8.11.2017 | 19:47
Snjall er Björn í greiningunni; Þorgerður Katrín lætur á sér skilja að kúvent sé ESB-stefnu Viðreisnar
En ekki er mikið að marka það; öll forystusveit Viðreisnar (sjá nöfnin) hefur frá upphafi haft Evrópusambandið fyrir augum sem sínar ær og kýr, sína Útópíu og himnesku Jerúsalem!
Komum rétt strax aftur að Þorgerði, en fyrst er að nefna, að Björn Bjarnason rekur í frábærlega skýru yfirliti* ESB-umfjöllun Sjálfstæðisflokksins frá því haustið 2008 og fram undir þetta. Það er lærdómsríkt mörgum og áminning um að taka ekki mikið mark á áróðri ESB-kröfugerðarfólks á Austurvelli um árið.
Aðspurð um það af fréttamanni Rúv, hvort Viðreisn, ef henni er boðið að stjórnarmyndunarborði, mundi setja það sem skilyrði að gengið verði til atkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB á næsta kjörtímabili, svaraði Þorgerður:
"Á þessu stigi tel ég rétt að flokkar setji ekki fram nein skilyrði."
Um þetta segir Björn á vef sínum, bjorn.is*:
Í ljósi sögunnar markar þetta svar tímamót. Viðreisn setur ekki atkvæðagreiðslu um framhald ESB-aðildarviðræðna sem skilyrði fyrir myndun ríkisstjórnar.
En hann bætir líka við:
Eftir yfirlýsingu Þorgerðar Katrínar sem vitnað er til hér að ofan vaknar spurning um hvort Viðreisnarfólk á samleið með Viðreisn. Hafi flokkurinn verið stofnaður um eitthvert málefni, sneri það að þjóðaratkvæðagreiðslunni um framhald ESB-viðræðna. Nú boðar flokksformaðurinn að ekki verði staðið við það loforð bjóðist ráðherrastólar.
Ólíklegt er að þessi yfirlýsing flokksformannsins um hvarf frá meginstefnu flokksins breyti nokkru um aðdráttarafl hans við stjórnarmyndun.
Já, ekki er það traustsverðugt að stinga stefnu sinni niður í skúffu, þegar ráðherrasætin bjóðast. Þetta gerði þó Steingrímur J. með hrikalegum afleiðingum árið 2009, eins og öllum á að vera kunnugt. Nú fer Þorgerður Katrín í hina áttina, en þó verður Viðreisnar-flokkurinn ávallt grunaður um græsku í okkar fullveldismálum. Og þó að bæði Samfylking og "Viðreisn" verði að kyngja því, að þeirra heittelskaða ESB verður ekki á dagskrá hér næstu fjögur árin, þá er hætt við því, að þau reyni í millitíðinni að fara Fjallabaksleið að því langtíma-markmiði, með því að vinna að því á þingi að spilla fyrir fullveldisákvæðum gildandi stjórnarskrár, en Logi Einarsson, formaður Sf., vill einmitt gera stjórnarskrárbreytingar að skilyrði fyrir því, að flokkur hans fáist til að taka þátt í stjórnarmyndun.
Hér er því full þörf á að vera áfram á verði, þótt sannfæring sumra sé kannski tímabundið til sölu fyrir völd og áhrif ráðherrastóla.
* Formaður Viðreisnar afneitar flokksstefnunni.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:01 | Facebook
Athugasemdir
Var einitt að lesa þessa ágætu grein hans Björns Bjarnasonar. Gleymi ekki hvað gekk mikið á út af kýr-skýrri yfirlýsingu Bjarna Ben.varðandi umsókn um aðild að ESB. - -
Helga Kristjánsdóttir, 8.11.2017 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.