Skýrsla 3ja manna nefndar utanríkisráðherra um meinta kosti og galla EES-samningsins birt

Skýrslan er birt á vef Alþingis, inngangs-kynning, tæpar 2 bls. HÉR á vef Alþingis, en skýrslan sjálf (301 bls.) hér: https://www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/r0001-f_I.pdf
 
Áður en hún hefur verið lesin og skoðuð í heild, skal birt hér frétt Ruv.is af skýrslunni, án þess að tekið sé undir það, sem þar kemur fram, og á það einkum við tillögugerð þremenninganna. Nánar verður í nýrri grein fjallað hér um skýrsluna, vinnubrögð höfunda hennar, upplýsingar hennar og takmarkanir þeirra, sem og um tillögugerð nefndarinnar, sem að minnsta kosti að meiri hluta til var skipuð einstaklingum sem fyrir fram voru ýmist eindregið hlynntir EES-samningnum (Björn Bjarnason) eða beinni innlimun Íslands í Evrópu­sambandið (Kristrún Heimisdóttir)!
 
En hér er sú frétt Ruv.is (en þar strax er ýmislegt vægast sagt mjög sérstætt og jafnvel verulegt áhyggjuefni um hugsanlegt framhald af tillögum þessa einhliða skipaða starfshóps utanríkisráðherrans; segja má, að strax í fyrstu klausu hennar komi fram meiri hneigð til samrunaþróunar við Evrópusambandið en menn eiga hér að venjast):
 
"Binda verður enda á stjórnlagaþrætur um aðild Íslands að EES-samningnum segir starfshópur sem vann skýrslu um EES-samstarfið. Það verður að gera annað hvort með ákvæði um aðildina í stjórnarskrá eða með viðurkenningu á því að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess.
 

Skýrsla starfshóps utanríkisráðherra um EES-samninginn var birt á vef Alþingis í morgun. Hún var gerð að beiðni Alþingis, að tillögu þingmanna Miðflokksins, með það að markmiði að greina kosti og galla EES-samningsins og áhrif hans á íslenskt samfélag síðasta aldarfjórðunginn. Starfshópinn skipuðu þau Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra, og lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir.

Í skýrslunni er því lýst að íslenskt samfélag hafi tekið stakkaskiptum við aðildina að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt hafi nær allir viðmælendur sagt EES-samninginn lifa góðu lífi og vera til gagns og ávinnings. Einu undantekningarnar hafi verið samtökin Frjálst land á Íslandi og Nei til EU í Noregi.

Fimmtán úrbætur

Starfshópurinn tiltekur fimmtán atriði um úrbætur. Hæst ber ágreining um það hvort stjórnarskrá Íslands heimili fulla aðild að EES-samningnum. Binda verði enda á þrætur um slíkt, annað hvort með því að viðurkenna að EES hafi áunnið sér stjórnlagasess eða með því að setja í stjórnarskrá sérstakt ákvæði um aðild Íslands að samningnum. Við núverandi aðstæður sé staða Íslands gagnvart Noregi og Liechtenstein, sem eiga aðild að samningnum við Evrópusambandið, veikari en annars væri.

Þá verði að viðurkenna í verki að samningurinn móti allt þjóðlífið en ekki megi skilgreina hann sem erlenda ásælni. Raunar verði að viðurkenna að stór hluti EES-samstarfsins sé alfarið innanríkismál. Starfshópurinn tekur fram að ekkert sambærilegt tækifæri gefist til jafn viðamikils samstarfs við Evrópusambandið og með EES-samningnum. Enginn tvíhliðasamningur komi í hans stað."

 

(JVJ kom þessu hér á framfæri með viðaukaorðum í byrjun.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sjá einnig umfjöllun mína á eftir þessari Vísis-frétt í dag: 

https://www.visir.is/g/2019191009835/an-ees-samningsins-vaeri-haetta-a-einangrun-stodnun-og-afturfor- (og á Facebók minni)

Jón Valur Jensson, 2.10.2019 kl. 08:20

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er fullyrðing skýrsluhöfunda út í loftið, að enginn viðunandi valkostur finnist við EES-samninginn.  Í "Alternativrapporten" norska frá 2012 er sýnt fram, að með víðtækum fríverzlunarsamningi við ESB verði hagsmunum Íslands betur borgið.  Ég vona, að þróunin muni verða sú, að EFTA (með Sviss innanborðs) geri víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland og síðar við ESB.  Hann myndi losa okkur undan lagakraðakinu og fullveldisframsalinu til stofnana ESB og EFTA-dómstólsins, en í raun tryggja stöðuna fyrir íslenzkar vörur á Innri markaðinum.  Samningurinn gæti líka spannað samskiptin á mennta- og vísindasviði.

Bjarni Jónsson, 3.10.2019 kl. 11:17

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

"Alternativrapporten" var auðvitað saminn út frá hagsmunum Noregs, en hagsmunir Íslands og Noregs gagnvart ESB eru að mörgu leyti samfallandi.

Bjarni Jónsson, 3.10.2019 kl. 11:19

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þessi athyglisverðu og mikilvægu innlegg þín, Bjarni. Ég tek undir það með þér, að mikil von væri í fríverzlunarsamningi EFTA-landanna fjögurra og Bretlands. Hygg ég, að forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, myndi taka slíkri tillögu vel, enda gagnkvæmir hagsmunir í húfi. 

Þá eru ennfremur miklar vonir bundnar við það, að Ísland eins og Bretland nái fríverzlunarsamningi við Bandaríkin. Hagurinn af slíku, sem og af hliðstæðum, nýgerðum samningum EFTA-ríkjanna við Argentínu, Brasilíu o.fl. lönd, sem bjóða algert tollfrelsi á útflutningi fisks þangað, myndi auðvelda okkur það mjög að losa okkur undan hinum þungbæru ákvæðum EES-samningsins.

Jón Valur Jensson, 3.10.2019 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband