27.11.2016 | 02:41
Aukinn meirihluti til framsals fullveldis er bæði eðlilegur og nauðsynlegur (sex skjaldarmerki Íslands fylgja með)
Mest knýjandi mál fyrir fullveldi Íslands, sem um leið er mikilvægt mál til að tryggja, að það verði samhuga þjóð sem taki meginákvarðanir þar um, er að setja það ákvæði inn í stjórnarskrá, að í ákvörðun bæði í þingheimi og í þjóðaratkvæðagreiðslu verði áskilið, að 3/4 atkvæða þurfi til að gera þá grundvallarbreytingu á okkar stjórnskipan að afsala eða framselja fullveldi okkar til annars ríkis eða ríkjaveldis.
Þetta er í raun sjálfsagt mál til sjálfstryggingar lýðveldinu og kemur væntanlega í veg fyrir snögga aðför að því sama lýðveldi með lýðskrumi og peningaaustri í einhliða áróður sem þjónar hagsmunum stærra veldis/ríkis.
Hliðstæðu er að finna í mörgum lögum félaga (þ.m.t. fyrirtækja og stofnana), sem leyfa ekki, að þau verði niður lögð eða lögð inn í annað félag, nema t.d. 80% atkvæða á aðalfundi ákveði svo.
Eins er hliðstæða fólgin í stjórnarskrá Noregs, sem áskilur í 93. gr., að til fullveldisframsals þurfi minnst 3/4 meirihluta í Stórþinginu.
Önnur hliðstæða var í dansk-íslenzku Sambandslögunum, en þar var áskilið, að aukinn meirihluta þyrfti bæði í Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fella sambandalagasamninginn úr gildi, svo sem hér segir:
- 18. gr.:
- "... Til þess að ályktun þessi [um að fella úr gildi þann samning] sé gild, verða að minnsta kosti 2/3 þingmanna annaðhvort í hvorri deild Ríkisþingsins [danska] eða í sameinuðu Alþingi að hafa greitt atkvæði með henni, og hún síðan vera samþykt við atkvæðagreiðslu kjósenda þeirra, sem atkvæðisrétt hafa við almennar kosningar til löggjafarþings landsins. Ef það kemur í ljós við slíka atkvæðagreiðslu, að 3/4 atkvæðisbærra kjósenda að minsta kosti hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni, og að minsta kosti 3/4 greiddra atkvæða hafi verið með samningsslitum, þá er samningurinn fallinn úr gildi." (Hér skv. ritinu Sjálfstæðisbarátta Íslendinga, lokaþáttur 1918-1944. Gunnar Hall tók saman. Rvík 1956, s. 25.)
Hér er athyglisverður texti í grein í Mbl. 14. maí 2013: Eins og Norðmenn gerðu, eftir Björn S. Stefánsson, dr. scient.:
"Við ættum að geta gert eins og Norðmenn gerðu, nefnilega að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig má heyra, þegar rætt er um Evrópusambandsmálið. En hvað gerðu Norðmenn?
Norðmenn bjuggu sig undir Efnahagsbandalagsmálið á sjöunda áratug síðustu aldar með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal á valdi. Það var þannig, að framsal á valdi til bandalags ríkja, sem Noregur er aðili að, getur gerst með samþykki þriggja fjórðu þingmanna." (Nánar þar.)
Þetta væru vissar skorður gegn framsali eða hreinu afsali æðstu fullveldisréttinda, sér í lagi afsali æðsta löggjafarvalds, sem er einmitt eitt ákvæðið í sérhverjum inntökusáttmála (accession treaty, hérlendis oft kallað "aðildarsamningur") nýrra meðlimaríkja á þessari öld, þegar þau samþykkja að ganga í Evrópusambandið.
