Skýrslan um EES-samninginn og áhrif hans virðist í mörgu tilliti fljót­færnis­lega unnin og með áberandi hlutdrægum hætti.

Dr. Ólafur Ísleifsson bað á Alþingi um skýrslu um reynsluna af kostum og göllum af EES-aðild Íslands, en er réttilega síður en svo ánægður með niðurstöðuna sem birtist í "gagn­rýnis­lausu varnar­riti fyrir sam­starfið í pré­dikunarstíl," eins og hann kemst að orði, og skyldi engan undra, en þarna ræddi Ólafur um nýbirta skýrslu 3ja manna starfs­hóps undir forystu Björns Bjarna­sonar -- þess fyrrv. ráðherra sem lesendur blog.is þekkja einmitt að nær stanzlausum greinaskrifum þar sem einhliða hefur verið borið lof á EES-samn­inginn og hvað hann á að hafa gefið af sér fyrir Íslendinga.

Meðal helztu áherzlu­punkta og mark­verðra ábendinga dr. Ólafs um takmarkað og í raun hæpið gildi þessarar þriggja manna skýrslu má nefna:

    1. "Þrátt fyr­ir ósk Alþing­is [með samþykkt þeirrar beiðni sem dr. Ólafur bar fram 2018] um út­tekt á kost­um og göll­um aðild­ar­inn­ar að EES-samn­ingn­um hafi hóp­ur­inn ákveðið að sinna ekki því verk­efni, held­ur þess í stað leggja áherslu á rétt­indi, skyld­ur og ávinn­ing af aðild­inni. Þessi orð og fleira veki upp þá spurn­ingu hvort skýrslu­beiðni Alþing­is hafi í raun verið full­nægt með þess­ari skýrslu."
    2. "Það veki einnig at­hygli að ekki skuli hafa verið lagt fyr­ir starfs­hóp­inn í er­ind­is­bréfi hans frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu að fjalla um kosti og galla EES-aðild­ar­inn­ar, held­ur hafi hon­um aðeins verið falið að fjalla um ávinn­ing Íslands af aðild­inni og síðan helstu úr­lausn­ar­efni sem stjórn­völd hafi tek­ist á við vegna henn­ar."
    3. „Ég sakna þannig mun gagn­rýnni umræðu um aðild Íslands að EES-samn­ingn­um í þess­ari skýrslu,“ seg­ir Ólaf­ur (allt skv. viðtali við hann á Mbl.is, í samantekt Hjartar J. Guðmunds­sonar, blaðamanns og sagnfræðings, sem sérlærður er í ESB-fræðum).
    4. "Þetta sjá­ist til að mynda í um­fjöll­un skýrsl­unn­ar um þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins og inn­flutn­ing á fersku kjöti. Þau mál séu á meðal þeirra stærstu sem upp hafa komið í sögu samn­ings­ins og kalli á ít­ar­lega grein­ingu frek­ar en ódýra af­greiðslu" samkvæmt dr. Ólafi.
    5. "Þannig hafi til dæm­is afstaða stjórn­valda gagn­vart þriðja orku­pakk­an­um verið reifuð ít­ar­lega en lítið sem ekk­ert fjallað um rök­semd­ir þeirra sem gagn­rýnt hefðu samþykkt hans." -- Undir­ritaður hefur einnig náð tali af dr. Ólafi um þetta skýrslumál og vill sérstak­lega taka undir þá ábendingu hans, að Björn Bjarnason virðist hafa neytt færis í skýrslunni að halda áfram sínum neikvæða málflutningi um alla gagnrýni á Þriðja orku­pakka­málið á þingi, en áberandi er, að í skýrslunni virða Björn og félagar ekki viðlits hin marg­háttuðu rök þing­manna, einkum Mið­flokksins, gegn því máli, heldur láta þau það eitt nægja að brenni­merkja þá gagnrýni með því að kalla hana alla "málþóf". En aldrei hefur þá undirritaður séð né heyrt málefna­legra eða betur og ýtarlegar rökstutt "málþóf" á Alþingi!
    6. "Hliðstæða sögu væri að segja um umræðuna um ferska kjötið þar sem mjög skorti á hlut­læga um­fjöll­un og grein­ingu í skýrsl­unni. Ólaf­ur seg­ir skautað fram hjá gagn­rýni fræðimanna í þess­um efn­um á und­an­förn­um miss­er­um sem gefi ærið til­efni til um­fjöll­un­ar í skýrslu af þessu tagi."
    7. Tökum einnig eftir þessu: "Þá væri at­hygl­is­vert að hlaupið væri einnig nokkuð hratt yfir hags­muni Íslands af ut­an­rík­is­viðskipt­um, sem verið hafi for­send­an fyr­ir aðild­inni að EES-samn­ingn­um á sín­um tíma, en þess í stað gerðir að því skórnir, að aðrir þætt­ir skiptu jafn­vel mun meira máli en bein­ir viðskipta­hags­mun­ir eins og til dæm­is frjáls för fólks og reiki­regl­ur um síma­notk­un." -- Undirritaður mun nánar í nýrri grein fjalla sérstaklega um það, hve fátæklegar og villandi upplýsingar skýrslunnar eru um útflutning okkar Íslendinga til ýmissa landa heims.
