31.10.2016 | 16:51
Fréttamenn ættu að krefja Smára McCarthy um svör
Smári McCarthy, sem kosinn hefur verið þingmaður Pírata þrátt fyrir fádæma-klaufaleg ummæli, upplýsti í útvarpsþætti um daginn, að Evrópusambandið vilji leggja mikið á sig til að fá Ísland inn. "Hvaðan hann hefur það, veit ég ekki," sagði Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu um þetta í síðdegisþætti í dag, þar sem Vigdís Hauksdóttir er gestur þáttarins.
Sjálfur sagðist Smári McCarthy vera fylgjandi inngöngu Íslands í ESB. En hann virðist í einhverju sérstöku sambandi við Brusselmenn, og ættu fréttamenn að ganga á hann og krefja hann um svör við því, hvaða ESB-menn hafi upplýst hann um þennan mikla áhuga Evrópusambandsins á Íslandi.
Vitaskuld er áhugi stórveldisins á Íslandi engin ný frétt, en það hafa ýmsir þrætt fyrir hann og látið jafnvel sem stórveldið myndi ekkert hagnast á því að ná Íslandi inn! Samt eru ekki aðeins lífskjör betri hér en meðaltalið í ESB, hagvöxtur meiri, atvinnuleysið mun minna o.s.frv., heldur eru auðlindir okkar mikils virði, bæði á og undir jörðu og fiskimið okkar þau auðugustu í Evrópu um aldir, eins og mikil fiskisókn Breta, Frakka, Þjóðverja, Belgja o.fl. þjóða til Íslands bar vitni um og ítrekuð herskipavernd brezka flotans með fiskveiðum þeirra hér í þorskastríðunum.
Margir Íslendingar eru andvígir her í landi, en eftir gríðarlega mikilvægri hernaðaraðstöðu landsins slægjast Þjóðverjar í gegnum ESB, sbr. þessa frétt: Island will der EU beitreten! Auch ein strategisches Interesse, sem undirritaður sagði frá á Vísisbloggi sínu, meðan það var og hét, og verður sú grein endurbirt hér sem fyrst (því að þrátt fyrir að 365 miðlar hafi fyrirvaralaust lagt niður gervallt Vísisblogg þúsunda manna og allar umræður þar til margra ára, þá var undirritaður svo forsjáll að taka afrit af sínum pistlum þar).
Við fengjum, vel að merkja, ekki að ráða því, hvort landið yrði notað til heræfinga og herstöðva (bæði flughers og flota), ef ESB-innlimunarsinnuðum flokkum tækist að afsala landi og þjóð fullveldisrétti og sjálfstæði í hendur yfirdrottnaranna í Brussel. Nánar um þetta í nefndri grein.
Sbr. einnig eftirfarandi grein á Moggabloggi undirritaðs 22. apríl 2010: Þýzka þingið samþykkti í dag EU/ESB-umsókn Össurar og Jóhönnu! -- einnig í öðrum pistli 23. apríl 2010: Þýzka sambandsþingið samþykkti inngönguviðræður Íslendinga (Össurar umfram allt!!!) við Evrópubandalagið (EU).
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fiskveiðar, sjávarútvegur, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 7.11.2016 kl. 12:16 | Facebook
Athugasemdir
Það sem ég hef verið að spyrja sjálfan mig í dálítinn tíma er.: Var svindlað í þessum skoðana könnunum og hver getur það annar en einn maður já kannski fleiri. Það var breytt skaðannakönnunum hjá Útvarps sögu og hversvegna grunaði engum að það væri hægt hjá öðrum skoðanakönnunar fyrirtækjum. Það er vitað að svona kannanir hafa áhrif á skoðanir fólks. Ég tel að það eigi að rannsaka svona og það strax og jafnvel að ógilda kosningarnar.
Valdimar Samúelsson, 31.10.2016 kl. 22:30
Erum við nógu herská til þess í merkingunni "hingað og ekki lengra" Þjóðin er greinilega farin að sjá í gegnum alla leikþættina þeirra,sem miða að því að veikja þá sem eru í valdastöðu.
Helga Kristjánsdóttir, 1.11.2016 kl. 03:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.