En þetta eitt dugar ekki, og framvinda mála í Noregi er einmitt skýrt dæmi um það. Þjóðin er að vísu mjög andvíg því á þessari öld (og ekki sízt nú) að fara inn í Evrópusambandið, en í Stórþinginu hafa ESB-innlimunarsinnar löngum verið í meirihluta, og það getur með tíð og tíma skapað hættu fyrir fullveldi landsins. Og þannig, ekkert minna, var ástandið bæði 1972 og 1994, þegar fram fóru þjóðaratkvæðagreiðslur um inngöngu í Evrópusambandið. Í báðum tilfellum var því naumlega hafnað, með aðeins 53,5% meirihluta 1972, en með 52,2% árið 1994. Í vissum aðstæðum (efnahagskreppu eða vegna annarra ófara þjóðarbúsins af manna völdum eða náttúrunnar) getur því fullveldi lands verið í mikilli hættu, þegar svo mjótt er á munum, eins og líka sýndi sig í Svíþjóð í nóvember 1994, þegar 52,3% (af þeim 83,3% sem greiddu atkvæði) kusu aðild landsins að Evrópusambandinu. Nokkrum mánuðum seinna höfðu hlutföllin snúizt við, en þá gat sænskur almenningur ekkert gert í málinu! (Sjá nánar um það í bók Ragnars Arnalds, fyrrv. fjármála- og menntamálaráðherra: Sjálfstæðið er sístæð auðlind.)
Eins og undirritaður sagði hér í grein 20. nóv. 2013:
"Þannig gætum við þá setið uppi með tvískipta þjóð, naumur meirihluti þeirra, sem mæta myndu á kjörstað ... fengi að ráða, en hinir engu og það um alla framtíð nánast! Og þetta gæti gerzt, jafnvel þó að vitað sé, að þeir, sem eru MJÖG andvígir inntöku landsins í Evrópusambandið, eru miklu stærra hlutfall slíkra andstæðinga heldur en hlutfall hina, sem eru MJÖG HLYNNTIR inngöngu í ESB,* hefur reynzt vera meðal slíkra ESB-sinna. Ekki væri þetta uppskrift að mikilli þjóðarsátt og "samvinnu" þessara ólíku hópa!"
Af þessum ástæðum, en umfram allt til að standa vörð um okkar sjálfstæða og fullvalda lýðveldi, ættu Íslendingar að gera gangskör að því, að það verði sett í stjórnarskrána, þegar henni næst verður breytt, að aukins meirihluta verði krafizt bæði í þingi og hjá þjóðinni sjálfri, ef tillaga kemur fram um framsal fullveldis til ríkjasambands eða stórveldis. En til þess voru refirnir ekki skornir hjá okkur 1. desember 1918, þegar fullveldi landsins var viðurkennt.
* Sbr. nýlega grein hér: 4,8 sinnum fleiri mjög andvígir inngöngu í ESB heldur en þeir sem eru mjög hlynntir henni.
Hér eru svo skjaldarmerki Íslands frá upphafi:
Elzta merkið, tákn goðorðanna: frá 13. öld, næst kemur merki Íslands undir Noregskonungi um 1280 (sameinar tákn Ólafs helga og þjóðveldisins eða Gizurar jarls). Það þriðja: flatti þorskurinn (endurgerð), frá ofanverðum miðöldum og áfram allt inn í 20. öld.
Fjórða merkið, fálkinn: 1903-1919 (er til dæmis yfir dyrum Landsímahússins gamla við Suðurgötu), það fimmta er merki konungsríkisins Íslands 1919-1944, loks lýðveldismerkið frá 1944.
Elzta merkið, til sem slíkt, er á skjaldarmerkjabók Wijnbergens um 1280:
Sama merki, nr. 2 hér ofar, er í raun nútíma-endurgerð, rússnesk! Og 1. merkið er endurgerð og tilgáta P. Warmings, birt í Árbók Fornleifafélagsins, þ.e. skjöldur með tólf þverröndum, hvítum (silfruðum) og heiðbláum til skiptis, sem "er hugsanlega það merki (eða fáni) sem Hákon konungur fékk Gizuri Þorvaldssyni í Björgvin 1258, er hann gerði hann að jarli." (Heimild.)
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:42 | Facebook
Athugasemdir
Hér er svo danska skjaldamerkið, meðan Ísland var þar enn táknað með fálkamynd ("Det store rigsvåben som benyttet 1903-1948. Det islandske falkevåben blev fjernet i 1948"), en þar til hliðar eru merki Færeyja (hrúturinn) og Grænlands (ísbjörninn).
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 27.11.2016 kl. 07:55
Hér er sama skjaldarmerki Danakonungs með krýnda, flatta þorskinum (1819-1903) í stað fálkans:
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 27.11.2016 kl. 08:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.