"Viðreisn" þegir um undirokun Íslands undir evrópskt stórveldi; Þorgerður Katrín og Jón Steindór eru óheil gagnvart þjóðinni um staðreyndir

Meint "frjálslyndi" Viðreisnar felst fyrst og fremst í trausti á þá evru sem helztu hagfræðingar heims telja nú að hafi verið tilraun sem mistókst.* Engin þörf er á bindingu við evru til að lækka vexti á Íslandi, og sjálf er evran fjarri því að vera "stöðug", hún hefur nú á nokkrum mánuðum sveiflazt niður úr um 160 kr. niður í 125,20 í skráðu miðgengi. Íslenzka krónan hefur þannig staðið sig mun betur en bæði evran og norska krónan síðasta misserið.

ESB-sinnarnir í "Viðreisn" reyna ísmeygilega að ná inn á íbúðaeigendur sem glíma við háar vaxtagreiðslur. Ládeyðan, sem birtist í sáralitlum hagvexti í athafnalífi og vinnumarkaði í Evrópusambandinu, er reyndar meginástæða lágra stýrivaxta, en í samfélagi eins og okkar sem einkennzt hefur af stöðugum vexti öll síðustu ár, verður aldrei miðað við 0% vexti!

Hitt er staðreynd, að bankar okkar hafa komizt upp með okurvexti allt of lengi, en stjórnvöld hafa daufheyrzt bæði við afnámi verðtryggingar og að lögleiða hámarksþak á vexti. 2% vextir ofan á verðtryggð lán í stað 5 eða 5,5% myndi bjarga mörgun íbúðaeigendum að glíma við afborganir lána sinna. Það heyrir því miður til undantekninga, að stjórnmálaflokkarnir boði slíka stefnu sem sína, en er þó til. Slíkar hugmyndir finnast þó sízt alls hjá "Viðreisn", enda vill hún ekki reisa við efnahag fólks með þessari aðferð, heldur einmitt notfæra sér núverandi ástand til að gera lítið úr krónunni og möguleikum íslenzks efna­hagskerfis til að leysa vandamálið, og þau benda á evruna sem dýrð­ar­innar patentlausn í staðinn -- jafnvel þrátt fyrir að nú hrikti í stoðum evrunnar og viðbúið að evrusvæðið geti skroppið saman, þar sem innan þess er erfitt að sætta mismunandi aðstöðu og hagsmuni ríkra þjóða eins og Þýzkalands og Hollands gagnvart hins vegar Suður- og Austur-Evrópuríkjum innan þess myntsvæðis.

Þetta spursmál um viðráðanlega vexti er þannig engan veginn forsenda þess að líta á evruna eða tengingu við hana sem einhverja augljósa patentlausn fyrir lántakendur. 

Þar að auki þegja þessir predikarar Evrópusambandsins um það sem hangir alltaf á spýtunni á bak við þetta vaxta- og evrutal þeirra, þ.e. um langtum stærri mál, sem þeir ætla þó þjóð sinni að kyngja eins og ekkert sé og helzt án þess að hún viti af því: að Ísland yrði, sem meðlimaríki í hinu sakleysislega hljóðandi "ESB", svínbeygt undir æðsta löggjafarvald ráðherraráðsins í Brussel og annarra lagastofnana Evrópusambandsins.

Og af því að þessir sömu predikarar, hvort sem þeir heita Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson eða Benedikt Jóhanneson, eru sífellt að tala um, að þau vilji "sjá hvernig samningurinn verður," þá ættu þau án tafar að byrja á því að gera kjósendum heiðarlega grein fyrir því, að með inntöku lands okkar í Evrópu­sambandið fengjum við yfir okkur allt lagakerfi þess stórveldis, sáttmála þess og önnur lög, alls rúmar 100.000 bls., og allt sem á eftir að bætast þar við, án neitunar­valds af okkar hálfu og með einungis 0,06% atkvæðahlut okkar í ráðherra­ráðinu! Þar við bætist það ákvæði á 1. blaðsíðu nefnds inntöku-"samnings" (accession treaty), að þar sem ESB-lög rekast á landslög hér, forn sem ný, þar skuli ESB-lög ráða. Þannig er allt æðsta löggjaf­ar­vald fært í hendur ESB-stofnana og verða ekki lengur á valdi Alþingis og heldur ekki forseta Íslands né þjóðarinnar í neinum málum, sem rekast á ESB-löggjöf. Jafnvel ákvæði stjórnar­skrár Íslands myndu ekki halda, ef þar verður árekstur við ESB-lagaverkið.

Af hverju spyrja menn ekki þetta keika og kokhrausta fólk, Þorgerði Katrínu, Jón Steindór, Benedikt og Þorstein Víglundsson, út í ÞESSA HLUTI í kosninga­baráttunni? Er mönnum bara alveg sama um að glata æðsta löggjaf­arvaldi, sem Jón forseti og sporgöngu­menn hans höfðu af elju og trúmennsku reynt að ávinna okkur, í hendurnar á valdaklíku stórveldabandalags? Og þar fyrir utan færi æðsta framkvæmdavald og æðsta dómsvald einnig til stofnana þess sama Evrópusambands!

* Þetta er margfaldlega viðurkennt og áréttað í leiðurum viðskipta­blaðamannsins glöggsýna, Þorbjarnar Þórðarsonar, í Fréttablaðinu síðari hluta nýliðins sumars.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Viðreisn vill frjálslynda miðjustjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ógeðfellt er í einni lest

Evrópusambandsvinnuhjú

sorglegan með sinn siðferðisbrest

svikul þar líta í vondri trú ---

flokkana þá, sem fullveldið smána,

fláráðir hyllandi íslenzkan fána,

sjálfstæðið þótt þeir seldu í dag

fyrir silfurbuddu, í eigin hag!

 

                                                                                                             P.t. Egilsstöðum, 13x16.

Jón Valur Jensson, 20.10.2016 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband