10.1.2017 | 11:51
Evrópusambandsmálin fjarri því að vera tryggilega útilokuð. Viðaukar (2) um háskaleg ákvæði í stjórnarsáttmála!
Ef Evrópusambands-sinninn Jón Steindór Valdimarsson, "sem var um árabil formaður Já Ísland sem er vettvangur þeirra sem vinna að Evrópusambandsaðild, er ... nokkuð sáttur við lendinguna í þeim málaflokki" í nýjum stjórnarsáttmála, skv. Mbl.is-frétt, þá er það full ástæða til að hafa áhyggjur af því, hvað verða kunni ofan á í því máli.
Við vitum að annar samstarfsflokkurinn er mjög á öndverðum meiði við það, þannig að miðað við það þá er ég þokkalega sáttur við þessa niðurstöðu og held að það sé ekki endilega slæmt fyrir efni málsins að það dragist. (JSV, í viðtali við Mbl.is)
Þótt þetta sé viss viðurkenning þess, að ESB-innganga Íslands sé gersamlega ótímabær, enda afar óvinsælt málefni skv. nýlegum skoðanakönnunum og vegna bágs ástands ESB -- og er raunar í fullkominni mótsögn við stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands -- þá er vitað, hvernig þessir atlögumenn þjóðríkisins eru þenkjandi og við hverju megi búast af þeim.
Því skulum við enn vera á varðbergi og efla gengi þjóðríkisstefnunnar, sem nú styrkist einnig á alþjóðavettvangi, m.a. í Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Frakklandi, Póllandi og Ungverjalandi.
VIÐAUKI I: Í hádegisfréttum Rúv kom meira fram um ákvæði hins nýja stjórnarsáttmála um ESB-málin. Þar sagði, að ákvörðun um þau bíði seinni hluta kjörtímabilsins.
"Samkomulag stjórnarflokkanna gengur út á, að ríkisstjórnin taki ekki sameiginlega afstöðu gegn neinni tillögu sem fram komi á þinginu, t.d. um hvort greiða skuli atkvæði um framhald aðildarviðræðna annars vegar eða einfaldlega inngöngu í Evrópusambandið hins vegar. Það verði síðan hverjum þingmanni í sjálfsvald sett, hvernig hann greiðir atkvæði, verði slík tillaga lögð fyrir þingið." (Einar Þorsteinsson sagði frá.)
Þetta sýnist undirrituðum alls ekki í góðu fari og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hér fórnað þessu máli fremur en að tryggja fyrir fram fullveldi Íslands.
VIÐAUKI II: Hér eru textarnir um ESB-mál í Stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar:
Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.
Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum.
Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan. (Auðk. hér, jvj)
Jón Valur Jensson.
Pawel ekki á ráðherrastól | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.