Er fyrirmynd ESB-sinna klárinn sem leitar þangað sem hann er kvaldastur?

"Alþingi hafnaði þjóðar­at­kvæða­greiðslu um ESB-um­sókn árið 2009, aðildar­viðræð­ur sigldu í strand 2011, þeim var hætt í janúar 2013. ESB-flokkar urðu undir í kosn­ingum 2013, ESB-við­ræð­um var slit­ið á síð­asta kjör­tíma­bili, ESB-flokk­ur­inn þurrk­aðist að mestu út 2016. ESB-málið var ekki kosninga­mál 2016, enginn prédikaði aðild. Að ESB-aðildar­mál valdi vand­ræðum við stjórnar­myndun í nóvember 2016 er með ólíkindum."

Þannig ritar Björn Bjarnason í snarpri grein sinni í gær og bætir við:

"Bretar, helsta viðskiptaþjóð okkar, er á leið úr ESB. Á þessari stundu veit enginn hvernig Bretum tekst að semja við ESB um úrsögn sína. Brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda nú gagnvart samstarfi við ESB-ríki er að tryggja farsælan samning við Breta samhliða EES-samningnum eða stuðla að aðild Breta að EES-samstarfinu. Þegar vitað verður um niðurstöðu ESB og Breta er tímabært fyrir okkur að huga enn á ný að samskiptunum við ESB."

Björn ritar hér af hyggindum sem fyrri daginn, og þó skal tekið fram, að þau Samtök um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, sem halda úti þesasari vefsíðu, gefa sér alls ekki, að EES-samningurinn sé skárri en aðrar leiðir tvíhliða viðskiptasamninga, sem unnt er að fara að fyrirmynd Svisslendinga.

En sannarlega er hitt með ólíkindum, að íslenzkir stjórnmálamenn láti sér detta í hug að setja ESB-aðildarmál á óskalista málefna í stjórnarmyndunarviðræðum og það eftir allt, sem á undan er gengið. Fyrir utan það, sem Björn hefur nefnt hér, er vert að minna á, að frá upphafi til enda vann Evrópusambandið harka­lega gegn rétti og þjóðarhag Íslendinga í Icesave-atganginum; ennfremur barðist það eindregið gegn okkar fulla fiskveiðirétti í makrílmálinu og vildi í upphafi aðeins "bjóða" okkur einungis 2-3% (og síðar 5-6%) hlut í Norður-Atlantshafsveiðunum, þótt allur væri þessi afli okkar að fullum rétti í eigin lögsögu! En með staðfestu Jóns Bjarnasonar, þáverandi ráðherra, og á grundvelli þeirra fullveldisréttinda okkar, sem við hefðum EKKI innan Evrópu­sambandsins, þá tókst honum að tryggja okkur 16-17% hlut í öllum þeim veiðum, sem síðan hafa skilað okkur hvorki meira né minna en einni milljón tonna af makríl á sjö árum!

Samt eru jafnvel heilir stjórnmálaflokkar stofnaðir til að troða Íslandi undir klafa Evrópusambandsins! "Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur" segir þjóðarspekin (í ljósi reynslunnar) réttilega um þvílíka vanhugsun. 

Þar að auki er það skýrlega komið fram, enn einu sinni, í svörum Evrópu­sambandsins við fyrirspurn frá sóknarpresti á Akureyri, sr. Svavari Alfreð Jónssyni, að s.k. aðildarviðræður snúast alls ekki um það, sem A-, C-, S- og jafnvel V-flokkarnir vilja vera láta (þ.e. um samning um inngöngu í stórveldið), heldur einfaldlega um aðlögun viðkomandi lands að lögum og reglum Evrópu­sambandsins, sem ÖLL þarf að meðtaka, vilji land eða þjóð fá að "ganga í klúbbinn". Nánar er fjallað um þetta í skýrri grein á Moggabloggi sr. Svavars: Samningar eða aðlögun? Svar ESB, grein sem vakið hefur mikla athygli og fengið 170 "læk" (sbr. einnig þessar greinar hans: Lýðræði og heiðarleiki? og Óvinir ESB og karlakóra).

Þess vegna er það líka rétt hjá Birni Bjarnasyni að horfa fram á veginn í stað þess að reyna að endurvekja einhverja viðræðufundi, sem hvort sem er fóru í strand á veldisárum Jóhönnu og verða ekki vaktir upp frá dauðum, nema menn ætli sér beinlínis að hafna öllum þeim ströngu skilmálum sem Alþingi samþykkti 2009 sem skilyrði fyrir Össurar­umsókninni ógæfilegu. Og um þetta segir Björn:

"Í stjórnarmyndunar­viðræðum eiga menn ekki að takast á við einhverja drauga úr fortíðinni. Þar á að ræða mál líðandi stundar og framtíðar, meta stöðu þjóðarinnar frjálsir af fánýtum fortíðardeilum."

Megi Alþingi og þingflokkarnir bera gæfu til þess að halda sér við íslenzkt fullveldi í stað þess að gæla við að afsala því í hendur gamalla nýlendu­velda á megin­landinu, þeirra sem aldrei hafa gefið okkur eitt né neitt, heldur gengið hér freklega á fiskistofna okkar eða í bezta falli stundað við okkur viðskipti.

En svo sannarlega snýst Evrópu­sambandið um miklu meira en viðskipta­samninga, það snýst um tollmúra og niðurgreiðslur og marg­háttaðar vald­heimildir Rómar- og Lissabon-sáttmálanna, m.a. til æðstu ráðandi löggjafar sambandsins yfir öll þjóðríkin, einnig til fiskveiða allra ESB-borgara/útgerða upp að 12 mílum, sem og til forræðis í orku­verðlagningar­málum og til að setja á fót einn allsherjarher fyrir allt Evrópu­sambandið (mjög brýnt verkefni á næstu árum, segja þeir í Brussel!). Eru þeir Íslendingar, sem eru með öllum mjalla, trúlega vandfundnir sem í reynd eru ginnkeyptir fyrir nokkru af þessu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópumálin líklega til þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband