23.9.2016 | 13:22
Alþingismenn kunna ekki að fara rétta leið til að virða landsréttindi okkar og eigin stjórnarskrá!
Komnar eru þær lyktir í hið mjög svo skaðvænlega mál um valdframsal til fjármálaeftirlits ESB, að þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar þar um var samþykkt með 31 atkvæði gegn 18.
Við eigum að segja upp EES-samningnum, það sýnir málið allt í raun, því að áfram mun verða gengið á okkar eigin réttindi með þessu móti, og hér var anað út í þá ófæru að heimila erlendu valdi að stöðva jafnvel eða banna tímabundið rekstur fyrirtækja og beita þau sektum, án þess að íslenzkir dómstólar hafi neitt um það að segja, jafnvel ekki Hæstiréttur, heldur skuli Evrópusambands-dómstóllinn settur þar yfir þau málefni!
Að því er undirrituðum heyrðist, hrökk enginn stjórnarþingmaður (jafnvel ekki Vigdís) úr skaftinu hjá leiðtogum þeirra flokka, jafn-háalvarlegt og yfirmáta vafasamt og málið er og var réttilega gagnrýnt af þremur prófessorum sem sérfróðir eru í stjórnskipunar- og/eða ESB-rétti: Björgu Thorarensen, Skúla Magnússyni og Stefáni Má Stefánssyni.
Málið allt er hneisa fyrir Alþingi og Sexflokkinn allan, sem þar heldur áfram að fremja hin alvarlegustu þingglöp.
En "veika hliðin" á stjórnarandstöðunni í þessu máli, öllu heldur hennar óforsvaranlega stefna í málinu, var sú, að breyta ætti stjórnarskránni til að gefa eftir þetta fullveldisframsal. Það hefur alla tíð frá 2009 verið markmið landsölumanna eins og Össurar Skarphéðinssonar, Árna Páls, Katrínar Júlíusdóttur, Helga Hjörvar, Steingríms J., Katrínar Jakobsdóttur og Oddnýjar G. Harðardóttur, og flestallir stjórnarandstæðingar, sem ræddu málið í ræðustól þingsins nú í hádeginu eða gerðu grein fyrir atkvæðum sínum, reyndust vera fylgjandi þeirri "nýju stjórnarskrá" sem ólöglegt "stjórnlagaráð" skilaði af sér 2011 og 2012, með mörgum tugum ágalla sem heill her lögfræðinga og annarra sérfróða þurfti síðan að reyna að lappa upp á.
Sjálf þjóðaratkvæðagreiðslan um málið 20. okt. 2012 var sömuleiðis ólögmæt, ekki aðeins vegna grundvallar-ólögmætis "ráðsins", sem skipað hafði verið af 30 þingmönnum 24.3. 2011 með lagabroti gegn þágildandi lögum nr.90/2010 um stjórnlagaþing og kosningalöggjöf landsins, sem og gegn úrskurði Hæstaréttar, því að til viðbótar kom hitt, að í því langa og flókna, tvídálka, 47 blaðsíðna plaggi, sem landsmönnum var sent með fremur stuttum fyrirvara fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, vantaði nokkrar setningar í 15. tillögugreinina, þannig að þjóðin var ekki fullupplýst um, hvað verið var að kjósa um! Og þetta var aðeins ein margra missmíða á öllu þessu illa til stofnaða smíðaverki, sem hlutdrægur hagsmunaaðili, Illugi Jökulsson, hafði hvatt til að anað yrði út í þvert gegn úrskurði Hæstaréttar og þágildandi lögum. Og vegna allra þessara augljósu, marg-gagnrýndu missmíða, sem og vegna ólögmætrar stofnunar "stjórnlagaráðs" og ósæmandi aðferðar, sem beitt var þá að auki, sóttu aðeins 49,8% þjóðarinnar þessa yfirlýst merkilegu þjóðaratkvæðagreiðslu!
Þar að auki hefur þjóðin aldrei kosið þessar tillögur "ráðsins", sem aðeins hafði umboð hinna 30 þingmanna -- aldrei kosið þetta 114-115 greina vandræðaplagg sem slíkt sem nýja stjórnarskrá landsins, enda er í 1. lagi engin heimild til slíks skv. ákvæðum 79. greinar núgildandi stjórnarskrár, og í 2. lagi var þjóðin ekki að kjósa um þetta plagg sem beina tillögu um stjórnarskrá, heldur hvort hún vildi, að tillögur stjórnlagaráðs yrðu "lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá". Og þetta er EKKI að kjósa nýja stjórnarskrá, eins og þjóðin gerði 1944.
Lýðveldisstjórnarskráin, með nokkrum breytingum sem gerðar voru á henni á 20. öld, er því enn í fullu gildi.
Jón Valur Jensson.
Umdeilt mál samþykkt á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:26 | Facebook
Athugasemdir
Alþingi með ríkisstjórn Íslands tekur Obama á þetta, þ.e. að vanvirða lög og reglur og brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Með svona löguðu verður lýðveldið að engu og Ísland selt undir heims elítuna sem fer fyrir NWO (New World Order) sem Obama talaði fyrir á þingi Sameinuðu þjóðanna um daginn.
Skömm sé Alþingi að framselja íslenskan rétt í hendur alþjóðlegra yfirvalda, þeirra sem hafa ekki hagsmuni Íslands eða annarra þjóða að leiðarljósi heldur nota völd sín sjálfum sér til framdráttar.
Tómas Ibsen Halldórsson, 23.9.2016 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.