í málaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi þingvetur, að lögð verður fram þált. um að draga til baka Össurarumsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.
Umsóknin sjálf árið 2009 var hreint stjórnarskrárbrot (m.a. á 16.-19. gr. hennar) eins og ítrekað hefur verið gerð grein fyrir á þessu vefsetri Fullveldisvaktarinnar.
Þar fyrir utan var þá verið að þvinga samstarfsflokk í ríkisstjórn til að greiða atkvæði þvert gegn sannfæringu þingmanna (eins og kom fram þegar nokkrir þeirra gerðu grein fyrir atkvæði sínu, þar á meðal Svandís Svavarsdóttir), og einnig það er stjórnarskrárbrot.
Ríkisstjórninni er ekki stætt á öðru en að draga þá umsókn formlega til baka. Ítök vesallar stjórnarandstöðunnar í vinstri sinnuðum fjölmiðlungum, m.a. vinnusvikara á Rúv, mun gagnslaus reynast henni, þegar tekið verður fast og hratt á málinu. Þá verður það undurskjótt og farsællega úr sögunni, rétt eins og taglhnýtingsstefna kommúnista við Sovétríkin koðnaði niður og varð að einberu hneyksli úr fortíðinni.
Jón Valur Jensson.
Stefnt að afturköllun umsóknarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 02:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2014 | 05:06
Þrátt fyrir barlóm og ósjálfstæði vinstri flokka er tryggur meirihluti gegn "ESB-aðild"
Aðildin sú er í raun hægfara innlimun í stórveldi (þ.m.t. sem herveldi). Merkilegt að vinstri menn séu hlynntir slíku, en það sýnir ný Capacent-könnun og hitt þó umfram allt, að meirihluti þjóðarinnar hafnar Evrópusambands-"aðild", þ.e. 54,7%, en 45,3% að þeir myndu styðja hana.
- Greint var frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar á aðalfundi Já Ísland sem fram fór í dag. Samkvæmt henni er meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins (92%) og Sjálfstæðisflokksins (83%) andvígur aðild að ESB en meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar (89%), Bjartrar framtíðar (81%), Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs (55%) og Pírata (55%) hlynntir henni. (Mbl.is)
Þetta eru merkilega skýrar línur milli mið- og hægri flokka annars vegar og vinstri flokka hins vegar. Þó eru greinilegar vomur á VG-fólki og Pírötum, því að enn eru þar ýmsir sem óttast erlenda auðhringa. Hitt hefur samt fylgt vinstri flokkum lengi að (1) hafa aðhyllzt útópíur, og það á við um ýmsa gamla VG-harðjaxla, sem trúðu í lengstu lög á sovézka "óskalandið", "verkalýðsríkið" sem reyndist spillt og grimmt niður í rót og í flestum sínum útöngum, auk þess að stunda blóðuga útþenslustefnu, oft undir fölsku yfirvarpi stuðnings við þjóðfrelsishreyfingar (!), og (2) að hafa fælzt allt, sem amerískt er, á svo afgerandi hátt, að "Evrópa" (með sín gömlu og grimmu nýlenduveldi!) fór að líta út eins og himnasending í stjörfum augum þeirra í staðinn.
Forsjárhyggjan, sem löngum tröllríður vinstri flokkum, sbr. skatta- og eyðslustefnu þeirra, bætir hér ekki úr skák, og fylgir þessu pólitíska liði einnig hvað varðar umhugsun þeirra um stöðu Íslands meðal annarra landa, því að Samfylkingarmenn sérstaklega virðast hafa tröllatrú á því, að forsjá Evrópusambandsins með okkar efnahag og löggjöf, dóms- og framkvæmdavaldi sé önnur og betri "lausn" en sú leið sem Jón Sigurðsson og aðrir baráttumenn fyrir sjálfstæði Íslands mörkuðu á 19. og 20. öld. Engu virðist það skipta þessa draumhuga Samfylkingar og "Bjartrar framtíðar", að spilling hefur grafið svo um sig í þessu óska-stórveldi þeirra, sjálfri Stóru-Mömmu á meginlandinu, að ekki þolir lengur dagsins ljós, og endurskoðendur hafa því ekki treyst sér til að votta endurskoðun reikninga þessa Brussel-bandalags í 14 ár samfleytt.
Svo tala menn um að "ganga í" þetta valdfreka bákn, af því að HÉR ríki spilling! - og það jafnvel haft á orði um dómstóla okkar, eins og ýmsir barlóms- og niðrunarpennar eru sérstaklega farnir að tíðka upp á síðkastið. En hver var það annar en sjálfur ESB-dómstóllinn sem tók þátt í því, með sínum fulltrúa í ómarktækum "gerðardómi" um Icesave-málið haustið 2008, að dæma ríkissjóð Íslands greiðsluskyldan að fullu um allar Icesave-kröfur Bretlands og Hollands?! Og hverjar stofnanir ESB tóku einnig þátt í þessu dóms(m)orði gerðardómsins aðrar en sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e.k. yfirríkisstjórn þess) og Seðlabanki Evrópu?!
Og þessum stofnunum, eins og öðrum í Evrópusambandinu, eiga menn nú að treysta!
Þetta síðastnefnda hefur lengi verið leynd og ljós stefna Fréttablaðsins, en þakkarvert, að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur kallað eftir því, að það blað gefi út skýra yfirlýsingu um að það sé með inngöngu í Evrópusambandið sem grundvallarstefnu sína, með öðrum orðum að það sé ESB-málgagn. En brestur ekki útgefendur blaðsins þor til að játa það fullum fetum, að það vill inntöku landsins í stórveldi og þar með beita sér gegn vilja meirihluta þjóðariunnar og svíkja Lýðveldið Ísland?
Jón Valur Jensson.
Meirihluti andvígur aðild að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 05:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)