9.11.2018 | 05:34
Mun fylgið streyma frá Sjálfstæðisflokknum til tveggja annarra flokka vegna Þriðja orkupakka ESB? (m/viðauka)
"Vonandi rennur það upp fyrir æ fleirum á þingi, að það er allt of mikil áhætta fólgin í því fyrir hag landsins að innleiða Þriðja orkupakka ESB. Áhættan við að hafna honum er hjóm eitt í samanburðinum. Að lenda í stappi við ESB síðar út af leyfisumsókn fyrir sæstreng er hið versta mál, því að þá stendur ESB með pálmann í höndunum. Nú er rétturinn okkar til að hafna, en rétturinn til að hafna sæstrengsumsókn eftir samþykkt bálksins verður aftur á móti ekki okkar. Slík höfnun yrði stórmál gagnvart EES, en höfnun pakkans ekki."
Svo mælti Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur réttilega!
Iðnaðarráðherra, með vafasama, ESB-mótaða starfsmenn á sínum vegum, lætur sem samþykkt "pakkans" sé lítið mál, þegar í reynd fjöregg fullveldis okkar í orkunýtingar- og verðlagningarmálum er í húfi, eins og ofangreindur Bjarni hefur rökstutt manna bezt.
Það var gleðilegt að sjá grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu í gærmorgun, Suma pakka er betra að afþakka. Miðflokkur hans stendur einarður gegn því að hleypa Þriðja orkupakkanum í gegnum þingið. Það sama á við um Flokk fólksins.
Margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa þessa sömu afstöðu, og farnar eru að sjást og heyrast yfirlýsingar nokkurra þeirra um að þeir ætli að yfirgefa flokkinn, ef hann eða ýmsir þingmanna hans gera ógæfumuninn til að troða þessu þjóðfjandsamlega máli í gegn, þvert gegn afstöðu landsfundar flokksins og samhljóða samþykktra yfirlýsinga tveggja fjölmennra, almennra flokksfunda hans í haust.
Nú er Sjálfstæðisflokkurinn kominn niður í um 20,5% í skoðanakönnun. Hefur hann efni á því að taka sviksamlega afstöðu í þessu máli og hrinda frá sér fleiri flokksmönnum? Með því móti gæti flokkurinn endað með minna hlutfall atkvæða en hinir úthrópuðu Svíþjóðardemókratar (17%) eða orðið ámóta smár og Alþýðubandalagið gjarnan var (um 16%)! Þá yrði flokkurinn í bezta falli varadekk undir samsteypustjórnir vinstri flokka á komandi árum!
Sjálfstæðismenn þurfa því að sjá þetta bæði sem baráttu fyrir fullveldisréttindum þjóðarinnar á sviði náttúruauðlinda og orkuiðnaðar og ennfremur sem baráttu fyrir því, að þeirra eigin flokkur endi ekki á ruslahaugi sögunnar.
Iðnaðarráðuneytið hefur ekki komið með nein gild rök fyrir því, að það yrði okkur til hagnaðar að samþykkja Þriðja orkupakkann -- og heldur ekki, að það yrði okkur til tjóns að gera það ekki.
En þau þurfa ekki að hanga í þeirri hugsun einni. Líti þau bara til þess, að í skoðanakönnun MMR í vor reyndust margfalt fleiri andvígir samþykkt þessa ESB-pakka heldur en hinir, sem hlynntir voru. Ætlar Þórdís Reykfjörð að ganga gegn eindregnum vilja þjóðarinnar í málinu og hvers vegna? Ætla Bjarni Benediktsson og þingflokksformaður hans að umbera það, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins svíki stefnu hans og greiði atkvæði með orkupakkanum? -- þessari líka óþurftarsendingu frá Brussel-valdinu!
Sigmundur Davíð ritaði í nefndri grein, Suma pakka er betra að afþakka:
"Ég skora á ríkisstjórnina að fara nú þegar fram á að Ísland fái undanþágu frá orkupakkanum og skili honum svo til sendanda. Í því efni getur ríkisstjórnin reitt sig á stuðning Miðflokksins."
Ennfremur ritaði hann þar í byrjun:
"Þegar Evrópusambandið afhendir pakka, snýst það gjarnan um að taka eitthvað af viðtakendunum, setja þeim nýjar takmarkanir og skerða ákvörðunarrétt þeirra, jafnvel sjálfstæði heilla þjóða."
Og undir lokin ritaði Sigmundur:
"Það að koma í veg fyrir að erlendar stofnanir öðlist yfirþjóðlegt vald á Íslandi og aðrir hagsmunir samfélagsins verði veiktir ætti ekki að vera pólitískt þrætuepli innan lands, ekki frekar en önnur mál sem snúa að því að verja hagsmuni landsins út á við eða sjálft fullveldið.
Það er grátlegt að stjórnvöld telji það ekkert tiltökumál að framselja sneið af sjálfstæði landsins á sama tíma og haldið er upp á að 100 ár séu liðin frá því að Ísland endurheimti fullveldi sitt. Um leið fara svo fram umræður um hvort eigi að afnema svo kallað fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar til að auðvelda slíkt framsal í framtíðinni."
Það er von að þessum flokksforingja blöskri.
VIÐAUKI:
Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Mbl., benti á þetta á vefnum Styrmir.is:
"Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. vetur var samþykkt ályktun þess efnis að flokkurinn hafnaði frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Í skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir Heimssýn sl. vor kom fram, að 91,6% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru sama sinnis. Afstaða fundarmanna í gær fór ekki á milli mála. Forysta og þingflokkur Sjálfstæðisflokks geta ekki hundsað viðhorf almennra flokksmanna í þessu máli."
Og undirritaður spyr: Hvernig getur Bjarni Benediktsson hundsað álit yfir 90% kjósenda Sjálfstæðisflokksins? Stefnir hann að endalokum flokksins eða klofningi? Hvað verður þá eftir af honum? Hvað er svona mikils virði fyrir BB og BB frænda hans, fyrrv. dóms- og menntamálaráðherra, að þeir vilji taka þessa áhættu fyrir þann gamla flokk? Eða má hann bara vel við því að tapa enn fleiri stuðningsmönnum?!!!
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.11.2018 kl. 20:37 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki einfaldast að spyrja þá sem bjúggu þriðja orkupakkann til, hvað það þýðir fyrir okkur Íslendinga að samþykkja hann?
Tryggvi L. Skjaldarson, 9.11.2018 kl. 07:21
Skammarlegt er að sjá skrif Björns Bjarnasonar um fyrri aðkomu Sigmundar Davíðs að þessum 3. orkupakka. Augljóst er þar* að Björn vill fyrir alla muni að Sigmundur gleypi við orkupakkanum þrátt fyrir að margvísleg rök hafa komið fram á seinustu misserum sem mæla eindregið gegn lögleiðingu hans!
Og svo var þessi sami Björn Bjarnason, fv. ráðherra og yfirlýstur stuðningsmaður EES-samningsins, gerður að formanni þriggja manna nefndar til að kanna, til ársloka 2019, bæði hag og tjón af EES-samningnum! Verður það hlutlæg rannsókn?! Það vitum við ekki fyrir fram, en merkilegt þetta val í nefndina, í stað þess að fá a.m.k. einn hagfræðing í hana. En nógu mikið á hún að kosta, 25 milljónir króna til þriggja nefndarmanna og eins starfsmanns!**
En Þriðji orkupakkinn getur reynzt okkur lang-dýrkeyptasta EES-tilskipunar-innleiðing frá Brusselvaldinu, og Björn Bjarnason er þegar farinn að predika með þeim orkupakka! Ætli honum gangi þá ekki vel að mæla einhliða með EES-samningnum í stað þess að vera traustsverður starfsmaður lýðveldisins?
* https://www.bjorn.is/dagbok/nr/9034
** http://www.ruv.is/frett/verja-a-25-milljonum-i-skyrslu-um-ees
Jón Valur Jensson, 9.11.2018 kl. 07:25
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur verið á stöðugri niðurleið í tíð núverandi formanns flokksins án þess að hann kippi sér upp við það. Spurningin er hversu lengi og hversu lágt fylgið má fara áður en hann tekur mark á þeim skilaboðum sem fyrrum kjósendur flokksins eru að senda honum.
Verði orkupakkinn samþykktur á Alþingi með atkvæðum Sjálfstæðismanna er víst að fylgi flokksins mun hrynja enn frekar.
Tómas Ibsen Halldórsson, 9.11.2018 kl. 11:37
Þakka þér fyrir þessa brýningu, Jón Valur. Ég vil máli okkar til sönnunar benda á frábæra grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu í dag. Hafi einhver velkzt í vafa um afsal valds til ESB til sjálfstæðrar ákvörðunar íslenzkra yfirvalda um aflsæstreng til útlanda eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans, getur sá hinn sami ekki verið lengur í vafa eftir lestur þessarar greinar, nema hann vilji ekki skilja af einhverjum annarlegum ástæðum.
Bjarni Jónsson, 10.11.2018 kl. 14:47
Hjartans þakkir fyrir ábendinguna, Bjarni.
Þakkir líka til þín, Tómas Ibsen!
Jón Valur Jensson, 10.11.2018 kl. 15:38
Eins og Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Mbl., benti á á vefnum Styrmir.is:
"Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. vetur var samþykkt ályktun þess efnis að flokkurinn hafnaði frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.Í skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir Heimssýn sl. vor kom fram, að 91,6% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru sama sinnis.Afstaða fundarmanna í gær fór ekki á milli mála.Forysta og þingflokkur Sjálfstæðisflokks geta ekki hundsað viðhorf almennra flokksmanna í þessu máli."
Hvernig getur Bjarni Benediktsson hundsað álit yfir 90% kjósenda Sjálfstæðisflokksins? Stefnir hann að endalokum flokksins eða klofningi? Hvað verður þá eftir af honum? Hvað er svona mikils virði fyrir BB og BB frænda hans, fyrrv. dóms- og menntamálaráðherra, að þeir vilji taka þessa áhættu fyrir þann gamla flokk? Eða má hann bara vel við því að tapa fleiri stuðningsmönnum?!!!
Jón Valur Jensson, 10.11.2018 kl. 20:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.