Ekki eykst stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið í Noregi. Nú hefur Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins, lýst því yfir, að hún myndi segja NEI við tillögu um inngöngu í Stórþinginu.
Fari svo, að hennar afstaða verði ofan á á landsfundi flokksins í maí, yrði það í fyrsta sinn í sögu hans, sem tekin væri afstaða gegn inngöngu landsins í Evrópusambandið.
Til þessa hefur flokkurinn sem slíkur ekki tekið formlega afstöðu til málsins en þess í stað lagt áherslu á að norska þjóðin ætti að taka þá ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Mbl.is segir frá.)
Við könnumst við sama sönginn hjá sumum okkar eigin flokkum, sem þora ekki að opinbera eigin afstöðu í reynd. En ljóst er, að nú hefur þessi gamla afstaða Framfaraflokksins breytzt:
Fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Nationen að efasemdir um Evrópusambandið hafi hins vegar farið vaxandi innan Framfaraflokksins. Málefnanefnd flokksins í utanríkismálum leggur til að tekin verði upp sú stefna að hafna inngöngu Noregs í sambandið og ennfremur að opnað verði á endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Lögð er áhersla á að EES-samningurinn hafi skipt miklu máli fyrir hagsmuni Noregs. Hins vegar þyrfti að framfylgja honum með strangari hætti á sumum sviðum, en að öðrum kosti þyrfti að endurskoða hann, eins og segir í drögum málefnanefndarinnar. (Mbl.is)
Og hér mega íslenzkir lesendur hafa hugfast, að það er einmitt Framfaraflokkurinn sem myndar núverandi ríkisstjórn Noregs í samstarfi við norska Hægriflokkinn.
Þó vill leiðtoginn Siv Jensen ekki kalla eftir því að EES-samningnum verði sagt upp. Flokkurinn vilji einfaldlega betrumbæta hluta samningsins, sagði hún á fundi framkvæmdaráðs flokksins sl. laugardag.
Jensen lagði ennfremur áherslu á að milliríkjaviðskipti væru Norðmönnum mjög í hag. Henni hugnaðist ekki að teknir yrðu aftur upp tollar í viðskiptum við Evrópusambandið eða önnur ríki í heiminum. Þvert á móti vildi hún sjá meiri milliríkjaviðskipti.
Spurð hvort hugsanlegt væri að samþykkt yrði á landsfundi Framfaraflokksins sú stefna að segja EES-samningnum upp, sagði hún landsfundinn sjálfstæðan í ákvörðunum sínum en hins vegar teldi hún að breið samstaða væri um mikilvægi samningsins. (Mbl.is)
Hér er það reyndar spurning, hvort óvinsældir ESB-aðildarkostsins meðal norskra kjósenda hafi áhrif á afstöðu formannsins:
Jensen var einnig spurð að því hvort stefnubreyting Framfaraflokksins væri tilkomin vegna þess að Miðflokkurinn hefði verið auka fylgi sitt samhliða harðari afstöðu gegn inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Sagði hún svo ekki vera.
Þessi umræða hefur lengi farið fram innan Framfaraflokksins, sagði Jensen. Það kæmi því ekki á óvart að þess sæjust merki í drögum að utanríkisstefnu flokksins og þeirri umræðu sem átt hefði sér stað í aðdraganda landsfundarins.
En það er líka ljóst, að sjálf hefur hún kúvent í málinu: Hún var var hlynnt því að fara inn í ESB fyrir 22 árum, en ekki lengur:
Sjálf sagðist Jensen hafa greitt atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið þegar Norðmenn kusu um það í þjóðaratkvæði 1994. Hins vegar væri hún annarrar skoðunar í dag. Í dag myndi ég kjósa nei.
Og hún bendir á þá uggvænlegu valdsamruna-þróun í stórveldinu, sem gætt hefur í stórum stíl í millitíðinni:
Evrópusambandið snerist [nú] ekki lengur um viðskipti og minna regluverk, heldur lagasetningu sem ríki sambandsins hefðu ekki vald yfir. Viðskipta- og friðarverkefnið hefur orðið að skriffinnskuverkefni.
Í dag myndi ég kjósa nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Norræn málefni | Breytt s.d. kl. 09:56 | Facebook
Athugasemdir
Hún er góð, ein af betri þingmönnum í Noregi. Ég man eftir kvöldinu þegar ljóst var að FP var að komast framm í dagsljósið í 84 eða 86 og er ég ellimeðlimur í flokknum.
Eyjólfur Jónsson, 7.3.2017 kl. 23:41
Gaman að frétta af því, vinur.
Jón Valur Jensson, 8.3.2017 kl. 06:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.