    8. Og þetta er ekki ómarkvert í málflutningi Ólafs um skýrsluna: "Svo virt­ist sem reynt væri þannig að tína sem flest til í því skyni að fegra EES-samn­ing­inn, sem auðvitað væri um margt ágæt­ur, á meðan ýmis gagn­rýni fræðimanna og á stjórn­mála­vett­vangi væri sveipuð þagn­ar­hjúpi. Þetta ætti til dæm­is við um það þegar skýrt ákvæði samn­ings­ins um neit­un­ar­vald væri sagt hald­laust ef á reyndi, jafn­vel þótt mik­il­væg­ir þjóðar­hags­mun­ir lægju að baki." -- JVJ: Þarna er ekki sízt verið að víkja að sjónar­miðum Margrétar Einars­dóttur, dósents við ­Háskólans í Reykjavík, sem skýrslu­höfundar virðast gera að sínum, þótt þau sjónar­mið séu í raun andstæð anda EES-samn­ingsins, sem fastnjörvar það ekki, að við verðum skilyrðis­laust að taka við hverri tilskipun sem Evrópu­sambandið réttir að okkur.
    9. "Veik­leik­ar sem fram hefðu komið varðandi tveggja stoða kerfi EES-samn­ings­ins fengju sömu­leiðis ekki þá um­fjöll­un sem vert væri að mati Ólafs."
    10. „Ég tek síðan eft­ir því að í skýrsl­unni er til­finn­an­lega lítið um til­vís­an­ir í heim­ild­ir,“ seg­ir Ólaf­ur enn frem­ur. (JVJ: Já, þar blasir við æpandi vöntun á neðanmáls- eða aftanmálgreinum, makalaust, að engar slíkar eru hafðar í ritinu, ekki mjög fræðimannlega unnið né skv. venjulegum eksaktvidenskab. Þetta sá glöggur dr. Ólafur Ísleifsson vitaskuld, en undir­rituðum býður í grun, að þarna hafi verið reynt komast upp með ónákvæmni og fljótlegt klappsnið á þessu með því að hengja sig ekki í mikla nákvæmni.) 
    11. Enn frem­ur sé ekki eig­in­leg heim­ilda­skrá vegna efn­is skýrsl­unn­ar, segir Ólafur, held­ur aðeins sjálf­stæð skrá yfir heim­ild­ir sem al­mennt tengd­ist aðild Íslands að EES-samn­ingn­um í sam­ræmi við ósk ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins í er­ind­is­bréfi starfs­hóps­ins um að slíkt yfirlit yrði tekið sam­an. Mik­il­væg­ar heim­ild­ir vanti, þar á meðal rit Stef­áns Más Stef­áns­son­ar, pró­fess­ors í lög­fræði, um land­búnað­arlög­gjöf Evr­ópu­sam­bands­ins og EES og efn­is­mikla tíma­rits­grein Stef­áns Más og Mar­grét­ar Ein­ars­dótt­ur frá 2018 um vald­mörk og vald­heim­ild­ir stofn­ana sam­bands­ins og EES. (JVJ: Að ganga fram hjá hinu viðamikla og vandaða riti próf Stefáns Más um land­bún­aðar­málin má heita makalaus vöntun í skýrslunni.)
    12. „Fyr­ir vikið er erfitt að sann­reyna margt af því sem fram kem­ur í skýrsl­unni með því að kanna hvaða heim­ild­ir séu fyr­ir því og í mörg­um til­fell­um alls ekki,“ seg­ir Ólaf­ur sem áður starfaði meðal ann­ars sem lektor við Há­skól­ann í Reykja­vík.
    13. "Sama eigi við um lista yfir viðmæl­end­ur starfs­hóps­ins. Ekki komi fram í skýrsl­unni hvað sé haft eft­ir ein­stök­um viðmæl­end­um." (Sama viðtalsgrein Hjartar og dr. Ólafs.)
    14. Sem dæmi um áróður­skeim í skýrsl­unni að mati Ólafs nefn­ir hann full­yrðingu um að án EES-samn­ings­ins yrði hætta á ein­angr­un, stöðnun og aft­ur­för í þjóðlíf­inu öllu. (Leturbr. JVJ). „Hvað er þetta?“ spyr hann og bæt­ir við að þarna hefði til að mynda verið þörf á að byggja á skýr­um heim­ild­um sem þætti sjálfsagt á öll­um skóla­stig­um þegar svo sver­ar full­yrðing­ar væru hafðar uppi. --- Já (hér tekur undirritaður við þræðinum, þar sem Ólafur sleppti honum), þessi órökstuddi söngur skýrsluhöfundanna minnir á úrtölutal hagfræði-prófessoranna Gylfa Magnússonar og Þórólfs Matthíassonar, að Ísland yrði "Kúba norðursins" eða myndi einangast eins og Norður-Kórea, ef við borguðum ekki Icesave að kröfu brezkra og hollenzkra stjórnvalda! Einn virðulegur háskóla­kennari, nú í hæstu stöðu, bætti svo um betur í þeim kór og sagði opinberlega, að við myndum einangrast eins og Myanmar, þ.e. Búrma undir sinni herforingjastjórn, ef við borguðum ekki! Það er ekki úr vegi að minna hr. Björn Bjarnason á, að hann er ekkert óskeikulli en sá fræðimaður um þessi þjóðhags- og hagrænu mál.

