11.1.2017 | 17:29
Brezka ríkisútvarpið veit betur um ESB-stefnuna hjá ríkisstjórn BB heldur en ýmsir hér! - og af fleiri hættumerkjum
Vefsíða BBC greinir frá því að nýja ríkisstjórnin hér á landi ætli að setja spurninguna um aðild að Evrópusambandinu aftur á dagskrá með því að láta þingið kjósa um hvort haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina. (Mbl.is)
Þessi frétt er mjög ólík fullyrðingum í fréttastöðvum hér í gær um að ESB-umræða hafi verið "sett á ís" og að "Björt framtíð" og "Viðreisn" hafi ekki náð neinum árangri með ESB-markmið sín í þessu stjórnarsamstarfi. En þær fullyrðingar standast ekki, og Bjarni Benediktsson hefur í viðræðum flokkanna gefið allt of mikið eftir (sjá hér neðst), því að með því að beita ekki neitunarvaldi (sem felst í ráðandi stöðu stærsta flokksins í ríkisstjórn) til að útiloka þjóðaratkvæði um "framhald ESB-viðræðna", þá er Bjarni að ganga á bak fyrri orða sinna um að ESB-umsóknin hafi verið formlega dregin til baka með bréfi Gunnars Braga utanríkisráðherra fyrir hönd þeirrar ríkisstjórnar þeirra.
Reuters segir einnig frá því í fyrirsögn að Íslendingar ætli að spyrja þingið hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB.
Einkennilega að orði komizt (er Reuters með vanhæfan fréttaritara hér á landi?), en á þó líklega að ganga í sömu átt og ESB-fréttin.
En svona eru ákvæði stjórnarsáttmálans í raun í þessu efni:
Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.
Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum.
Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan. (Auðk. hér, jvj)
Svo er bara að vona, að ríkisstjórnin springi fyrr á limminu en að ná þeim aldri að koma þessu í verk. En jafnframt þarf að hafa auga með uppátækjum þessara þriggja flokka í stjórnarskrármálum (sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar um) og að engin billeg heimild verði samþykkt sem auðveldar innlimun í Evrópusambandið (sbr. 111. gr. tillagna hins ólögmæta "stjórnlagaráðs") um leið og bundið er svo um hnútana, að þjóðin hafi ekkert færi á því að ógilda slíka innlimun (sbr. 67. gr. sömu tillagna hins ólögmæta "ráðs")!
Þar að auki þarf að koma í veg fyrir, að stofnað verði til embættis flokkspólitísks varaforseta (eins staðgengils forseta Íslands, í persónu forseta Alþingis, sjá tillögur sama "ráðs", 82. gr.), og að 5/6 hlutum Alþingis verði gefið færi á því að snuða þjóðina um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar, skv. 113. gr. hinna dæmalausu tillagna hins ólögmæta "ráðs", sem allir eiga að vita (eins og Valgerður Bjarnadóttir, þáv. formaður eftirlits- og stjórnsýslunefndar Alþingis vissi upp á hár) að var ekkert annað en einber "ríkisskipuð nefnd", m.a.s. aðeins skipuð af 30 alþingismönnum (þvert gegn þágildandi lögum um stjórnlagaþing!) og ekki með neitt gilt þjóðarumboð að baki.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Fengu annan úr Panamaskjölum í staðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:20 | Facebook
Athugasemdir
Þeir komast ekki spönn úr rassi með þetta. Það er langur vegur frá því að það sé meirihluti á alþingi fyrir þjóðaratkvæðum. Ef svo ólíklega vildi til að ákveðið yrði að spyrja þjóðina um hvort haldið skuli í Bjarmalandsförina að nýju, þá efast ég ekki eitt augnablik um að þjóðin kýs þetta út af borðinu í eitt skipti fyrir öll.
Ég hef satt að segja meiri áhyggjur af því að vita af Benedikt í forsvari fjármálaraðuneytisins. Verri kostur hefði varla fundist, nema ef væri Steingrímur J.
Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2017 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.