Það er óhætt að fullyrða hér í lokin, að dr. Ólafur Ísleifsson á miklar þakkir skildar fyrir sína vel rökstuddu og tímabæru gagn­rýni á þessa óvenju-einhliða skýrslu frá þeim starfshópi sem Guðlaugur Þór Þórðarson skipaði einn saman -- en sá ráðherra var þá þegar sjálfur orðinn mjög hallur undir Evrópusambandið og flest eða allt sem frá því kemur (eins og einna ljósast varð í framlagningu og afgreiðslu orkupakkamálsins).

Því miður hefur undirrituðum sýnzt (og á eftir að leiða fleiri rök að því), að starfs­hópurinn hafi verið hlutdrægur og því lítt marktækur þegar á hann reyndi.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Skýrsla þessi er með böggum hildar og um of mörkuð yfirborðsmennsku og formlegheitum í stað þess að kryfja helztu málefnasvið EES-samningsins til mergjar og bera hann saman við nærtækan valkost í stöðunni, sem er víðtækur fríverzlunarsamningur.  EES-samningurinn er mjög íþyngjandi fyrir íslenzkt athagnalíf, sem gæti dregið úr árlegri framleiðniaukningu á Íslandi um 0,5 % að mati Viðskiptaráðs Íslands.  Þetta er miklu dýrkeyptara en ávinningurinn af fjórfrelsi Innri markaðarins getur hugsanlega orðið.  Það er þess vegna þjóðsaga, sem reynt er að breiða út í þessu áróðursriti fyrir EES, að EES-samningurinn sé Íslandi hagstæður.  Í áróðursritinu er auðvitað ekki reynt að leggja mat á kostnaðinn við gallana.  Að velja 3 lögfræðinga til að skrifa skýrslu um reynsluna af EES er annaðhvort heimska eða ber þess vott, að aldrei var ætlunin að leggja efnislæga mælistiku á samninginn, heldur einvörðungu huglægt mat með slagsíðu.  Það verður að semja almennilega og gagnlega skýrslu um afleiðingar EES-samningsins og valkostina við hann.

Bjarni Jónsson, 5.10.2019 kl. 14:09

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég tek undir þessi orð þín, Bjarni, og hafðu þakkir fyrir innleggið og ágætar ábendingar þínar og sérstaklega lokasetninguna!

Jón Valur Jensson, 5.10.2019 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband